10. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Félag sjúkrahúslækna. María I. Gunnbjörnsdóttir
Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.
Minning
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
Fallinn er frá Gunnar Mýrdal Einarsson brjóstholsskurðlæknir. Hann var kjörinn fulltrúi Félags sjúkrahúslækna í stjórn LÍ. Mikil eftirsjá er að þessum öfluga manni. Minning hans lifir í huga okkar sem vorum svo lánsöm að kynnast honum. Sem félag getum við haldið minningu hans á lofti með því að nálgast málefni af því hispursleysi sem einkenndi Gunnar.
FSL
Félagsmenn eru í dag tæplega 450 og hefur félagið stækkað á síðustu árum. Þegar þetta er ritað er búið að fresta aðalfundinum í annað sinn vegna COVID-19. Ný dagsetning er 14. október næstkomandi. Á fundinum verður auk lögboðinnar dagskrár umræða um læknaráð, námsleyfi lækna og horfur í heilbrigðismálum í kjölfar COVID-19, svo það helsta sé nefnt. Verkefni félagsins í vetur verða að þétta net trúnaðarmanna og fylgjast grannt með þróun tölvukerfa og byggingu Landspítala til að tryggja viðunandi starfsumhverfi lækna í framtíðinni.
Á þessum tímapunkti er mér efst í huga hvernig við tryggjum lífvænleika „læknaráða“ í landinu sem og áhrif lækna á málefni líðandi stundar með framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu í huga. Ég trúi því að læknar hafi vit á heilbrigðismálum og þurfi að hafa fulltrúa þar sem ákvarðanir eru teknar, bæði á vinnustöðum og í stefnumótun. Það er mikilvægt að hafa áhrif á sínum vinnustað en hvernig ætlum við læknar að gera það í framtíðinni? Við þurfum standa vörð um okkar fag og starfsumhverfi í stóru og smáu. Snúa vörn í sókn, koma með tillögur til úrbóta, sýna frumkvæði í okkar málum.
Læknaráð
Eins og læknar vita var samþykkt á Alþingi breyting á lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu í júní síðastliðnum. Þar með eru læknaráð ekki til lengur í lagalegum skilningi. Þess ber að geta að þessum breytingum var mótmælt ítrekað og sendar inn rökstuddar athugasemdir frá samtökum lækna í samráðsgátt stjórnvalda.
Allar breytingar kalla á endurskoðun og geta verið til bóta ef rétt er haldið á spilunum. Tími endurskipulagningar er runninn upp því þeirri þekkingu og reynslu sem hefur skapast innan vébanda læknaráða landsins þarf að halda til haga. Læknar hafa skipulagt fræðslu, staðið vaktina í málefnum kollega og sjúklinga, haft augun á lyfjamálum, húsnæðismálun, kjaramálum og ráðningamálum, svo það helsta sé nefnt.
Nú eru breyttar aðstæður og mikilvægt að nota tímann til markvissrar umræðu. Á þessum tíma eru margar hugmyndir á lofti og því ber að fagna. Mikilvægt er að skoða málið frá sem flestum sjónarhornum. Tímabært er nú að leggja mat á stöðuna, fara í sjálfskoðun og greiningarvinnu. Höfum við kraft til að byggja upp á gömlum grunni nýtt læknaráð með skýr markmið og slagkraft, drifið áfram af hugsjón lækna um heilbrigðisþjónustu af bestu gæðum? Ráð sem grundvallast á faglegri þekkingu og reynslu þeirra sem veita þjónustuna? Læknar eru lykilstarfsmenn í heilbrigðiskerfinu að öllum öðrum fagstéttum ólöstuðum.
Velferðarmál
Áhyggjuefni er hvernig samdráttur í efnahag ríkisins mun birtast í fjármögnun heilbrigðisþjónustu landsmanna á komandi árum. Áratuga vanáætlun í málflokkinn (miðað við þau lönd sem við oftast berum okkur saman við) í ljósi núverandi aðstæðna vekur ugg í brjósti. Vonandi skilja stjórnvöld mikilvægi þess að vernda þessa grunnstoð íslensks þjóðfélags á komandi árum.
Uppbygging viðunandi húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu má ekki dragast á langinn. Einnig þarf að styðja við starfsemi heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni til að bæta þjónustu í heimabyggð. Þéttofið net heilsugæslu, heilbrigðistofnana og háskólasjúkrahúsa er landsmönnum öllum til bóta. Skýr verkaskipting, fjármagn sem styður við starfsemina, góð mönnun og viðunandi starfsumhverfi eru mikilvægir þættir. Samtengd tölvukerfi og fjarskiptabúnaður leika sömuleiðis lykilhlutverk. Allt þetta er nauðsynlegt til þess að læknar geti sinnt faglegu hlutverki sem er að beita sannreyndri þekkingu og færni til að lækna og líkna.
Allir læknar hafa eitthvað til málanna að leggja og vil ég hvetja félagsmenn til að hafa samband við Félag sjúkrahúslækna með hugmyndir sínar (fsl@lis.is). Eflum samstöðu okkar, stofnum sjálfstæð fagráð lækna um allt land og höfum þannig áhrif á þróun mála, faginu og skjólstæðingum okkar til framdráttar.
Að lokum við ég minna á komandi aðalfund FSL og hvetja félagsmenn til að mæta og taka þátt í umræðum um sameiginleg hagsmunamál.