05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Nota hlífðarbúnað eingöngu við COVID-19

Raddir íslenskra lækna erlendis

Hvernig líður þér á þessum tímum kórónuveirunnar Covid-19? 

“Líðan eftir atvikum góð”. Við eigum þrjú börn undir sex ára aldri og hefur COVID-19 faraldurinn haft talsverð áhrif á heimilislífið vegna lokana í skólakerfinu. Við erum einnig vön að vera mikið með börnin úti t.d. í almenningsgörðum, á leikvöllum og fara með þau í Barnasafnið en það er allt saman einnig lokað núna. Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott og hefur upptaka fjarlækninga gert það að verkum að ég hef getað unnið að heiman og eytt meiri tíma með fjölskyldunni sem ég er þakklátur fyrir. 

Finnst þér þú nægilega varin/n hlífðarfatnaði við störf þín? 

Já ég myndi segja það. Allir starfsmenn hér fengu endurnýtanlega andlitshlífar til notkunar á öllum tímum í vinnunni auk þess sem við fengum endurnýtanlegar andlitsgrímur til almennrar notkunar þegar ekki er grunur um COVID-19 sjúkdóminn. Til að bregðast við aukinni þörf á hlífðarbúnaði hefur mörgum verkferlum verið breytt tímabundið, t.a.m. er hlífðarbúnaður eingöngu notaður núna fyrir COVID-19 sjúklinga og reynt að takmarka fjölda starfsmanna sem þurfa sinna sjúklingum. Líkt og á mörgum aðrir stöðum hafa verið teknir upp staðlaðir verkferlar varðandi endurnýtingu N95 gríma af illri nauðsyn. Vinnuherbergi og vinnustöðvar eru almennt stærri en ég vandist heima og eru allir starfsmenn skimaðir fyrir einkennum og hitamældir við innganga til að reyna stemma við smiti milli starfsmanna.  

Hefur tilkoma COVID breytt miklu í þinni daglegu vinnu? 

Já, mesta breytingin hefur orðið á göngudeildarstarfseminni. Námslæknar vinna tímabundið ekki lengur með sérfræðingum á göngudeildum undirsérgreina í lyflækningum. Á almennri göngudeild námslækna hefur starfsemin einnig breyst mikið með tilkomu fjarlækninga og myndbandsheimsóknum, þegar þess er kostur, til þess að reyna að minnka útsetningu sjúklinga og starfsmanna fyrir COVID-19.  

Á spítalanum er mest áberandi að námslæknar sinna nú ekki ráðgjöf undirsérgreina og eru í staðinn á bakvakt heima til að geta leyst af ef veikindi koma upp. Á almennu lyflæknadeildunum hefur ekki orðið mikil breyting á starfseminni, utan þess að læknanemar eru tímabundið ekki á kennsluteymum, enda hefur það verið yfirlýst stefna spítalans að sjúklingar sem leggjast inn með staðfest eða sterkan grun um SARS-CoV-2 smit leggjast ekki inn á kennsluteymi í almennum lyflækningum bæði til að spara hlífðarbúnað og takmarka útsetningu nema á meðan aðstæður leyfa. Námslæknar í almennum lyflækningum sinna þó SARS-CoV2 sjúklingum á sérhæfðari kennsluteymum og á gjörgæslu.  

Hefur þinn vinnustaður og stjórnendur hans brugðist rétt við farsóttinni þínu mati? En heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld? 

Já, mér finnst að stjórnendur spítalans og yfirmenn lyflæknaprógramsins hafi brugðist eins vel við og hægt var að búast við þær kringumstæður og þeim skorðum sem þeim voru settar vegna aðgerða og viðbragða stjórnvalda. Stjórnendur spítalans og yfirmenn lyflæknaprógramsins hafa haft reglulega fræðslufundi og upplýsingaflæði til starfsmanna varðandi faraldurinn hefur verið gott. Starfseminni hefur verið breytt, sbr svör að ofan, til að reyna að takmarka útsetningu starfsmanna og sjúklinga og hámarka nýtingu hlífðarbúnaðar. Það er samt ljóst að viðbrögð stjórnvalda hér í Bandaríkjunum hafa haft áhrif á getu heilbrigðiskerfisins til að hefja skimanir fyrir sjúkdómnum.  

Telur þú þessi faraldur breyti störfum þínum til framtíðar og þá hverju? 

Ég gæti vel trúað því að þetta gæti leitt til frekari innleiðingar fjarlækninga við hefðbundna göngudeildar- og heilsugæsluþjónustu.  

Mun heimurinn verða mikið breyttur eftir COVID?  

Allir eldar brenna út um síðir. Mér skilst að einhver mesta samfélagsþróunin eftir heimsfaraldurinn 1918 hafi verið styrking og samhæfing heilbrigðiskerfa og stofnana milli landa þar með talið stofnun forvera Alþjóðaheilbrigðisstofnuninar, en miðað við digurbarkalegar yfirlýsingar undanfarið vona ég bara við tökum ekki of mörg skref aftur á bak. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica