09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Minningargrein um Ian Jackson

Dr. Ian Jackson lést 2. ágúst 2020 á heimili sínu í Bandaríkjunum, 85 ára gamall. Síðustu 10 ár ævinnar herjaði Alzheimer-sjúkdómurinn á hann.

MYND: Ian og Marjorie Jackson ásamt Sigurði E. Þorvaldssyni lýtalækni og eiginkonu hans Jónu Þorleifsdóttur á þingi Norrænna lýtalækna í Reykjavík árið 2010.

Ian var sannur Skoti, glaðvær og harðduglegur. Menntaður í Skotlandi og starfaði við Canniesburn-spítalann í Glasgow uns hann fór til Bandaríkjanna 1979 þar sem honum bauðst staða yfirlæknis við Mayo Clinic í Minnesota. Árið 1989 fluttist hann til Michigan og setti á stofn The Craniofacial Institute við Providence-spítalann í Southfield.

Ian kom fyrst til Íslands 1978 í boði Skurðlæknafélags Íslands og hélt fyrirlestra um þann þátt lýtalækninga sem hann fékkst við, einkum óvenjuleg vandamál á andlitsbeinum, sem voru tilkomin ýmist vegna slysa, afleiðinga krabbameinsaðgerða eða voru meðfædd. Ian var þá þegar í fremstu röð skurðlækna sem voru að þróa sérgrein þá sem á ensku er kölluð Craniofacial surgery. Hann átti eftir að koma oft til Íslands og flytja fyrirlestra á þingum Skurðlæknafélagsins og þegar íslenskir læknar sáu um þing Norrænna lýtalækna.

Einnig kom Ian oft hingað til að leysa erfið læknisfræðileg vandamál með íslenskum kollegum sínum sem áttu þar vísan stuðning.

Ian og konu hans Marjorie leið vel á Íslandi og eignuðust hér marga vini. Þessi skosku hjón sögðu oft að hér væru þau eins og heima hjá sér og áttu þá við bæði land og þjóð. Við söknum góðs kollega og sanns vinar.

Sigurður E. Þorvaldsson

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica