03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Viltu endurskoða með okkur Codex Ethicus?

Opið endurskoðunarferli siðareglna LÍ 2020

Nú stendur yfir heildarendurskoðun á Codex Ethicus (CE) á vegum Siðfræðiráðs Læknafélags Íslands, sem hefur staðið yfir frá byrjun árs 2018 í tilefni aldarafmælis félagsins. Síðasta heildarendurskoðun fór fram árin 2003-2004 (7. útg. CE 2005) og endurbætur að hluta árið 2013 (8. útg. CE) vegna breytinga á heilbrigðislögum.

Ýmislegt hefur breyst í siðferðilegum tíðaranda og umhverfi læknisstéttarinnar frá 2005 og þessi endurskoðun byggir á nýrri nálgun þar sem stuðst er við hagnýt sjónarmið úr siðfræði fagstétta og rökstuðningur skráður í sérstakri greinargerð. Nokkur fjöldi lækna hefur numið heimspeki og/eða hagnýta siðfræði síðustu áratugi og leitast er við að nýta sérþekkingu þeirra. Skoðanir lækna hafa þróast og breyst á sumum sviðum fagmennsku og margar fagstéttir hafa tekið inn sjónarmið varðandi umhverfið og þverfaglegt samstarf í sínar siðareglur. Margar siðareglur Alþjóðasamtaka lækna (WMA) voru uppfærðar árið 2017 og því liggja fyrir hugmyndir sem hafa ekki ratað inn í okkar CE. Auknar kröfur eru um málfar án kynjahalla og nauðsynlegt er að fylla upp í gloppur á nokkrum frumskyldum sem ekki hafa ratað í reglurnar hingað til eins og „umfram allt skaða ekki“ og „líkna“ rétt eins og að lækna. Þá þarf að aðlaga lagalega formgerð CE að breyttu skipulagi Læknafélags Íslands sem tók gildi haustið 2017 og endurraða ýmsu efni greina til að bæta lestur og fá meiri hnitmiðun. Lagt er til að hver grein fái sitt efnisheiti og kaflar verði endurskipulagðir.

Eftir að frumvinnu Siðfræðiráðsins við endurskoðunina lauk haustið 2018 fékk það álit 8 sérfræðinga sem hafa reynslu og menntun sem hæfa verkefninu. Margar góðar tillögur og gagnleg innlegg komu fram og þeirri vinnu lauk vorið 2019. Siðfræðiráð taldi þau drög sem þá lágu fyrir tilbúin fyrir lokaferli endurskoðunarinnar sem færi þá fram með því að opna á umsagnir frá öllum félagsmönnum LÍ. Stjórn LÍ samþykkti að setja þann lokafasa endurskoðunarinnar í gang og mun hann fara fram með eftirfarandi hætti:

Kynning á umsagnarferlinu fer fram á innri vef LÍ, hjá aðildarfélögum LÍ, læknaráðum og í Læknablaðinu. Frá 1. til 29. mars geta félagar í LÍ sent beiðni um að vera álitsgjafar til Siðfræðiráðs LÍ í gegnum netfangið sidfraedirad@lis.is. Álitsgjafar fá skriflegar leiðbeiningar um ferlið og hvernig skila eigi inn áliti. Lagt er til að álitsgjafar ljúki vinnu sinni og skilum á tveimur vikum en lokaskilafrestur er þriðjudaginn 14. apríl (eftir páska). Formaður ráðsins tekur allar umsagnir til meðferðar eftir ákveðnu vinnulagi í nánum samskiptum við hvern álitsgjafa og svo til meðferðar ráðsins. Stefnt er að því að ljúka vinnsluferlinu fyrir öll innsend álit í maí og kynna heildarmyndina öllum álitsgjöfum og stjórn LÍ. Að því búnu verður lögð fram lokatillaga fyrir félagsmenn og til afgreiðslu á aðalfundi LÍ næsta haust.

Þau drög endurskoðunarinnar sem nú liggja fyrir hafa hlotið góðar viðtökur fyrstu álitsgjafa og lof fyrir nýbreytni, fræðilega nálgun, vítt sjónarhorn, vandað málfar og gott skipulag. Það er von okkar að álitsgjafir þessa lokafasa bæti enn frekar þá vinnu og geri okkur stolt af lokaafurðinni. Góðir kollegar, verið velkomnir í vegferðina.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica