02. tbl. 106. árg. 2020

Umræða og fréttir

Orð lækna ákall til stjórnvalda segir María I. Gunnbjörnsdóttir formaður Félags sjúkrahúslækna

„Ályktanir lækna í fjölmiðlum eru ákall til stjórnvalda um að hlustað sé á okkur. Við erum að benda á að heilbrigðiskerfið stefnir víða í óefni. Það þarf að grípa í taumana,“ segir María I. Gunnbjörnsdóttir, formaður Félags sjúkrahúslækna.

                                            
                                             María I. Gunnbjörnsdóttir, lungna- og ofnæmislæknir og formaður
                                             Félags sjúkrahúslækna, hvetur til þess að yfirstjórn spítalans,
                                             heilbrigðisyfirvöld og læknar leysi vanda Landspítala saman.
                                             Mynd/gag

„Ráðherra verður að þola gagnrýni á málaflokkinn sem hún ber ábyrgð á,“ segir María I. Gunnbjörnsdóttir, formaður Félags sjúkrahúslækna. Félagið sendi frá sér harðorða ályktun í aðdraganda fundar heilbrigðisráðherra með Læknaráði Landspítala 13. janúar sem varð tilefni ummæla ráðherra um að erfitt væri að standa með spítalanum vegna ályktana lækna á „færibandi“ um bágborið ástand þar.

„Yfirlýsing félagsins var harðorð en á sama tíma viljum við að hlustað sé á okkur og að við séum hluti af lausninni. Okkur langar að hafa áhrif á málaflokkinn og teljum það mikilvægt.“ Hún sé ekki talsmaður þess að vera með orðaskak í fjölmiðlum.

„Okkur ber að hafa þann þroska að hafa augun á boltanum og sleppa því að rífast, en við þurfum að tala saman og ef þessi fundur Læknaráðs og stóru orð verða til þess að eitthvað gerist í málinu þá var hann til góðs.“

Hún segir hitann skýrast af því að læknar séu langþreyttir á úrræðaleysinu og vaxandi vanda. „Það þreytir lækna að sjá ekki til lands. Róðurinn þyngist og þyngist. Við verðum að sjá skýra tímasetta aðgerðaáætlun,“ segir María sem vonast eftir slíkri sem fyrst eftir þessa miklu fjölmiðlahrinu. „Óbreytt ástand er óviðunandi.“

María er bjartsýn fyrir hönd sjúkrahúslækna. „Við getum leyst þetta mál og höfum burði til þess,“ segir hún uppörvandi og hvetur yfirstjórn spítalans til þess að hlusta á ákall lækna um lausnir og þiggja boð þeirra um að koma spítalanum á réttan kjöl.

„Það er mikilvægt að tillit sé tekið til skoðana lækna,“ segir hún. „Ef fólk segir endalaust eitthvað og kemur með tillögur sem ekkert verður úr upplifir það vanmátt og þreytu. Það hefur áhrif á líðan lækna heilt yfir sem vilja vinna af fagmennsku og sinna því hlutverki sem þeir eru menntaðir til. Orð þeirra sýna vilja þeirra til að hafa velferð sjúklinga að leiðarljósi.“

María segir að það fylli forsvarsmenn Félags sjúkrahúslækna krafti til góðra verka hve margir mættu á fund félagsins sjálfs sem haldinn var þann 8. janúar. „Við eflumst í hlutverki okkar sem er að veita yfirstjórn spítalans aðhald með spurningum. Við fylgjum því fast eftir að gerð verði aðgerðaáætlun og tímasetningar kynntar. Við krefjumst svara. Við þurfum öll að vera á tánum og biðja um úrræði landsmönnum til heilla.“

Hún segir að stjórn Félags sjúkrahúslækna fagni hugmyndum landlæknis um nýja úttekt á Landspítala og skipun átakshóps vegna bráðamóttökunnar. „Við munum hafa vakandi auga með nýskipuðum starfshópi á vegum heilbrigðisráðuneytis og Landspítala,“ segir hún.

Átakshópur um lausnir á vandanum

Heilbrigðisráðuneytið hefur skipað átakshóp um lausnir á vanda bráðamóttöku Landspítala sem skila á hugmyndum um lausn á fjórum vikum, eða um miðjan febrúar. Skýrar tillögur um tafarlausar aðgerðir til að leysa vandann eiga þá að liggja fyrir.

Hópinn skipa fjórir, tveir frá ráðuneytinu og tveir frá Landspítala. Hópnum er ætlað að hafa víðtækt samráð við starfsfólk Landspítala og aðra aðila eins og þörf krefur.

Tveir erlendir ráðgjafar með sérþekkingu á sviði bráðaþjónustu og flæðis sjúklinga innan sjúkrahúsa verða hópnum innan handar.

Sagt var frá því í fréttum Ríkisútvarpsins þann 26. janúar að landlæknir vildi sjá óháða úttekt á fjárþörf spítalans gerða af McKinsey & Company. Skera þyrfti úr um hvort fjármagnið sem spítalinn fengi væri í takti við verkefni hans þar sem ekki sé samhljómur milli stjónrenda spítalans og fjárveitingarvaldsins þar um.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica