09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Frá Félagi læknanema. Eiga læknanemar að fá aðild að LÍ?

Nú er að ljúka viðburðaríku sumri hjá fjölmörgum læknanemum sem hafa starfað í afleysingum víðs vegar um landið. Þar fáum við tækifæri til að taka okkar fyrstu skref í starfi og afla dýrmætrar reynslu og þekkingar. Til að tryggja öryggi sjúklinga og nema sem best er þó mikilvægt að stöðurnar séu vel skilgreindar og að læknanemar fái viðeigandi leiðsögn. Eingöngu þannig geta nemarnir starfað í viðunandi fagumhverfi.

Þegar kemur að réttinda- og kjaramálum eru nemar í afleysingum hins vegar síður en svo í vernduðu starfsumhverfi. Læknanemar vinna eftir kjarasamningi Læknafélags Íslands (LÍ) en hafa þrátt fyrir það ekki aðild að LÍ sem stéttarfélagi. Læknanemar eru því í raun samningslausir þegar kemur að kjaramálum og tilheyra ekki því félagi sem semur um þeirra kaup og kjör. Það þýðir að ef upp koma ágreiningsmál við vinnuveitanda, til að mynda um túlkunaratriði kjarasamninga, er enginn sem hefur það hlutverk að standa vörð um réttindi læknanema. Því getur vinnuveitandi leyft sér að haga málum læknanema eins og hann kýs, vitandi að afleiðingar af réttindabrotum í garð læknanema verða litlar eða engar. 

Læknanemar hafa þess vegna lengi barist fyrir því að fá aðild að LÍ. Bæði til að tryggja kjarasamningsbundin réttindi í gegnum stéttarfélagsaðild og til að verða hluti af fagfélagi lækna. Nú stendur til að stjórn LÍ leggi fram lagabreytingartillögu þessa efnis á næsta aðalfundi LÍ. Við höfum fundið mikinn meðbyr með okkar sjónarmiðum í þessu máli og fyrir það erum við þakklát.

Málið á sér nokkurn aðdraganda í þessari atrennu. Stjórn Félags læknanema (FL) hóf samtalið árið 2018 og aflaði upplýsinga um stöðu nema hjá læknafélögum á öðrum Norðurlöndum og meðal annarra heilbrigðisstétta á Íslandi. Sú vinna leiddi í ljós að mörg fordæmi eru fyrir því að læknanemar og nemar í heilbrigðisgreinum hafi aðild að stéttarfélagi sinnar starfsgreinar. Í kjölfarið skrifaði stjórn FL grein í Læknablaðið sem bar heitið „Stéttlausir læknanemar“ til að vekja athygli á málinu. Á aðalfundi LÍ 2019 var svo samþykkt ályktunartillaga sem Félag almennra lækna (FAL) lagði fram um hvernig mætti hátta inngöngu læknanema í LÍ. Sú tillaga fól í sér að skipaður yrði starfshópur með aðkomu allra aðildarfélaganna og læknanema. Starfshópurinn ætti að útfæra skynsamlega aðild læknanema að LÍ sem breið sátt gæti ríkt um. Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar LÍ, leiðir starfshópinn. Hópurinn hefur verið að störfum í sumar og mun á næstu vikum skila tillögu til stjórnar LÍ. Lagabreytingartillagan verður sniðin að niðurstöðum starfshópsins.

Þrátt fyrir að talsvert sé liðið frá því að baráttan hófst er ekki hægt að segja að þörfin fyrir slíka breytingu hafi minnkað. Fjölmörg ágreiningsmál hafa komið upp síðastliðinn vetur þar sem læknanemar hafa verið ósammála túlkun vinnuveitanda á kjarasamningnum. Starfandi læknanemar hafa verið rækilega minntir á hve erfitt það getur verið að reka slík mál utan stéttarfélags. Læknanemar hafa því endurtekið leitað eftir aðstoð hjá LÍ og FAL sem hafa liðsinnt okkur eftir megni í þessum efnum í ljósi aðstæðna. Þetta undirstrikar að þörfin fyrir aðild læknanema að LÍ er brýn og ótvíræð. Eðlilegast væri ef læknanemar ættu formlega rétt á aðstoð en þyrftu ekki að reiða sig á velvild embættismanna eða starfsmanna ofangreindra félaga.

Við teljum einnig æskilegt að læknanemar hafi aðgang að LÍ sem fagfélagi. Það er mikilvægt að efla sem fyrst á starfsferlinum stéttarvitund og samstöðu meðal lækna og þar ber einnig að huga að yngri kollegum, læknum framtíðar. Með því að veita læknanemum aðild getur LÍ ennfremur haft áhrif á hvernig stöður læknanema eru skilgreindar. Þannig getur félagið betur staðið vörð um hagsmuni læknanema og tryggt að ábyrgð í starfi sé við hæfi. Sú tilhögun eykur öryggi sjúklinga og læknanema í afleysingum.

Það er í senn skemmtilegt og lærdómsríkt að fá viðeigandi afleysingastarf sem læknanemi. Vinnuframlag læknanema í slíkum störfum hefur skipt miklu fyrir marga þætti heilbrigðisþjónustunnar á síðustu árum og áratugum. Með því að bjóða læknanema velkomna í LÍ er unnt að skapa traustari umgjörð fyrir læknanema í slíku starfi og huga betur að réttindum þeirra og öryggi. Það er að okkar mati afar óheppilegt og ekki í takt við raunveruleikann að læknanemar standi utan stéttarfélags og eigi sér ekki málsvara ef brotið er á þeim eða ef önnur vandamál koma upp. Þessu er hægt að breyta á næsta aðalfundi LÍ.

Við treystum á stuðning ykkar á aðalfundinum!Þetta vefsvæði byggir á Eplica