02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild. Ferð í Árneshrepp á Ströndum. Kristófer Þorleifsson

                                           
                                            Hópmynd sem tekin var fyrir framan hótelið í Djúpuvík. Mynd: Héðinn
                                            Ásbjörnsson.

Dagana 22.-24. ágúst í fyrra fóru 26 manns í ferð öldungadeildar norður á Standir. Lagt var upp frá Hlíðasmára, ekið var yfir Holtavörðuheiði og komið niður í Hrútafjörð og áð á Borðeyri. Þar var nesti borðað, nýjar heimabakaðar kleinur og flatbrauð með hangikjöti. Þessu var rennt niður með heitu kaffi og að því loknu var boðið upp á dálitla brjóstbirtu, rautt, hvítt og bjór.

Borðeyri má sannarlega muna sinn fífil fegurri, en þar búa í dag innan við 20 manns. Fyrr á öldum var Borðeyri í tölu meiriháttar siglinga- og kauphafna. Nafn eyrarinnar er dregið af því að þegar Ingimundur gamli fór í landaleit, sumarið eftir að hann kom til Íslands, fann hann þar nýrekið viðarborð og nefndi eyrina Borðeyri eftir því.

                                           
                                            Gunnsteinn Gíslason og Ólafur F. Magnússon, tveir fyrirverandi
                                            borgarstjórar.

Frá Borðeyri var síðan haldið áfram og komið við í Sauðfjársetrinu á Sævangi í Strandabyggð sem áður var félagsheimili Strandamanna. Safnið var skoðað undir leiðsögn forstöðumanns sem flutti stutt fræðandi erindi um safnið. Að því loknu var sest að kaffi og vöfflum með rjóma.

Leiðin lá síðan til Hólmavíkur þar sem hópurinn skoðaði Galdrasafnið. Síðan áfram til Djúpuvíkur og virtu ferðalangar fyrir sér hrikalega og ægifagra náttúruna eins og Kaldbakshorn og Kaldbaksvík og Veiðileysufjörð. Þegar komið var á Hótel Djúpuvík um kvöldmatarleytið var sest að dýrindis kvöldverði. Þar tók á móti okkur hótelstjórinn, tengdasonur staðarhaldara, Magnús Karl Pétursson alnafni og barnabarn kollega okkar.

Eftir nærandi nætursvefn og góðan morgunverð var haldið í skoðunarferð í síldarverksmiðjuna undir leiðsögn Héðins Ásbjörnssonar, sonar hjónanna Evu og Ásbjarnar staðarhaldara í Djúpuvík. Verksmiðjan er í dag safn sem sýnir vinnsluferlið eins og það var í húsinu.

Í hundruðir ára var landbúnaður -aðalatvinnuvegurinn í héraðinu, en saga Djúpavíkur hefst árið 1917 þegar Elías Stefánsson setti þar á stofn síldarsöltunarstöð. Þetta breytti lífi fólks, en síðan varð Elías gjaldþrota í kreppunni miklu árið 1929.

Árið 1934 var hafist handa við byggingu síldarverksmiðju á Djúpuvík og aðeins rúmu ári síðar var farið að framleiða bæði síldarmjöl og lýsi. Veiðin var mjög góð og verksmiðjan malaði gull. Framkvæmdin var of stór fyrir íslenska bankakerfið og hafði Landsbankinn ekki bolmagn til að veita lán til byggingarinnar. Forráðamenn fyrirtækisins leituðu því á náðir dansks banka til að fá lán. Svo vel gekk reksturinn að eftir eitt ár voru vextir greiddir af láninu og eftir tvö ár í rekstri var lánið greitt upp.

Þegar síldarverksmiðjan var fullbyggð var hún langstærsta steinsteypta bygging á Íslandi. Enn þann dag í dag er hún gríðarstór, 90 metra löng á þremur hæðum. Verksmiðjan var útbúin öllum fullkomnustu tækjum til síldarbræðslu og vinnslu á mjöli. En tímarnir breyttust. Aflinn náði hámarki á svæðinu sumarið 1944, en eftir það minnkaði síldarstofninn hratt. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til nýrra notkunarmöguleika var verksmiðjunni endanlega lokað árið 1954. Þegar allt var í blóma á Djúpuvík var þar bæði verslun, bakarí og læknir.

Eftir skoðunarferðina var ekið norður á Gjögur þar sem eitt sinn var blómleg byggð en enginn býr nú. Þaðan var haldið áfram um Trékyllisvík og út í Norðurfjörð og komið við í gamla kaupfélaginu, en þar hófst verslunarrekstur á ný í júní 2019 á vegum „Verzlunarfélags Árneshrepps“. Frá kaupfélaginu var haldið yfir í „Kaffi Norðurfjörð“ þar sem boðið var upp á frábæra fiskisúpu. Á leið okkar hittum við Gunnstein Gíslason sem í áratugi var höfuð Árneshrepps, kaupfélagsstjóri, bankastjóri og hreppstjóri.

Eftir súpuna var ekið um byggðina í Norðurfirði og að Munaðarnesi við utanverðan Ingólfsfjörð. Ætlunin var að sjá þaðan til Drangaskarða, en þau voru því miður hulin þoku. Vel sást þó inn Ingólfsfjörð og út á Seljanes.

Því næst var ekið á Hótel Djúpuvík á ný. Sest var að frábærum kvöldverði og undir borðum fóru margir á kostum og sögðu skemmtisögur. Óvænt birtist Þórólfur Árnason fyrrverandi borgarstjóri sem átti leið um og sagði okkur skemmtisögur af læknum og ættmennum sínum, en langafi Þórólfs var hinn frægi klerkur séra Árni Þórarinsson.

Morguninn eftir var ekið yfir í Bjarnarfjörð og á Klúku skoðað Kotbýli kuklarans og Guðmundarlaug, þar sem gafst tækifæri á að lauga andlitið með vígðu vatni Guðmundar biskups hins góða. Þaðan var farið yfir á Drangsnes um Selströnd og litið til Grímseyjar í Steingrímsfirði. Á Drangsnesi var áð við klettinn „Kerlingu“ og tekin hópmynd af konunum.

Á Hólmavík buðu læknishjónin frá Húsavík, Ingimar S. Hjálmarsson og Sigríður Birna Ólafsdóttir, okkur heim í hús sem Ingimar og hans systkini eiga, en Ingimar er fæddur og uppalinn á Hólmavík. Hjá þeim fengum við dýrðlegar móttöku á stórum palli framan við húsið. Þau buðu okkur upp á drykki, rautt og hvítt og taðreyktan Mývatnssilung á rúgbrauði.

Eftir heimsóknina til Ingimars og Siggu var ekið suður á leið og komið við á bænum Húsavík þar sem ýmislegt er selt beint frá býli, meðal annars lostafullar lengjur: lambalundir sem maríneraðar eru í bláberjum og síðan tvíreyktar og þurrkaðar. Algjört lostæti sem allir keyptu og einstaka náðu í reykt svið.

Að verslunarferð lokinni var brunað suður um Þröskulda yfir í Dalina og síðan í Kópavoginn. Heim komu ferðalangar þreyttir og ánægðir snemma kvölds.Þetta vefsvæði byggir á Eplica