05. tbl. 104. árg. 2018
Umræða og fréttir
Starfsdagur stjórnar Læknafélags Íslands
Stjórn Læknafélags Íslands hélt starfsdag 6. apríl síðastliðinn og fundaði með formönnum nýju aðildarfélaganna: Félags íslenskra heimilislækna, Læknafélags Reykjavíkur, Félags sjúkrahúslækna og Félags almennra lækna. Til seinni hluta fundarins var boðið formönnum sérgreinafélaga.
Formenn sérgreinafélaga mættir til leiks hjá LÍ í Hlíðasmára að fara yfir farinn veg og framtíðina.
Meðal umræðuefna á starfsdeginum var samstarf LÍ og aðildarfélaganna og sérgreina-félaganna til að efla faglega og stéttarlega vitund. Reifuð voru áform um að gera skoðanakönnun meðal félagsmanna um stöðu lækna, kjör, vinnuaðstæður, líðan og stefnumótandi mál. Þá var rætt hvort halda ætti landsfund lækna og ræða mótun heilbrigðisstefnu til framtíðar. Þessar hugmyndir fengu góðan hljómgrunn á starfsdeginum.
Kynnt var sérstaklega og rædd staða framhaldsnáms lækna sérfræðilæknisveitinga hér á landi. ESA (European Free Trade Association Surveillance Authority) er að vinna úr kærumáli sem barst vegna sérfræðileyfisveitinga á Íslandi. Hefur ESA í framhaldi af því gefið út álit um að óheimilt sé að veita sérfræðileyfi á Íslandi sem gildir á EES nema í heimilislækningum og geðlækningum. Þessi alvarlega staða á sér langa forsögu og má endurskoða og endurbæta margt í þessu sambandi. Stjórn FAL hefur ásamt stjórn LÍ unnið að greiningu vandans og lausn á málinu, meðal annars fundað með heilbrigðisráðherra og landlækni til að kynna hugmyndir um hvernig hægt sé bregðast við þessari stöðu.