04. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Páll segir brýnt aðkoma í veg fyrir annan fráflæðisvanda

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala segir brýnt að spítalinn hrökkvi ekki í sama farið og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Hann vísar stjórnendamistökum á bug – kerfið sé í vanda og þar skorti fjármagn.

Rangt er að Landspítali hafi talið sig fórnarlamb vegna fráflæðisvandans sem ríkti á spítalanum fyrir kórónuveirufaraldurinn COVID-19. „Það er alrangt þegar horft er til þess mikla innra starfs sem spítalinn hefur lagt í til að slípa ferla sína,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans.

                                          
                                          Páll Matthíasson forstjóri Landspítala hafnar orðum um
                                          stjórnunarmistök. Mikilvægt sé að útskrifa fólk í viðeigandi úrræði þegar
                                          þjónustu spítalans sleppi.

Í áliti tveggja sænskra sérfræðinga, Markus Castegren og Johan Permert, sem voru í sérstökum átakshópi stjórnvalda sem kynnti tillögur til lausnar bráðamóttökunnar 25. febrúar, segir að spítalinn líti á sig sem fórnarlamb. „Hugtakið á hins vegar sannarlega við þá sem hafa þurft að bíða fullnægjandi úrræða og beðið þeirra við misgóðar aðstæður á Landspítala,“ segir Páll í skriflegu svari til Læknablaðsins.

Vandinn vegna langlegunnar

Eins og þekkt er voru aldraðir sjúklingar sendir á nýtt hjúkrunarheimili til að rýma spítalann og leysa fráflæðisvandann í aðdraganda kórónufaraldursins COVID-19. Páll segir spítalann hafa kallað eftir lausnum lengi. Löng lega sjúklinga væri ástæða þess að meðalbiðtími á bráðamóttöku eftir innlögn nærri tvöfaldaðist á þremur árum.

„Meðallegutími þeirra sem dvelja styttra en mánuð á spítalanum hefur lækkað ár frá ári síðustu árin og er nú 4,5 dagar. Vandinn er annar staðar. Hann felst í því að 1% sjúklinga tekur upp 22% legudaga,“ bendir hann á. Tryggja þurfi að ástandið endurtaki sig ekki þegar frá líður. Það sé stóra verkefnið.

„Það gerum við með því að byggja upp endurhæfingarfarvegi á spítalanum og í samstarfi við þá sem veita heimaþjónustu, en á sama tíma þarf að hraða hjúkrunarheimilisuppbyggingu,“ segir hann. „Landspítali er ekki í hjúkrunarheimilisbransanum.“

Mannanna verk ófullkomin

Spurður um orð stjórnmálamanna sem hafa sagt vanda Landspítala stjórnunarlegs eðlis, svarar hann: „Öll stjórnun er mannanna verk og þar með ófullkomin. Því ætla ég seint að halda því fram að við á Landspítala getum ekki gert betur,“ segir hann.

„Við erum sannarlega sífellt að vinna að skilvirkari rekstri, á sama tíma og við viljum veita góða og örugga þjónustu og skapa vinnuumhverfi sem starfsfólki líður vel í. Þetta er snúið á bestu stundum. Hvað þá þegar ein krísan rekur aðra, þannig að verkefni sem eru mikilvæg í lengd, víkja fyrir áríðandi málum.“

Hann segir hins vegar mikilvægt að horfa á stóru myndina. „Í samanburði við nágrannalönd erum við að verja tugmilljörðum minna á ári í heilbrigðismál heldur en þau.“ Aldursdreifingin skýri ekki allan þann mun, ekki þegar komi að Landspítala, sem sinni þeim veikustu.

„Hvort við skipuleggjum starfsemi spítalans í deild A og B eða 6 og 7, hvort yfir spítalanum er stjórn eða ekki, hvort framkvæmdastjórar eru 2 eða 10. Allt þetta eru smámál í samanburði við stóra vandann – heilbrigðiskerfið er undirfjármagnað miðað við þann árangur sem við viljum sjá.“

Hann segir verkefni næstu ára og áratuga að setja stærri hluta af þjóðarkökunni í heilbrigðismál. Það kalli á erfiða forgangsröðun í ríkisfjármálum. „Það er forgangsröðun sem stjórnmálamenn þurfa að sinna, því þetta er stærra verkefni en svo að ein stofnun, ein stétt eða jafnvel einn flokkur geti leyst það upp á eigin spýtur,“ segir hann. „Og þetta verkefni verður leyst, því það er engin önnur leið.“

COVID-19 hefur umbylt starfsemi Landspítala

„Landspítali hefur eins og gjörvallt heilbrigðiskerfið umbylt allri sinni þjónustu á nokkrum dögum og vikum vegna COVID-19 faraldursins,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

„Það tel ég til marks um aðlögunarhæfni, hraða og sveigjanleika sem er algjörlega á heimsmælikvarða.“ Hann hælir einnig stjórnmálamönnum sem hafi sýnt mikla fagmennsku og framsýni.

„Þeir hafa ólíkt mörgum erlendum kollegum sínum, lagt mest traust á sérfræðinga heilbrigðiskerfisins, allt frá Almannavörnum, landlækni og sóttvarnalækni til Landspítala og okkar teymis í farsóttum og smitsjúkdómum.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica