07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Ferðamennskan hafi verið bóla segir Gylfi Zoëga

Hagfræðingur mælir með því að fara hægt við að opna landið

„Ferðaþjónustubólan sprakk,“ sagði Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands á málþinginu.

„Ísland er hálaunaland. Það að láta láglaunagrein þenjast svona hratt út eins og var gert hér var óráð, algjört óráð,“ sagði Gylfi. Brestirnir hafi komið í ljós fyrir ári síðan. Samið hafi verið um kjör sem sviptu grundvellinum undan fjölda veitingastaða. Stór hluti ferðaþjónustunnar hafi verið óstarfhæfur fyrir faraldurinn.

„Ef ekki hefði komið COVID hefði þetta gefið eftir,“ sagði hann. Ekki sé skynsamlegt að byggja hagvöxt á lágum launum. „Þetta var bóla, ekki eðlilegt ástand.“

Hann benti á að samdrátturinn færi okkur aftur til ársins 2016. „Það var ekkert ömurlegt ár. Það var ágætt ár.“ Hins vegar lendi tjónið á fáum. Enn sé viðskiptajöfnuður jákvæður. „Þetta er tækifæri til að byggja atvinnulífið á annarri grein, búa til störf sem borga betur. Ísland er ekki láglaunaland. Þetta er tækifæri.“

Gylfi studdi það sjónarmið að taka stutt skref út úr kófinu, opna hægt. „Hagkerfið mun ná sér á strik,“ sagði hann. „Ef farsóttin endar núna í haust verður viðsnúningurinn snar.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica