02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Urð og grjót. Alma Gunnarsdóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir sínar eigin skoðanir en ekki félagsins.

Það hvarflaði aldrei að mér að fyrsta erindi ljóðsins Fjallganga, sem Tómas Guðmundsson orti árið 1925, yrði hægt að yfirfæra á hugsanir (allavega mínar) tengdar heilbrigðiskerfi þessa lands árið 2020. Við þuldum þetta ljóð flest öll í íslenskutímum í barnaskóla.

                                                                             Urð og grjót.
                                                                             Upp í mót.
                                                                             Ekkert nema urð og grjót.
                                                                             Klífa skriður.
                                                                             Skríða kletta.
                                                                             Velta niður.
                                                                             Vera að detta.
                                                                             Hrufla sig á hverjum steini.
                                                                             Halda að sárið nái beini.
                                                                             Finna hvernig hjartað berst,
                                                                             holdið merst
                                                                             og tungan skerst.
                                                                             Ráma allt í einu í Drottin:
                                                                            - Elsku Drottinn!

                                                                            núna var ég nærri dottinn!
                                                                            Þér ég lofa því að fara
                                                                            þvílíkt aldrei framar, bara
                                                                            ef þú heldur í mig núna!
                                                                            Öðlast lítinn styrk við trúna.
                                                                            Vera að missa vit og ráð,
                                                                            þegar hæsta hjalla er náð.

Heilbrigðiskerfið eins og það lítur út í dag er komið langt af leið. Endalaus barátta innan hinna ýmsu starfsstétta heilbrigðisgeirans einkennir tíðarandann og neikvæð umræða um heilbrigðiskerfið er algeng í þjóðfélaginu. Ýmsar breytingar á heilbrigðisstofnunum eru ákveðnar og framkvæmdar. Stórar og mikilvægar ákvarðanir eru teknar, iðulega án þess að tala við fólkið sem vinnur hina raunverulegu vinnu og er daglega að kljást við vandamálin. Oft virðist lítið vera hlustað og tjáningarfrelsið er gagnrýnt.

Ég er örugglega ekki ein um það að velta því fyrir mér á stundum af hverju læknisfræðin varð fyrir valinu. Í æsku sá ég þetta starf fyrir mér í hillingum, maður leit upp til tilvonandi kollega sinna og vissi mætavel að þetta yrði áskorun. En svo líða árin. Fyrst háskólanám, kandídatsár, deildarlæknaár og því næst sérnám. Hjá sumum jafnvel doktorsnám, stjórnunarnám og svo mætti lengi telja. Þegar komið er út í hinn raunverulega heim heilbrigðiskerfisins, það er að segja inn á heilbrigðisstofnanir, er veruleikinn heldur betur annar. Óánægja, vandamál sem erfitt er að leysa, óöryggi og ekki má gleyma miklu vinnuálagi. Sem betur fer venst þetta vinnuumhverfi smátt og smátt og flestum tekst að aðlagast nokkuð vel þessum oft á tíðum óæskilegu aðstæðum. Það má hins vegar ekki gleyma öllu því jákvæða innan heilbrigðisgeirans. Það má ekki gleyma mannauðnum sem er fyrir hendi, þarna eru margar starfstéttir saman komnar og allir hafa sínu hlutverki að gegna.

Við erum framarlega á mörgum sviðum, eigum sérfræðinga hér á landi og út um allan heim sem við gjarnan vildum að óskuðu eftir að koma hingað til lands og vinna. En á meðan ástandið er eins og það er er það kannski ekki sá valkostur sem er hvað mest lokkandi í stöðunni. Við megum þakka fyrir allar heimkomurnar af fjölskylduástæðum!

Það er mikilvægt að við gerum okkur öll grein fyrir því að það mun taka langan tíma að snúa skútunni aftur á rétta braut, þannig að okkur líði vel í starfi, sjúklingarnir okkar fái þá þjónustu og þann tíma sem þeir þurfa. Að lyf og búnaður sé fyrir hendi. Við þurfum á vitundarvakningu að halda meðal æðstu manna þessa lands og á þeirri leið er eins gott að við séum samt sem áður stolt af starfinu okkar og upphefjum jákvæðni, þolinmæði, virðingu og þrautseigju. Að við stöndum saman í þessari baráttu, allar stéttir innan heilbrigðisgeirans. Að við pössum upp á okkur sjálf meðan á þessu stendur og hugum að eigin heilsu, bæði líkamlegri og andlegri.

Umræðan um heilsu og líðan lækna hefur verið að færast í aukana síðastliðin ár. Þunglyndi, depurð, kulnun, kvíði og aukin sjálfsmorðstíðni eru tíðari en áður innan stéttarinnar. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar erlendis undanfarin ár. Í upphafi árs 2019 voru kynntar niðurstöður umfangsmikillar könnunar á vegum Læknafélags Íslands sem staðfesti þetta. Blessunarlega er LÍ virkt félag sem vinnur mikilvægt starf fyrir sína félagsmenn undir öflugri forystu. Ýmis aðstoð er veitt félagsmönnum til að mynda með styrkjum en við getum alltaf gert betur og sett markið hærra.

Það allra mikilvægasta þegar öllu er á botninn hvolft er að við förum sátt heim eftir langan vinnudag og finnum að það starf sem við vinnum sé metið að verðleikum. Að við séum metin að verðleikum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica