12. tbl. 100. árg. 2014
Ritstjórnargrein
Heilsugæsla, fjárfesting í heilsu til framtíðar
Heilsugæslan hefur ekki verið eins áberandi í þjóðfélagsumræðunni og Landspítalinn. Það virðist oft vanta skilning á mikilvægi heilsugæslunnar í umræðu bæði meðal þingmanna og almennings í landinu. Það hefur verið að fjara undan heilsugæslunni á Íslandi og nú er svo komið að það vantar um 70-80 sérfræðinga í heimilislækningum á landsvísu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur lengi bent á mikilvægi starfsemi heilsugæslu í heilbrigðiskerfum landa. Rannsóknir hafa sýnt að lönd sem hafa sterka heilsugæslu ná betri árangri hvað varðar heilbrigði almennings og eru með hagkvæmari heilbrigðiskerfi en samanburðarlönd.1,2 Alþjóðaheilbrigðisstofnunin bendir á í skýrslu sinni að efnaðri lönd byggi stóran hluta heilbrigðiskerfis síns á sterkri þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, með ríkum hagsmunum fyrir ólíka aðila, til dæmis lyfja- og lækningatækjaiðnaðinn.2 Í sömu skýrslu er bent á mikilvægi þess að fjárfesta í heilsugæslunni, auka teymisvinnu og önnur úrræði í heilsugæslu. Að í heilsugæslunni séu mikil sóknarfæri bæði í forvörnum og snemmgreiningum.
Lífslíkur hafa aukist en á sama tíma hafa ýmsir lífsstílssjúkdómar rutt sér til rúms. Til dæmis hefur fjöldi sykursjúkra á heimsvísu farið úr 30 milljónum manna 1985 í 382 milljónir manna 2013. Spár gera ráð fyrir að fjöldinn geti verið um 552 milljónir manna árið 2030. Kostnaður vegna sykursýki í Bandaríkjunum nam 11% af heilbrigðisútgjöldum fyrir fullorðna þar í landi 2011 og fer hækkandi.3 Í Svíþjóð hefur heilsugæslan verið efld til þess að taka við þeim sem eru með sykursýki af tegund 2.
Hvað varðar geðheilbrigðismál er notkun þunglyndislyfja á Íslandi mest af lönd-um OECD. Árið 2013 fengu 39.000 einstaklingar á Íslandi ávísað þunglyndislyfjum og 34.000 fengu ávísað svefnlyfjum og róandi lyfjum að minnsta kosti einu sinni.4 Í nokkrum nágrannalöndum okkar er hugræn atferlismeðferð í boði á heilsugæslunni og í Gautaborg, þar sem ég hef starfað síðastliðin 6 ár, er skylda að bjóða upp á samtalsmeðferð í allt að 10 skipti í heilsugæslunni, þetta vantar sárlega hér.
Heilsugæslan vinnur mjög mikilvægt starf í dag, svo sem í ungbarnavernd og bólusetningum, mæðravernd, heilsuvernd og heimilislækningum. Með breyttu samfélagi, hærra hlutfalli eldri borgara þar sem fólk lifir lengur og oftar en ekki með einn eða fleiri undirliggjandi sjúkdóma, er þörfin fyrir öfluga samræmda heilsugæslu á landsvísu mjög mikil. Að heilsugæslan verði efld með aukinni áherslu á heimilislækningar, hjúkrunarfræðinga með viðbótarnám til dæmis í sykursýkismeðferð, næringarráðgjöf og lungnasjúkdómum, sálfræðinga og félagsráðgjafa til viðbótar því fagfólki sem starfar í dag innan heilsugæslunnar. Að fjölbreytni verði aukin í rekstri, að skjólstæðingar okkar geti valið hvert þeir sæki þjónustu og fjármagnið fylgi þeim, enda eru þeir skattborgararnir sem borga þjónustuna.
Með þessu er hægt að byggja upp öfluga heilsugæslu á landsvísu og ná árangri í forvörnum og snemmgreiningum. Þannig er ráð í tíma tekið og ekki mest áhersla lögð á að bjarga „innistæðum á ögurstundu“, líkt og við þekkjum úr hruninu.
Heimildir
- Heath I. A general practitioner for every person in the world. BMJ 2008; 336: 861.
- The World Health Report 2008 - Primary Health Care (Now More Than Ever).
- df.org/sites/default/files/Media-Information-Pack.pdf
- who.int/mediacentre/factsheets/fs236/en/ – nóvember 21014.
- landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item25254/Avisunum-a-tauga--og-gedlyf-a-Islandi-hefur-fjolgad-fra-2003-til-2013 – nóvember 21014.