05. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Nýta gagnabanka Sidekick til að meta þróun veikinda COVID-19-sjúkra

Starfsfólk Landspítala og heilbrigðistæknifyrirtækið SidekickHealth ætla að rannsaka einkenni sjúklinga með COVID-19 til að auka þekkingu um framgang sjúkdómsins.

 Tryggvi Þorgeirsson, forstjóri SidekickHealth, segir fjarheilbrigðiskerfið geta flýtt því að gripið sé inn í þegar
sjúklingum versnar. Mynd/gag

Martin Ingi Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir í svæfinga- og gjörgæslulækningum á Landspítala, hefur fengið leyfi vísindasiðanefndar til að rannsaka gögnin sem safnast hafa í gegnum fjarheilbrigðiskerfi SidekickHealth. Safnað hefur verið yfir 1000 einkennamyndum frá sjúklingum með COVID-19. Þetta segir Tryggvi Þorgeirsson, læknir og forstjóri fyrirtækisins.

„Skoða á þróun einkenna hjá þessum hópi og hver þeirra hafa forspárgildi um slæman gang sjúkdómsins. Þannig getum við betur áhættumetið sjúklingahópinn út frá einkennamyndinni,“ segir hann. Martin Ingi er ábyrgðarmaður rannsóknarinnar, en auk hans koma ýmsir sérfræðilæknar á Landspítala að rannsókninni, svo sem Lovísa Björk Ólafsdóttir, Magnús Gottfreðsson og Ragnar Freyr Ingvarsson.

Athygli vakti þegar tókst að aðlaga fjarheilbrigðiskerfi Sidekick, sem er CE-merkt lækningatæki og hefur verið í notkun síðustu 6 ár, á stuttum tíma fyrir COVID-19 faraldurinn. Tryggvi segir að fjöldi sérfræðinga á Landspítala hafi komið að þróuninni. „Einnig barst aðstoð frá tölvuleikjafyrirtækinu CCP sem lagði til þróunarteymi til að styðja við og flýta aðlögun.“

Sjúklingar tilgreina daglega einkenni sín með matslistum í gegnum smáforrit. „Þar er einnig að finna fræðslu og góð ráð frá læknum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingum á Landspítala.“ Hjúkrunarfræðingar og læknar fylgjast síðan með þróun einkenna í gegnum vefgátt, eiga samskipti við sjúklinga og meta hvenær kalla þurfi þá inn til nánari skoðunar.

„Stuðst er við algóritma og gervigreind við matið sem auðveldar heilbrigðisstarfsfólki að sjá hvort inngrips er þörf,“ segir Tryggvi.

Fjarheilbrigðiskerfi Sidekick hefur hingað til nýst öðrum sjúklingahópum en þeim með COVID-19, svo sem sjúklingum með hjarta- og æðasjúkdóma og ýmsa bólgusjúkdóma. Flest verkefni fyrirtækisins hafi verið erlendis en þeim fjölgi hér innanlands.

„Auk COVID-19 verkefnisins erum við núna að þróa samstarf við hjartadeild Landspítala sem er afar spennandi,“ segir hann. Verkefnið er leitt af Davíð O. Arnar, yfirlækni hjartalækninga á Landspítala. „Það hefur verið í undirbúningi í rúmlega hálft ár og hefur alla möguleika á að verða víðtækt. Við erum núna að hefja þann hluta sem snýr að fjarvöktun einstaklinga með hjartabilun.“

Hann segir að erfiðara hafi verið að veita fólki með hjartabilun fulla þjónustu út af COVID-19. „Ekki hefur verið hægt að fá sjúklinga í sama mæli inn á göngudeildina og því ætti fjarheilbrigðisþjónustan að nýtast afar vel á tímum sem þessum,“ segir hann og tekur fram að fleiri deildir séu að skoða möguleika á samstarfi.

„Þörfin er um margt lík og hjá COVID-19 sjúklingum. Fólk er veikt og skilar sér of seint inn á bráðamóttökur. Það munar svo miklu í meðferð viðkvæmra sjúklingahópa utan stofnana, svo sem hjartasjúklinga eða krabbameinssjúklinga, að geta gripið inn í sem allra fyrst ef einkennin versna. Ef það er gert snemma er auðveldara að snúa vandanum við,“ segir hann.

Fjarheilbrigðiskerfi Sidekick hefur víða haslað sér völl og fjöldi verkefna í höfn. „Við bætum í næsta mánuði Finnlandi og Sviss í hópinn og erum á þessu ári að fara í verkefni í 10 löndum í Evrópu þar sem verið er að veita fjareftirlit og meðferð fyrir ólíka sjúklingahópa.“

Tryggvi segir að fjarheilbrigðiskerfið hafi nýst vel hjá fjölbreyttum sjúklingahópum og samstarfið við Landspítala í þessum heimsfaraldri sé kærkomið. „Við erum virkilega ánægð með að vera komin á skrið hér heima. Þar byrjaði verkefnið fyrir 6 árum síðan og markmiðið var að sjálfsögðu að geta notað kerfið hér á landi þar sem það var þróað.“Þetta vefsvæði byggir á Eplica