10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Starfsemi Landspítala dregst saman

Samdráttur hefur orðið á klínískri þjónustu Landspítalans fyrstu 6 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Ljóst er að heimsfaraldur hefur haft áhrif á starfsemi Landspítala.

Starfsemi Landspítala hefur dregist mjög saman í heimsfaraldrinum og ólíklegt að í lok árs muni afköstin reynast þau sömu og í fyrra. Mynd/Védís

Sjúklingum sem liggja inni hefur fækkað um 7,2% að meðaltali á dag milli ára. Þá hefur legudögum á legudeildum og bráðadeild í Fossvogi fækkaði um 8,1% á sama tíma. Heimsóknum á bráðamóttökur fækkaði um 12,5% og 12,4% á göngudeildir. Þetta kemur fram í starfsemisupplýsingum Landspítala. Þá fækkaði skurðaðgerðum um 12% og dagdeildaraðgerðum um rétt tæplega það sama.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra spítalans, segir að í heimsfaraldrinum hafi biðlistar lengst. Þá hafi símaþjónusta og fjarlækningar aukist á tímabilinu sem vegi minni þjónustu upp. „Við vinnum nú hörðum höndum að því að auka starfsemina á ný. Við byrjuðum á því strax í sumar og sjáum á tölum síðan þá að það hefur tekist,“ segir hún. Það taki þó líklega meira en árið að koma hlutum í samt horf.

„Ég er ekki viss um að við náum að vinna upp tapaða þjónustu á árinu en við stefnum að því að vinna hratt og vel. Auk þess vitum við ekki hvað gerist á næstu vikum og mánuðum í þessum faraldri. Smitum fjölgar hratt á heimsvísu og raunar hér innanlands nokkuð líka,“ sagði Sigrún Anna þegar Læknablaðið náði tali af henni um miðjan september.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica