02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Segir yfirvöld hafa stungið tilmælum Samkeppniseftirlitsins ofan í skúffu, – Þórarinn Ingólfsson er ómyrkur í máli

„Þetta hefur verið ævintýri,“ segir einn eigenda að Heilsugæslunni Höfða. Heilsu­gæslan er orðin sú stærsta á höfuðborgarsvæðinu á aðeins rúmum tveimur og hálfu ári. Skjólstæðingarnir eru 19.500.

„Við erum heldur betur búin að þurfa að taka á honum stóra okkar,“ segir Þórarinn Ingólfsson, einn eigenda og framkvæmdastjóri lækninga á Heilsugæslunni Höfða. Stöðin var opnuð 1. júní 2017 og leiða þeir Gunnlaugur Sigurjónsson læknir hópinn. „Við vorum með fullmannaða stöð en mjög fáa skjólstæðinga þegar hún opnaði,“ segir hann. Þeir voru 2900 forskráðir við opnun og hafi fylgt sínum heimilislækni á nýjar slóðir.

                                            
                                             Þórarinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri lækninga í Heilsugæslunni
                                             Höfða, er stoltur af sérhönnuðu sjálfstæðu heilsugæslunni en kallar eftir
                                             sanngjarnara rekstrarumhverfi. Ríkisreknar heilsugæslur standi þar betur.
                                             Mynd/gag

hlusta

„Um áramótin 2017 voru þeir 4000 og núna 19.500,“ segir Þórarinn. Á Heilsugæslunni Sólvangi sem er næst stærst eru rúmlega 17.000 skráðir.

Hann segir frá því að Heilsugæslan Höfða hafi verið sú fyrsta sem opnuð var á 11 ára tímabili. Þörfin hafi verið mikil og áhrifin af nýju fjármögnunarlíkani augljós, því samkeppni hafi myndast þegar fólki var með nýjum samningum gert kleift að kjósa með fótunum. Þeim hafi fjölgað sem sækja á heilsugæsluna og fækkað á bráðamóttöku.

„Ríkisheilsugæslustöðvarnar höfðu ekki undan.“ Fólk hafi viljað sjá nýja nálgun á þjónustunni. Þeir hafi lofað fólki tíma hjá lækni sínum samdægurs. Það hafi þeim tekist að uppfylla með breyttu vinnulagi. „Það er engin bið. Sjúklingurinn bara mætir.“

Hönnuðu stöðina sjálfir

Þeir Þórarinn og Gunnlaugur fengu stöðina hannaða frá grunni eftir eigin áherslum og hugmyndum. Þeir lögðu áherslu á að þjónusta sem flesta á sem stystum tíma og að fólk hitti sinn heimilislækni sem sé lykilatriði. Læknar á stöðinni eru ekki bundnir eigin skrifstofu á morgunmóttöku heldur komi þeir til sjúklinga sinna í einu af 6 litlum skoðunarherbergjum stöðvarinnar.

„Hjúkrunarfræðingar hafa þá þegar tekið stöðuna, dregið blóð eða annað sem þarf áður en læknir kemur á staðinn. Það er líka ómetanlegt að hafa myndgreiningarrannsóknir í sama húsi og rannsóknarstofu opna allan daginn,“ segir hann.

„Þannig getum við þjónustað marga á stuttum tíma en haldið til haga samfellu í þjónustunni.“

Þrjár biðstofur eru á heilsugæslunni. Ein fyrir mæðravernd, önnur fyrir vaktina og sú þriðja fyrir bókaða tíma. Mæðraverndin er nú ein sú stærsta á landinu og yfir 300 konur sem fæddu í fyrra í þjónustu þeirra.

Hann er stoltur af stöðinni, hönnun hennar og starfsfólki, sem deilir vinnuaðstöðu í opnu rými á morgnana sem skapar afar góðan vinnumóral og tækifæri til faglegs samráðs. „Hér er ekki skilið á milli hjúkrunarfræðinga og lækna. Hér höfum við endurmetið hvað læknar gera.“ Það hafi leitt af sér að læknar stöðvarinnar séu ekki bundnir eins yfir skriffinnsku og vottorðagerð.

Valdeflandi að gefa eftir verkefni

„Við læknar þurfum alvöru teymisvinnu. Við getum ekki gert þetta allt sjálfir. Ef sílóin sem reist hafa verið um hverja stétt eru tekin gengur allt betur. Það valdeflir alla sem við vinnum með.“ Þessi nálgun hafi skapað jafningjamóral á heilsugæslunni og fólk sé ánægt í starfi. Góð samvinna sé betri fyrir sjúklinga.

„Það er ekki betra fyrir sjúklinginn að bíða eftir lækni þegar hægt er að leysa vandann með öðrum hætti,“ segir hann. Alls 11 læknar eru í fullri vinnu á stöðinni og tveir í hlutastarfi. Fjöldi sjúklinga hjá þeim sé ólíkur. Haukur Heiðar Hauksson, sem hóf störf nokkrum dögum fyrir viðtal, með ríflega 120 en Þórarinn sjálfur rúmlega 1900.

