04. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Heilagar tölur, sóttkvíar og Jónshús í borginni við Sundið. Þóra Steingrímsdóttir

                                   

Orðaforði og dagleg orðanotkun okkar tekur vitanlega breytingum í takt við atburði líðandi stundar. Orðið sóttkví heyrist örugglega þúsundfalt oftar þessa dagana, á tímum stökkbreyttu kórónuveirunnar og COVID-19, en áður.

En hvaðan er orðið komið? Nýyrði hefur það einhvern tíma verið, en höfundur þess er mér ókunnur. Víst er að orðið er samsett úr sótt og kví. Í bændamáli er kví lítil rétt þar sem fráfæruær voru hafðar og þær mjólkaðar, aðskildar frá lömbum sínum. Mjólkina skyldi þá nýta til manneldis en lömbin voru tekin undan og máttu bjarga sér sjálf. Oft voru þetta bráðabirgðakvíar sem hægt var að minnka og stækka eftir þörfum; þaðan er orðatiltækið „að færa út kvíarnar“ komið.

Íslenska orðið sóttkví er ekta nýyrði og alls ekki bein þýðing á erlendu orðunum sem notuð eru í granntungumálunum. Fyrirbærið nefnist karantæne á dönsku og á ensku quarantine, komið af ítölsku orðunum quaranta giorni = fjörutíu dagar. Quaranta er upprunalega komið af latneska töluorðinu quadraginta = fjörutíu og vísa þessi orð þannig til lengdar kvíartímans frekar en tilgangsins.

Eitthvað vissu sæfarar um sóttir og gildi einangrunar þegar á 14. öld þegar sagt er frá þeirri tilskipun í Feneyjum að áhöfn héldi sig um borð við bryggju í 40 daga í þeim skipum sem sigldu frá löndum þar sem sótt hafði geisað. Quarantine var einnig þekkt í annarri merkingu í ensku; quarantine voru þeir 40 dagar sem ekkju var heimilt að dvelja í húsi látins eiginmanns, óháð erfða-rétti.

En ef til vill var hin fyrsta kví sem komst á spjöld sögunnar sú er Jesús fastaði í 40 daga og 40 nætur í eyðimörkinni og stóðst allar freistingar Satans. Biblían býður upp á fleira í þessu sambandi: Móses dvaldi 40 daga á fjallinu og tók við boðorðunum 10. Í því sama riti er puerperium skilgreint í 40 daga, frá fæðingu þar til móðirin er orðin söm. Þar er reyndar talað um að hún verði hrein, en við skiljum það eftir okkar höfði. Þessi tímamörk eru lífseig; enn miðum við margt við 40 daga eða 6 vikur í lífeðlisfræðilega ferlinu eftir fæðingu.

Orðsifjar og málfræði íslenskunnar og annarra tungumála hafa alltaf vakið áhuga minn, en ég er enginn fræðimaður á þeim vettvangi, og nýt þess nú að skrifa (vonandi sæmilega lipurlega) af fingrum fram og þurfa ekki að vanda mjög heimildaskrána. Þó skal getið helsta heimildamanns, dótturinnar og móðurbetrungsins Höllu Hauksdóttur, málvísindanema við Háskóla Íslands og Uppsalaháskóla.

Þessi orð eru stimpluð á skjáinn í hálfgerðri sóttkví í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið í húsi Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans, þar sem mér hlotnaðist að dvelja í fræðimannsíbúð í nokkrar vikur. Hingað komum við hjónin frá Svíþjóð nokkrum mínútum áður en Danir lokuðu landamærum sínum fyrir ferðalöngum. Hér eru matvöruverslanir og lyfjabúðir opnar en annað er lokað, opinberar stofnanir, söfn, skólar og veitingastaðir. Engir bjórkranar í gangi, bara handspritt á pumpunum. En hér er gott að vera, og nægur er tíminn til skrifta og annarra starfa, ekkert sem glepur. Við skjótum rótum í ákjósanlegum jarðvegi núvitundar. Það eina sem angrar sálartetrið er samviskubit yfir því að vera ekki heima að hjálpa til gegn farsóttinni.

Í Jónshúsi er venjulega mikið líf, félagslíf Íslendinga, fundir, listviðburðir og samkomur af ýmsu tagi, sjá jonshus.dk, en öll starfsemi liggur niðri vegna samkomubannsins, sem nú miðast við 10 manna hópa.

Einhvern veginn er Kaupmannahöfn samt alltaf heimilisleg og yndisleg. Foreldrar mínir kynntust hér fyrir 70 árum svo að hér er eiginlega upphafið að tilvist minni. Ég ólst upp við sögur úr borginni og svo líflegar voru frásagnir þeirra af stúdentalífinu hér um miðja síðustu öld að þegar ég kom hingað í fyrsta sinn kannaðist ég við mig á hverju götuhorni.

Vonandi verðum við komin til Íslands um það leyti sem þetta Læknablað kemur út, og þá líklega í fyrirskipaða sóttkví heima, svo við getum enn skerpt núvitundina, þó aðeins í 14 daga, ekki 40.

Góðar stundir.

Et með greini
kví kvíin
kví kvína
kví kvínni
kvíar kvíarinnar

Ft með greini
kvíar kvíarnar
kvíar kvíarnar
kvíum kvíunum
kvía kvíanna



Þetta vefsvæði byggir á Eplica