12. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Hallærisheiti: L-TNUHI
Árið 2007 var heiti Landspítala breytt í nýjum heilbrigðislögum, úr því að heita Landspítali háskólasjúkrahús (LSH) í að heita bara Landspítali. Nafn spítalans var reyndar greypt í steinsteypu á suðurvegg gömlu byggingarinnar árið 1931, og er þar enn með tveimur s-um, Landsspítali, sem mér hefur alltaf þótt rökrétt hjá þeim sem stofnuðu spítalann og byggðu það góða hús.
Að stytta heitið og halda sig við upp-runalegra nafnið, Landspítali, var aðeins látlausara á íslensku en Landspítali háskólasjúkrahús, en um leið tapaðist háskólatilvísunin. Hún kom inn þegar reynt var að formgera nýtt háskólasjúk-rahús árið 2001 í kjölfar lagabreytinga frá 1997 og eftirfylgjandi samninga milli spítalans og háskólans. Um þetta heiti var þá sátt meðal stjórnenda spítalans og háskólans. Þá fylgdi með að breyta ensku heiti spítalans til samræmis við íslenska heitið í Landspitali University Hospital og samsvarandi heiti var búið til fyrir skandina-vísk mál. Þetta var ágætlega þjált á ensku, ekki of langt og mátti skammstafa sem LUH. Einhvern veginn og án mikils samráðs var fyrir nokkru reynt að breyta nafni spítalans á ensku rétt einu sinni enn. Nú á spítalinn að kallast Landspítali - The National University Hospital of Iceland, væntanlega skammstafað L-TNUHI. Enginn vafi skal vera til staðar: Þetta er að minnsta kosti á ensku háskólasjúkrahúsið fyrir Ísland, og það eina slíka, ekkert minna. Ákveðinn greinir, tilvísun til þjóðar og þjóðernis, háskólans og starfseminnar og landsins. Ekkert annað sjúkrahús hér á landi getur samkvæmt þessu notað heiti sem tengir það við háskóla, til dæmis ekki Sjúkrahúsið á Akureyri sem hefur góð tengsl við læknadeild og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og við minni háskólabróðurinn, Háskólann á Akureyri. Felst í þessu yfirlæti? Þessi „nafngift“ er á heimasíðu spítalans þar sem upplýsingar eru á ensku, en reyndar ekki í færeysku útgáfunni.
Þegar ég hóf störf við Landspítalann fyrir 30 árum skrifaði ég fljótlega grein í erlent tímarit. Mig vantaði enskt heiti spítalans. Ásmundur Brekkan, yfirlæknir og prófessor, sagði mér að það væri ekki til með opinberum hætti, en að hann og fleiri hefðu notað National University Hospital. Það fannst mér ekki slæmt. Ég vissi ekki til þess eftir 7 ára dvöl í Bretlandi, af ferðum um læknisfræðilegan litteratúr, um nokkur lönd og til allmargra háskólaspítala austan og vestan hafs, að orðið national væri algengt í nöfnum sjúkrahúsa, en kannaðist þó við þann ágæta stað sem er National Maternity Hospital í Dublin. National gat nálgast Lands-hlutann í Landspítali, þó galli væri að íslenska og erlenda heitið féllu ekki saman. National University Hospital var ekki það sama og Landspítali eða Landsspítali. Ég notaði þetta þó um árabil eða þar til samningarnir um háskólasjúkrahúsið voru gerðir 2001 og nafnið Landspitali University Hospital var ákveðið með opinberum hætti. Þá átti reyndar líka að hafa latneskt heiti, Infirmarium Academicum. Eins og nú var ákveðið af einhverjum fáum með einhverjum hætti og án samráðs við til dæmis þá sem mest nota enska heitið, háskólakennara og fræðimenn á Landspítalanum, að hafa þessa latínu (í rangri beygingarmynd). Ég sýndi í Læknablaðinu að þýða mátti þessa latínu sem „háskólalega hælið“.1 Latínuheitið náði aldrei risi og gleymdist eftir þetta - sem betur fer.
En nú er það sem sagt L-TNUHI sem er málið. „Nasjónal“ er komið aftur, ákveðni greinirinn, háskólinn, landið og þjóðernið. Að hafa ákveðinn greini er næsta sjaldgæft í nöfnum sjúkrahúsa í engilsaxneskum löndum enda gagnstætt enskri málvenju. Sama má segja um „national“ og nafn landsins. En þetta gæti gefið til kynna smæð þjóðarinnar og er kannski ágætt með tilliti til þess og hrunsins. Við losnum við að hafa „spitali“ og „hospital“ í sama LUH heitinu. Og alltaf hefur þjóðernið staðið nálægt hjörtum Íslendinga. Við förum okkar eigin leiðir. Sama þótt skammstöfunin L-TNUHI sé í erfiðara lagi og sama þótt nafn spítalans í íslenskum lögum eigi sér engan enduróm í ensku nafngiftinni eða „heitinu“. Í Kaupmannahöfn eru menn ánægðir með að skeyta dönsku heiti framan við enskuna og tala um Rigshospitalet University Hospital. Var Landspítali University Hospital (LUH) ekki nógu gott? Vantaði eitthvað meira? Ég vona að Landspítalinn verði byggður upp í mannvirkjum, skipulagi og heiti til að verða gott háskólasjúkrahús - kynnt á erlendum vettvangi sem „Landspitali University Hospital“, skammstafað LUH. Af því L-TNUHI gengur ekki upp.
1. Geirsson RT. Veiklað „Infirmarium“. Læknablaðið 2000; 86: 363-4.