„Samvinna gerir okkur kleift að sinna fleirum. Við höfum stórkostlegt starfsfólk, hjúkrunarfræðingarnir, ljósmæðurnar og ritararnir. Við höfum aldrei auglýst eftir starfsmanni. Fólk vill gjarnan vinna hérna og það skiptir máli,“ segir Þórarinn.

Ójafnt gefið af stóra bróður

„Vandinn er ekki að fá starfsfólk. Vandinn er að reksturinn er undirfjármagnaður. Við þyrftum að ráða fleiri til að gera enn betur,“ segir Þórarinn og gagnrýnir stöðu sjálfstæðrar heilsugæslu gagnvart þeirri ríkisreknu.

„Vandinn er ójafnræði,“ segir Þórarinn. „Við sem erum sjálfstætt starfandi berum skarðan hlut frá borði. Við kvörtuðum strax yfir því til Samkeppniseftirlitsins sem rannsakaði málið. Eftirlitið beindi svo tilmælum til heilbrigðisráðherra haustið 2017 sem ekki hefur verið brugðist við.“
Hann nefnir atriðin. Landspítalinn sé með samning við ríkisreknar heilsugæslustöðvar sem veiti þeim ríkan afslátt umfram einkareknar stöðvar á rannsóknum. Rannsóknir séu næststærsti einstaki kostnaðarliðurinn á eftir launakostnaði. „Þegar Heilsugæslan Höfða leitaði eftir samningum við Landspítala var þeim boðið að greiða 165 kr. á rannsóknareiningu meðan ríkisreknu stöðvarnar greiddu 110 krónur á einingu,“ segir hann.

„Það er svakalegt. Rosalegt. Hvernig stendur á því að ríkið kýs að mismuna þeim sem reka heilsugæsluþjónustu í fjármögnunarlíkani sem á að vera á jafnræðisgrundvelli?“ Stóri bróðir fái þriðjungi lægra verð. Þá greiði einkarekna gæslan virðisaukaskatt af þjónustu en sú ríkisrekna ekki. Eins þurfi þær einkareknu að kaupa tryggingar en ekki þær ríkisreknu.

Ráðherra hunsar beiðni þeirra

„Samkeppniseftirlitið tók þrjú dæmi og sagði að jafna þyrfti stöðuna. Síðan hefur ekkert gerst. Ekkert, engin viðbrögð. Við fórum á fund ráðherra 2018 og báðum um að brugðist yrði við en fengum engin viðbrögð,“ segir hann. Þeir hafa ítrekað áhyggjur sínar í bréfi en því hefur ekki verið svarað.

„Þannig að tilmælum Samkeppniseftirlitsins var bara stungið ofan í skúffu. Það er ömurlegt og ekki góð stjórnsýsla að svara ekki. Þetta hefðu betur verið bindandi tilmæli en það voru þau ekki. Það á samt að fara eftir þeim,“ segir Þórarinn.

„Þeim skjólstæðingum sem velja að vera hér er mismunað,“ segir hann. Þeir gætu ráðið inn hjúkrunarfræðing eða lækni fyrir fjármunina sem fengjust stæðu þeir jafnfætis þeim ríkisreknu og veitt enn betri þjónustu. Þeir vilji komast á ofursamninginn sem ríkisreknu heilsugæslurnar hafi við Landspítala.

„Við viljum bara að þetta sé réttlátt.“

Norræn ríki kjósa einkarekstur

Hann er spurður hvort það sé áskorun að hafa heilbrigðisráðherra sem sé síður hlynntur einkaframtaki, ráðherra Vinstri grænna, en fyrirrennarinn frá Sjálfstæðisflokki?

„Það eru margir sem hafa illan bifur á okkur en við horfum ekki á þetta þannig. Við vinnum samkvæmt skandinavíska módelinu. Heilsugæslan er sjálfstætt rekin í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi,“ segir hann. Ráðherra verði að huga að því að þarlend yfirvöld hafi talið þjónustunni best borgið með þjónustusamningum.

„Ráðherra hefur ekki verið hlynnt þessu og ekki komið að skoða. En það er ekki hægt að horfa framhjá því hve margir kjósa að sækja til sjálfstæðra heilsugæslustöðva. Hvers á þetta fólk að gjalda? Það er áskorun að vera með ráðherra sem er ekki vinsamlegur okkur. En þó má ekki hunsa þetta atriði,” segir Þórarinn.

„Við höfum skorað hátt á flestum gæðavísum og verið í efsta sæti í stórri þjónustukönnun en heilbrigðisyfirvöld hafa sýnt okkur afar lítinn áhuga. Það verður að vera jafnræði. Það verður að svara erindum.“

Þórarinn segist sjá fram á að sjálfstætt starfandi heilugæslum fjölgi. „Þetta er framtíðin í mínum huga.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica