05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Kórónuveiran gæti haft varanleg áhrif á læknanámið, - segja kennslustjóri og forseti læknadeildar HÍ

Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á læknadeildina. Aðlögunin verið flókin en ljóst að ýmsar tækninýjungar eru komnar til að vera. Þetta segja Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir kennslustjóri og Engilbert Sigurðsson forseti læknadeildar Háskóla Íslands

Klínískum námstækifærum nema við læknadeild Háskóla Íslands hefur fækkað nú í kórónuveirufaraldrinum. Nemarnir hafa hins vegar fengið meiri tími til að lesa námsefnið

hlusta

„Þessi faraldur hefur varanleg áhrif á okkur öll,“ segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir kennslustjóri og bætir við: „Hann mun hafa varanleg áhrif á þau sem útskrifast sem læknar næstu árin. Áhrifin verða meiri á þau sem manneskjur og frekar þannig að þau búi yfir ákveðinni þekkingu heldur en að hann hafi áhrif á framtíðarmöguleika þeirra til starfa eða menntunar,“ segir hún.

„Ég tel ekki að við séum að fara að útskrifa lakari lækna þó að við aðlögum námið tímabundið að þessum breytta veruleika.“

 

Læknanemarnir mikilvægir

Engilbert Sigurðsson deildarforseti segir breytingar kennsluhátta miklar þareð kennsla sé nú rafræn í mun meira mæli en áður. „En að hve miklu leyti þeir eru komnir til að vera er erfitt að vita,“ segir hann og er sáttur við þær breytingar sem gerðar hafi verið á náminu. Víða hafi læknaskólar dregið meira úr kennslu en hér hafi verið gert og klínískt nám lagst alveg af frá og með marsmánuði í sumum skólum.

„Hæpið hefði verið að fara þá leið vegna þess að við reiðum okkur mikið á þetta unga fólk sem vinnuafl hér á landi, strax eftir fjórða ár.“ Hefðu læknanemar á seinni stigum námsins þurft að vinna upp verknám í sumar hefði ákveðin starfsemi í heilbrigðiskerfinu verið í uppnámi.

„Við töldum því einu færu og skástu leiðina í stöðunni að vinna með samkomubanninu, tveimur metrunum, og sóttvarnaviðmiðum. Ég tel að það hafi tekist furðu vel. Svo hjálpar að nútímatækni er orðin mjög góð til að leysa flest mál,“ segir Engilbert.

Þórdís bendir þó á að óvissuþættir fylgi kórónutímanum. Námið hafi því truflast hjá mörgum vegna skorts á aðstöðu. „Það er ákveðin hætta á einangrun og kvíða. Svo eru sumir nemendur með fjölskyldu og ekki góða aðstöðu til að stunda námið heima við,“ segir hún.

„Við eigum því eftir að sjá uppskeruna og bera saman hvort það verði hærra hlutfall sem fellur. En ég á ekki von á því,“ segir hún. „Ég hef trú á því að fólk nái að tileinka sér þá þekkingu sem þarf og geti haldið áfram.“

Aðkallandi breytingar

Þórdís telur að ástandið hafi opnað augu kennara og nemenda fyrir nýjum kennsluháttum og að þau haldi áfram að nýta sér möguleika á fjarkennslu og upptöku sem bjóðast.

„Við höfum séð á undanförum árum að nemendur sækja síður fyrirlestra en það gerði. Ungt fólk vill læra á sínum forsendum. Það vill kannski vera heima hjá sér og læra á nóttunni. Það vill afla sér upplýsinga frá öðrum miðlum en frá kennaranum. Þetta er eitthvað sem við erum meðvituð um og höfum horft til. Það verður ennþá augljósara þegar staðan er svona,“ segir Þórdís.

„Þetta ástand mun hins vegar ekki bylta neinu einn, tveir og þrír. Það verða einhverjir sem fara glaðir aftur til baka í gömlu glærurnar sínar og sömu kennsluhættina. Þeir virka og ekki vert að taka upp eitthvað nýtt bara af því að það er nýtt, en ég tel sérstaklega hvað varðar próf og uppsetningu þeirra og úrvinnsluna, þá er rafrænt prófakerfi eitthvað sem er komið til að vera,“ segir hún.

Engilbert segir að kórónutíminn muni opna á hvort hægt sé að kenna kjarnagreinarnar á netinu og jafnvel frá erlendum háskólum, jafnvel bestu háskólum í heimi. „Kennarinn væri þá meira í að leiðbeina í verklegu og taka þátt í umræðutímum.“ Hann segir ljóst að margar dyr opnist með rafrænni kennslu auk þess sem kolefnissporið minnki og tímastjórnunin batni.

„Þannig að sveigjanleikinn er kominn til að vera,“ segir hann en viðurkennir að rafræna fyrirkomulagið sé þó á köflum einmanalegt og mikilvægt að blanda saman því rafræna og hefðbundnum samskiptum. „Við munum áfram sækjast eftir því að vera innan um annað fólk, sérstaklega í litlum hópum. Það getur ekkert komið fyllilega í staðinn fyrir það.“

Engilbert segir aðgang læknanema að klínísku kennsluefni orðinn gríðarlega mikinn. „Það eru ekki bara bækur sem lýsa tilfellum heldur er hægt að fá rafrænar bækur, hægt að kaupa aðgang að rafrænum gagnagrunnum. Nemar í dag hafa ótrúlega fjölbreytt tækifæri til að tileinka sér þekkingu. En svo er það alltaf spurning hvernig þeim tekst að yfirfæra þekkinguna í færni.“

Laga hefur þurft námið við læknadeild Háskóla Íslands að breyttum veruleika vegna kórónu-faraldursins COVID-19. Viðtal Læknablaðsins við þau Þórdísi og Engilbert fór fram í gegnum fundaforritið Zoom. Mynd/gagÞetta vefsvæði byggir á Eplica