05. tbl. 106. árg. 2020
Umræða og fréttir
Reynt til hins ýtrasta að halda eðlilegri starfsemi uppi
Raddir íslenskra lækna erlendis
Hvernig líður þér á þessum tímum kórónuveirunnar COVID-19?
Sjálfur er ég nokkuð brattur. Líður vel á líkama og sál. Maður verður bara að dást að því þegar fólk stendur saman og aðlagar sig breyttum aðstæðum og allir að gera sitt besta.
Finnst þér þú nægilega varin/n hlífðarfatnaði við störf þín?
Við á gjörgæslunni/svæfingunni í Lundi höfum ekki enn fundið fyrir miklum skorti á hlífðarbúnaði og ég upplifi að við fáum það sem við þurfum. Skánn hefur þó verið með tiltölulega fá COVID-19 tilfelli, enn sem komið er. Áætlað er að við náum okkar toppi í byrjun/um miðjan maí.
Hefur tilkoma COVID breytt miklu í þinni daglegu vinnu?
Það hefur verið töluverður undirbúningur hjá okkur varðandi COVID-19 og bætt hefur verið við tveimur vaktalínum. Að mörgu leyti er þó hin daglega vinna svipuð. Í Lundi eru helst krabbameins- og bráðaskurðaðgerðir og hefur verið reynt til hins ýtrasta að halda uppi eðlilegri starfsemi á skurðstofunum. Veit þó að minni sjúkrahús í kring hafa breytt sinni starfsemi töluvert.
Hefur þinn vinnustaður og stjórnendur hans brugðist rétt við farsóttinni að þínu mati?
Í stuttu máli myndi ég segja að margt hefur verið vel gert, en ýmislegt hefði verið hægt að gera betur. Allir eru þó enn að læra og eru að gera sitt besta.
En heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld?
Sjálfur bý ég í Danmörku en starfa í Svíþjóð og viðbrögðin greinilega mismunandi hjá þessum stjórnvöldum og áhugavert að fylgjast með þróuninni. Ég er sjálfur ekki viss hvor aðferðafræðin er betri.
Tíminn mun líklega leiða það í ljós.
Telur þú að þessi faraldur breyti störfum þínum til framtíðar og þá hverju?
Ég held að þetta muni í raun ekki breyta miklu fyrir mig sem svæfinga- og gjörgæslulækni, en get ímyndað mér að fjarlækningar muni skipa stærri sess í framtíðinni.
Mun heimurinn verða mikið breyttur eftir COVID?
Ég er ekki viss um það. Mannskæðar farsóttir hafa herjað á mannfólkið frá örófi alda án þess að heimurinn breyttist mikið. Handabandið er ef til vill dautt.