06. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Læknar uggandi yfir opnun landsins
Læknar stigu fram og gagnrýndu þá ákvörðun sóttvarnarlæknis og yfirvalda að opna landið fyrir ferðamönnum 15. júní.
„Margir af mínum kollegum eru mjög hugsi yfir þessu og jafnvel reiðir að þetta skuli vera gert,“ sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, á Morgunvakt Rásar 1 þann 18. maí.
Jón Magnús Jóhannesson, sérnámslæknir á Landspítalanum, sagði á Vísi þann 15. maí ákvörðunina tekna án þess að athugað væri hvort áætlunin væri raunhæf. Ragnar Freyr Ingvarsson, fyrrum yfirmaður COVID-19 göngudeildarinnar, lýsti einnig undrun sinni í fjölmiðlum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að læknar ættu að skoða heildarmyndina áður en þeir gagnrýndu ákvörðunina.
Mynd/gag