05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Sjá aðeins bráðatilfelli á húðdeildinni, 3-5 sjúklinga á dag

Raddir íslenskra lækna erlendis

Hvernig líður þér á þessum tímum kórónuveirunnar COVID-19?  

Mér líður bara vel. Mér finnast þetta aðallega skrýtnir tímar. Maður getur ekki gert hluti sem manni finnast/fundust afskaplega eðlilegir. Eins og að ferðast að vild, utan- og innanlands.  Fara út að borða, láta klippa sig og þess háttar. Það er líka mjög skrítið/leiðinlegt að geta ekki hitt vini og vandamenn. En það er samt ótrúlegt hversu hratt þetta venst.  

Finnst þér þú nægilega varin/n hlífðarfatnaði við störf þín?  

Já. Á okkar spítala hefur það ekki verið vandamál. Ég tók samt eftir því að núna er sumum möskum ekki hent beint í ruslið eins og áður. Heldur eru þeir settir til hliðar og steriliseraðir einu sinni og notaðir aftur. Allt til að spara hlífðarfatnað.  

Hefur tilkoma COVID breytt miklu í þinni daglegu vinnu?  

Já mjög. Vinn núna heima þrjá daga í viku. Við sjáum líka mjög lítið af sjúklingum. Það var lokað á alla venjulega sjúklingameðferð. Við sjáum aðeins bráðatilfelli. Sem dæmi, við á húðdeildinni sjáum um það bil 3-5 sjúklinga á dag núna. Fyrir Covid voru það tugir sjúklinga. Á móti kemur að við hringjum mikið í sjúklingana og getum hjálpað þeim þannig. Við látum sjúklingana senda myndir og við erum að byrja að experimentera með vídeó-viðtöl.  

Hefur þinn vinnustaður og stjórnendur hans brugðist rétt við farsóttinni að þínu mati?  

Já, á heildina litið mjög vel. Það var mjög fljótlega mynduð áfallastjórn sem skipulagði hlutina. Lokað á venjulegt sjúklingastreymi, aukið rými fyrir covidsjúklinga og fjölgað gjörgæslurúmum. Þetta gekk allt saman mjög vel. Við lentum aldrei í neinum vandræðum. Það var líka gaman að sjá hvað er hægt að gera í svona krísu. Hlutir sem venjulega taka stundum mánuði eða jafnvel ár var hægt að redda á mjög stuttum tíma.  

En heilbrigðisyfirvöld og stjórnvöld? 

Þau hafa bara staðið sig vel. Í byrjun kannski svolítið róleg en hrukku svo í gírinn.   

Telur þú að þessi faraldur breyti störfum þínum til framtíðar og þá hverju?  

Já að einhverju leyti. Ég held að við munum nota símaviðtöl og kannski viðtöl miklu meira í framtíðinni. Fundahöld munu, held ég, eftir krísuna verða meira á netinu. Við munum halda áfram að koma saman en kannski munu netfundir aukast verulega. Allir eru búnir að fá nasaþefinn af þessari tækni og munu halda henni. Ég held líka að kennslan fari enn meira yfir á netið. Fyrirlestrar og svoleiðis.    

Mun heimurinn verða mikið breyttur eftir COVID?  

Ég gæti ímyndað mér að (löngum) ferðalögum á fundi muni fækka verulega. Fari mikið meira yfir á netið. En mannskepnan er líka fljót að gleyma. Ef til vill verður allt komið á fullt eftir nokkur ár. 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica