09. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Lögfræði 37. pistill. Sóttvarnalögin

Um þessar mundir er hálft ár frá því að fyrsti sjúklingurinn með COVID-19 greindist hér á landi og hættustig almannavarna var virkjað.  

Aðgerðir af hálfu yfirvalda til að hindra útbreiðslu sjúkdóma eru ekki nýjar af nálinni. Fyrstu skipulegu aðgerðirnar af þessu tagi má rekja til Feneyja og Mílanó á 14. öld þegar svarti dauði breiddist um Evrópu. Sýktum einstaklingum var meinuð aðganga að borgum þannig að allir sem komu til hafnar voru settir í sóttkví. Fyrst voru menn látnir dvelja í sóttkví í 30 daga, tertiana. Síðar töldu menn þann tíma of stuttan og hann var lengdur í 40 daga, quarantina. Þaðan er hugtakið quarantine dregið sem notað er um sóttkví. Þessar aðferðir voru notaðar í Evrópu fram á 19. öld, oft með góðum árangri. Stundum var gripið til enn harkalegri aðgerða eins og að brenna eignir smitaðra einstaklinga. Réttlæting aðgerðanna var þá eins og nú að heilbrigði fjöldans væri mikilvægara en eignir og frelsi einstaklinga sem gætu verið smitaðir.

Allar aðgerðir sem gripið hefur verið til hér á landi, frá því að fyrsta smitið greindist, byggja á sóttvarnalögum nr. 19/1997. Við gildistöku þeirra féllu úr gildi mörg eldri lög á þessu sviði, sóttvarnalög frá 1954, farsóttalög frá 1958 sem og lög um sóttvarnir gegn einstökum sjúkdómum eins og holdsveiki, berklum, kynsjúkdómum, fýlasótt og sullaveiki.

Sóttvarnalögin gera greinarmun á almennum sóttvörnum, sem eru þær ráðstafanir sem ávallt skal beita vegna smitsjúkdóma og opinberum sóttvörnum, sem eru þær ráðstafanir sem beita skal vegna hættulegra smitsjúkdóma þegar hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, þegar hætta er á útbreiðslu farsótta innanlands og þegar smitaður einstaklingur skapar hættu á útbreiðslu smits með framferði sínu. 

Nánar er fjallað um opinberar sóttvarnaráðstafanir í IV. kafla laganna. Þær eru af þrennum toga:  

1) Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands, sbr. 12. gr. laganna. Til þeirra teljast einangrun smitaðra, sótthreinsun, afkvíun byggðarlaga eða landsins alls, lokun skóla og samkomubann. Meginreglan er sú að heilbrigðisráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis ákveður hvort til þessara opinberu sóttvarnaráðstafana skuli gripið. Sóttvarnalæknir hefur þó samkvæmt lögunum vald til að beita þessum vörnum til bráðabirgða án fyrirfram heimildar ráðherra, ef hann telur að hvers konar töf sé hættuleg. Í faraldrinum núna voru til dæmis settar reglur um sóttkví og einangrun vegna COVID-19 nr. 362/2020.

2) Sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, sbr. 13. gr. lag-anna. Setja skal reglugerð í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóða-heil-brigðis-stofnunar-innar. Nýjasta útgáfa hennar er frá árinu 2005 og tók gildi tveimur árum seinna. Markmið reglugerðarinnar er að hindra alþjóðlega útbreiðslu smitsjúkdóma og sjúkdóma af völdum eiturefna og geislavirkra efna án þess að valda ónauðsynlegri röskun á alþjóðlegri umferð og viðskiptum. Mörg ákvæði endurskoðuðu reglugerðarinnar byggðust á reynslu sem fékkst á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar. Eldri reglugerð tók einungis til nánar tilgreindra smitsjúkdóma. Endurskoðaða reglugerðin nær til allra sótta sem breiðst geta út og ógnað þjóðum heims. Reglugerð um sóttvarnaráðstafanir nr. 817/2012 hefur verið sett og breytt nokkrum sinnum, m.a. tvisvar eftir að COVID-19 kom upp.

3) Aðgerðir vegna hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum, sbr. 14. og 15. gr. laganna. Hér eru lögfestar heimildir sem beita má gagnvart einstaklingum til að fyrirbyggja eða hefta útbreiðslu smitunar sem ógnað getur almannaheill. Með aðgerðum er til dæmis átt við læknisrannsókn, einangrun hins smitaða á sjúkrahúsi og aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. Telji sóttvarnalæknir hættu á að næmar sóttir sem ógnað geti almannaheill berist til landsins, getur hann beint tilmælum til ráðherra um að setja reglugerð um að þeir sem koma til landsins og talin er hætta á að beri með sér slíkar sóttir skuli sæta læknisrannsókn í samræmi við nánar tilgreind ákvæði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar. Sett hefur verið reglugerð nr. 580/2020 um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Undir þennan flokk aðgerða fellur einnig heimild sóttvarnalæknis til að ákveða að leggja einstakling, haldinn smitsjúkdómi, á sjúkrahús í einangrun eða einangra með öðrum hætti ef hann fellst ekki á að fylgja reglum um umgengni við aðra eða rökstuddur grunur er um að hann hafi ekki fylgt slíkum reglum. Ef þetta er gert í andstöðu við hinn smitaða þarf sóttvarnalæknir strax að bera ákvörðunina skriflega undir héraðsdómara, sem ákveður með úrskurði hvort einangrun skuli haldast eða falla niður, en hún má ekki vara lengur en 15 sólarhringa í senn. Ef sóttvarnalæknir telur nauðsynlegt að hún vari lengur, þarf hann að nýju að bera kröfuna undir héraðsdóm. Málsmeðferð fyrir dómi frestar ekki framkvæmd einangrunar og skjóta má úrskurði dómara til æðri dómstóla.

Af þessari samantekt sést að löggjafinn hefur með samþykkt sóttvarnalaga ákveðið að stjórnvöld skuli hafa ríkar heimildir til að takmarka frelsi einstaklinga í þágu almannaheilla. Er það í samræmi við það viðhorf sem gilt hefur um aldir þegar kemur að sóttvörnum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica