03. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Þjónustukönnun á stöðvum sjálfstætt starfandi sérfræðilækna

Bakgrunnur

Í Áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030 sem Embætti landlæknis gaf út í desember 2018 er ákvæði um framkvæmd þjónustukannana. Því munu veitendur heilbrigðisþjónustu í framtíðinni þurfa að framkvæma árlega þjónustukönnun og nýta niðurstöður í umbótastarfi. Læknafélag Reykjavíkur, félag sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, ákvað því að hafa frumkvæði að framkvæmd þjónustukannana á starfsstöðvum sérgreinalækna til að skoða ánægju sjúklinga með þjónustuna og kanna traust og orðstír læknastöðvanna og lækna, meðal annars með því að kanna hvort sjúklingar myndu leita aftur til sömu læknastöðvar eða sama læknis síðar. Einnig voru skoðaðir lýðfræðilegir þættir, biðtími, tilvísanir og fleira. Tilgangur könnunarinnar var einnig að ná skilvirkni og hagræðingu með samvinnu um framkvæmd kannana á starfsstöðvum sjálfstætt starfandi sérfræðilækna.

Framkvæmd

Þjónustukönnun með 16 spurningum var gerð á fjórum starfsstöðvum sjálfstætt starfandi sérfræðilækna á tímabilinu 2. desember 2019 til 9. janúar 2020. Þessar stöðvar voru Röntgen Domus, Orkuhúsið, Læknastöðin í Glæsibæ og Læknasetrið í Mjódd, en samtals sinna þessi fyrirtæki yfir 60% allra röntgenrannsókna utan spítala og um 40% allrar klínískrar starfsemi sérfræðilækna á stofu. Framkvæmdin stóð yfir í fjóra daga á hverri stöð.

Reynt var að bjóða öllum sjúklingum sem komu á hverja stöð að taka þátt í könnuninni. Sá starfsmaður sem síðastur var í samskiptum við sjúklinginn á stöðinni bauð honum að taka þátt og beindi viðkomandi til framkvæmdaraðila sem lagði könnunina fyrir. Aðferðir sem boðið var uppá við svörun voru nokkrar, svo sem: að svara beint í spjaldtölvu eða á blaði, að fá hlekk á könnunina á blaði eða með tölvupósti og að lokum að fá QR kóða til að skanna á stöðinni eða heima. Hugbúnaðurinn Survey Monkey (surveymonkey.com) var notaður til að setja upp könnunina, safna svörum og vinna úr gögnum. Excel (Microsoft Office) var notað til að gera gröf og útreikninga. Svör voru ekki persónugreinanleg og sjúklingar gáfu upplýst samþykki áður en þátttaka hófst. Þar sem um innra gæðastarf var að ræða en ekki vísinda-rannsókn var ekki sótt um leyfi til vísindasiðanefndar en rætt var við lögfræðing hjá Persónuvernd í síma um könnunina áður en hún var framkvæmd.

                                    

                                    

                                    

Úrvinnsla og niðurstöður

Alls komu 2917 sjúklingar á stöðvarnar fjórar á þessu tímabili og 1595 samþykktu og luku þátttöku. Ef þátttakandi hætti án þess að ljúka könnun var því svari eytt. Flestir svöruðu beint í spjaldtölvu á stöðinni (97% svara). Könnunin tók til lækna í 18 af alls 26 sérgreinum. Fylgst var með rafrænt frá hvaða læknastöð svör bárust en 1,9% svöruðu að þeir hefðu komið á aðra stöð en rafræna skráningin sýndi, sem gefur hugmynd um villutíðni. Skipting eftir kyni var: 51,3% konur, 48,3% karlar og 0,3% annað. Heildarþátttökuhlutfall var 54,7% og tafla I sýnir skiptingu milli stöðvanna. Hæsta þátttökuhlutfall á einum degi var í Læknasetrinu, 85%. Þátttaka jókst þegar leið á könnunina og verklag slípaðist.

Alls 98% sjúklinga eru mjög eða frekar ánægðir með þá þjónustu sem þeim var veitt í heimsókninni, graf 1 . Alls töldu 97% sjúklinga mjög eða frekar líklegt að þeir myndu leita aftur á sömu læknastöð (graf ekki sýnt) og 96% mjög eða frekar líklegt að þeir myndu leita aftur til sama læknis, graf 2 . Svarmöguleikunum fimm frá „mjög óánægð(ur)“ til „mjög ánægð(ur)“ voru gefin töluleg gildi eða einkunn frá 1 upp í 5 þar sem 1 er verst eða minnst en 5 er best eða mest, sjá töflu II . Aðeins sjúklingar sem tóku afstöðu voru teknir með í þennan þátt.

Í töflu III eru meðaltöl 5-stiga skalans fyrir spurningar um ánægju með þjónustu í heimsókn og hversu líklegt er að sjúklingur myndi leita aftur á sömu læknastöð eða til sama læknis.

Þátttakendur voru spurðir hversu lengi þeir þurftu að bíða fram yfir bókaðan tíma. Tæpur helmingur sjúklinga fór inn til læknisins án þess að þurfa að bíða. Alls 82% biðu skemur en í 10 mínútur og 97% í minna en 30 mínútur graf 3 . Aðeins 18% sjúklinganna biðu því lengur en 10 mínútur eftir að þjónusta hæfist og 3% bíðu lengur en 30 mínútur.

Tveir af hverjum þremur sjúklingum (66,6%) höfðu komið áður til sama læknis en þriðjungur (33,4%) var að hitta lækninn í fyrsta skipti. Aðspurðir um aðdraganda komu, svöruðu 20% að eigin frumkvæði, 48% með tilvísun og 32% voru að koma í reglulegt áður ákveðið eftirlit graf 4 . Því er um helmingur allra sjúklinga að koma eftir tilvísun og ef frá eru taldir sjúklingar bókaðir í áður áætlað reglulegt eftirlit hjá sínum lækni eru um 70% þeirra sjúklinga sem þá eru eftir að koma með tilvísun. Langflestir fengu skriflega tilvísun en fáir munnlega tilvísun, graf 5 .

                                 

                                 

                                  

                                  

                                  

Niðurlag

Mjög stór hluti heilbrigðisþjónustunnar fer fram á læknastofum sérfræðilækna, um 500.000 komur árlega, sem eru fleiri komur en samtals á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og göngudeild Landspítala. Í ljósi þess var gerð þessarar könnunar og þeirra sem munu koma á eftir mikilvæg. Þjónustukönnunin var tilraunaverkefni sem LR réðist í til að þróa aðferð til að gera slíkar kannanir á læknastofum og til að fá niðurstöður um ánægju, traust og aðra þætti í starfseminni og uppfylla skilyrði landlæknis um gæðavísa og þjónustukannanir.

Þjónustukönnunin sýnir mikla ánægju með starfsemi sérfræðilækna á stofu og að þeir þjónustuþættir og gæðavísar sem skoðaðir eru, koma vel út. Ánægja sjúklinga með þjónustuna í viðkomandi heimsókn var 98% og um 97% þátttakenda myndi leita aftur til sömu læknastöðvar eða til sama læknis ef á þyrfti að halda. Einnig kom í ljós að biðtími á stofunum var stuttur og oftast enginn og að meirihluti sjúklinga, eða 70%, kemur til sérfræðilækna eftir tilvísun. Þriðjungur sjúklinganna er að hitta viðkomandi lækni í fyrsta sinn, sem þýðir að læknarnir eru að stórum hluta að sjá nýja sjúklinga.

Læknafélag Reykjavíkur vill þakka þeim fjölmörgu sem komu að könnuninni og sjúklingum stöðvanna sem tóku þátt. Við erum þakklát fyrir hvað sjúklingarnir eru ánægðir og fyrir það traust sem þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og læknastöðvum þeirra var sýnt í könnuninni.Þetta vefsvæði byggir á Eplica