06. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Klökk yfir því að hljóta kennsluverðlaun læknanema
Læknanemar verðlauna Önnu, Bjarna og Jón, sem og kvennadeildina
Ingi Pétursson, Sólveig Bjarnadóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Teitur Ari Theodórsson, Kristín
Haraldsdóttir og Daníel Pálsson við viðurkenningarathöfnina. Mynd/aðsend
Félag læknanema veitti á dögunum viðurkenningar til þeirra sem hafa staðið sig sérstaklega vel við kennslu, leiðsögn og móttöku læknanema skólaárið 2019-2020. Anna Kristín Gunnarsdóttir, sérnámslæknir á geðsviði, hlaut deildarlæknaverðlaunin fyrir einstakan áhuga og metnað við kennslu læknanema.
„Ég er klökk yfir þeim heiðri að hljóta kennsluverðlaun læknanema. Landspítali er skólinn þeirra á 4.-6. ári og því er kennsla sjálfsagður hluti af starfi sérnámslæknis. Ég þekki vel á eigin skinni hvað það er nærandi þegar tekinn er tími í umræður á deild,“ segir Anna.
„Það eru forréttindi að hafa læknanema með í teyminu og hlusta á þau tjá sig um tilfellin og spyrja spurninga, þannig verður dýnamíkin svo miklu skemmtilegri. Ég vil þakka læknanemum fyrir innblásturinn sem þau gefa mér í vinnunni og hlakka mjög til áframhaldandi samstarfs,“ segir hún.
Bjarni Agnar Agnarsson og Jón Gunnlaugur Jónasson, prófessorar í meinafræði, hlutu kennsluverðlaun fyrir framúrskarandi kennslu, nýbreytni og hlýlegt viðmót. „Kennsla í meinafræði byggir nú í auknum mæli á vendikennslu auk þess sem vefjasýni fyrir verklega kennslu eru orðin stafræn og þeim fylgja kennslumyndbönd,“ segir í umsögninni.
Kvennadeild Landspítala hlaut heiðursverðlaun fyrir frábært kennsluumhverfi og framúrskarandi móttökur læknanema. Í umsögninni segir að í ár hafi verið tekin í notkun ný og endurbætt aðstaða fyrir læknanema í verknámi á kvennadeild sem sé til mikillar fyrirmyndar.
„Við tökum við þessari viðurkenningu með mikilli gleði, erum afar hreykin og komum henni til skila til ljósmæðra og annars starfsfólks kvennadeildar. Hér leggjast allir á eitt, það er lykillinn,“ segir Þóra Steingrímsdóttir prófessor undir viðurkenningunni á Facebook-síðu læknanema.
Heilbrigðisráðherra þakkar WHO fyrir hjálpina
Mynd/Skjáskot
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þakkaði fyrir leiðsögn og forystu WHO þegar hún ávarpaði þing Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar þann 18. maí. Hún hvatti til samstöðu þjóða. Þingið var haldið á netinu vegna heimsfaraldurs COVID-19. Faraldurinn var helsta umræðuefnið þingsins. Orð Svandísar féllu sama dag og Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði að stöðva allar greiðslur ríkisins til stofnunarinnar.