07/08. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Erfiðari leið í vændum í COVID-faraldrinum. Sóttvarnalæknir varði ákvörðunina um að skima við opnun landsins
„Við erum komin á ákveðinn áfangastað og þurfum að líta til ýmissa átta hvert við ætlum að fara næst,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á málþinginu. Mörg sjónarmið séu um hvernig haga beri ferðinni.
„Ég held að sú leið sem fara á núna sé erfiðari og snúnari en þessi sem við höfum farið til þessa.“ Þórólfur ræddi framtíðarhorfurnar. Verkefni næstu mánaða og ára. Hann sagði að þar sem hér væri lítið samfélagslegt ónæmi væri mikið fóður fyrir veiruna. Hann telur að biðin eftir bóluefni verði lengri en margur býst við.
„Það tekur tíma og hefur alltaf gert að koma með virkt og öruggt bóluefni á markaðinn,“ sagði hann og að skimun á landamærastöðvum væri raunhæfur kostur þótt spyrja mætti hversu vel gangi að finna veiru hjá frísku fólki. Skimunin væri þó fjárfesting til framtíðar í búnaði og ferlum en ekki sóun á fjármunum.