07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Nýta mætti fé og mannafla betur en að skima við komuna til landsins segir Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir

Fyrrum landlæknir tók undir orð smitsjúkdómalæknis sem gagnrýndi ákvörðun um að skima alla við komuna til landsins

 „Betur færi á því að þeir fjármunir og mannafli sem fara í að skima ferðamenn sem hingað koma eftir 15. júní yrðu nýtt í annað sem kæmi okkur betur.“ Þetta sagði fyrrum landlæknir, Sigurður Guðmundsson, og tók þar með undir gagnrýnina sem Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala og dóttir hans, setti fram á málþinginu Út úr kófinu.

„Já, ég er sammála þessu mati Bryndísar bæði sem smitsjúkdómalæknir og fyrrum landlæknir,“ sagði hann við Læknablaðið í kjölfar erindisins.

„Við mörg höfum áhyggjur af því að setja þessa miklu orku, fjármuni og mannafla í þessa skimun sem sennilega er mjög götótt, eins og Bryndís rökstuddi réttilega og Þórólfur tók að einhverju leyti undir,“ sagði Sigurður.

Sigurður Guðmundsson, fyrrum landlæknir, tók undir gagnrýni Bryndísar dóttur sinnar á heilbrigðisyfirvöld. Myndir/gag

„Við erum mörg upptekin af því að það sé skynsamlegra að beita einfaldlega sömu aðferð, eins og Bryndís nefndi, eins og við höfum gert í gegnum allan faraldurinn, að prófa þá sem eru sýktir,“ sagði fyrrum landlæknir.

Hefði þurft meira samráð? „Það var haft samráð.“ Sjónarmiðin þeirra hafi komið skýrt fram. Opna megi landið. „En ég er algjörlega ósammála því að þessi skimun verði sett í gang eins og stefnt er að. Við getum notað þessa fjármuni miklu, miklu, miklu betur.“

Erindi Bryndísar vakti mikla athygli og var gert skil í fréttum. Hún tókst á við sóttvarnalækni í Kastljósi um kvöldið.

Bryndís benti á að ávinningur af því að skima alla væri lítill miðað við umfang og aðbúnað. Stefna sóttvarnayfirvalda væri gjörbreytt. „Það er umhugsunarefni að þetta verkefni hafi náð svona langt án þess að hugsað hafi verið til enda,“ sagði hún. Forgangsröðuninni væri snúið frá því sem áður var.

Hún spurði hvort ekki væri betra að skrá hverjir kæmu til landsins og einangra svo þá sem sýndu einkenni. „Það er einmitt það sem við gerðum til að ná utan um þennan faraldur. Gerðum það mjög vel. Við ættum frekar að nýta okkur það sem heimsfaraldurinn hefur kennt okkur hingað til: Virðing fjarlægðarmarka fyrir ákveðna hópa, handþvottur, endalok handabandsins og almennt hreinlæti. Hlutverk þessara þátta í baráttunni gegn veirunni má ekki vanmeta.“

Hún gagnrýndi þau orð að skimun við komu til landsins væri tækifæri fyrir veirudeildina til að sanna sig. „Við sýndum að við þurfum ekki að sanna okkur. Veirudeildin hefur verið fjársvelt lengi og skortur á almennilegum tækjum. Það þurfti heimsfaraldur til þess að fjárveitingarvaldið áttaði sig á því, og nú er mikil eftirspurn, og margra mánaða bið eftir tækjum.“

Hún benti á að landið væri COVID-save. „Eigum við ekki að halda því örlítið lengur fyrir okkur sjálf?“

Hún ítrekaði að heilbrigðiskerfið væri tilbúið fyrir næstu bylgju en hugsanlega væri of snemmt að opna landið 15. júní. Við fyrsta smit fari Landspítali fljótlega aftur á neyðarstig. „Við verðum þá enn og aftur að sætta okkur við takmarkanir, skerðingu á þjónustu og breytta forgangsröðun. Ég er ekki viss um að margir þeirra sem eru enn á biðlista eftir ýmiss konar þjónustu og aðgerðum munu sætta sig við það enn á ný og nógu erfitt er það með sumarorlof starfsmanna handan við hornið.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica