07/08. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Líf landsmanna í forgrunni, Svandís á málþingi í HÍ

Heilbrigðisráðherra sagði vert að halda í traustið og endurmeta ákvarðanir er þyrfti

„Það er auðveldara í einhverjum skilningi að skerða réttindin fólks en að gefa þau til baka,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í erindi sínu á ráðstefnunni Út úr kófinu. Léttir hafi farið um samfélagið við festuna en nú greini fólk á hvernig gefa eigi fólki réttindin til baka. Engar handbækur séu til um hvernig eigi að opna landið að nýju eftir heimsfaraldur, eða takast á við faraldur sem þennan.

Svandís benti á að margir valkostir væru fyrir hendi um hvernig standa ætti að málum. Ekkert land hafi svarið við því hvernig eigi að gera þetta og hvert land verði að velja fyrir sig út frá sínum forsendum. „Hér eftir sem hingað til verður lögð áhersla á það fyrst og fremst að varðveita líf landsmanna.“

Svandís lagði einnig áherslu á að yfirvöld þyrftu að hafa „úthald“ í að skipta um skoðun: „Hafa efasemdir gagnvart ákvörðunum, endurmeta þær, sérstaklega þegar við höfum enga handbók um hvernig við eigum að gera þetta. En mikilvægast er að það sem við höfum í höndunum núna er traustið sem er í samfélaginu. Því þurfum við að halda áfram, fagna efasemdum og vangaveltum og muna að við byggjum ákvarðanir á trausti og þekkingu.“

Heilbrigðisráðherra fagnaði því að heilbrigðisstefnan hefði verið samþykkt í fyrra og lagði áherslu á að yfirvöld mættu skipta um skoðun í aðgerðum sínum gegn veirunni.Þetta vefsvæði byggir á Eplica