10. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Læknar óttast um símenntun sína í heimsfaraldrinum segja Reynir Arngrímsson og Páll Matthíasson

„Við veltum fyrir okkur hvort Landspítalinn neiti að auka sveiganleika í kringum námsleyfisréttindi lækna nú í faraldrinum til að spara fé fyrir spítalann,“ segir Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Félagið óskaði eftir því við spítalann að námsleyfi lækna fyrnist ekki á næstu misserum og að læknar sem breyta um vinnustað eða hætta í starfi 2020 fái að taka áunnið námsleyfi eða það verði greitt út við starfslok. Óskinni var hafnað þar sem hún væri fordæmisgefandi fyrir aðrar stéttir.

Reynir segir lækna hafa áhyggjur af símenntun sinni nú þegar ráðstefnuhald liggi að mestu niðri vegna heimsfaraldursins. Samkvæmt kjarasamningi eigi þeir rétt á 15 daga launum til að sækja námskeið, dagpeningum og greiðslu ferðakostnaðar.

Reynir Arngrímsson formaður Læknafélags Íslands.

Vegna heimsfaraldursins hefur spítalinn tekið fyrir allar ferðir lækna á ráðstefnur utan landsteinanna. Í bréfi til Læknafélagsins er einnig hafnað að fyrna ekki námsréttindi um næstu áramót.

Landspítali er ekki einn um að banna námsleyfisferðir utanlands í ár. Það lítur út fyrir að allar heilbrigðisstofnanir hafi gert það, samkvæmt bréfi sem formaður Læknafélagsins sendir á félagsmenn sína.

Læknablaðið leitaði eftir viðbrögðum spítalans. Óskað var eftir upplýsingum um heildarkostnað við námsferðir árin 2015, 2017, 2019 og það sem af er ári. Einnig eftir viðbrögðum forstjóra eða framkvæmdastjóra mannauðssviðs við tveimur spurningum. Hvort þau tækju undir áhyggjur lækna af símenntuninni og hver afstaða þeirra væri til orða formanns félagsins um að spítalinn væri að nýta kófið til að spara útgjöldin.

Viðbrögðin voru þau að vísa á pistil forstjórans frá 14. ágúst. Hann segir þar að sí- og endurmenntun sé mjög mikilvægur þáttur í starfi háskólasjúkrahúss. Hann hvetji starfsfólk og stjórnendur til að skoða og nýta sér valkosti eins og innanlandsráðstefnur og námskeið, ráðstefnur og námskeið gegnum fjarfundi eða aðrar rafrænar leiðir.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala.

„Um leið vil ég minna á að þótt ekkert sé ferðalagið þá er í fullu gildi sá möguleiki að fá námskeiðskostnað greiddan sem og að nýta rétt sinn til námsleyfis til að mæta fjarveru frá vinnu til að stunda þessa sí- og endurmenntun,“ ritar Páll og minnir á að kjarasamningurinn gildi að öðru leyti. Samkvæmt upplýsingum blaðsins vinnur spítalinn enn að gagnaöflun vegna fyrirspurnarinnar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica