12. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
Læknafélögin boða auknar verkfallsaðgerðir
Verkföll Læknafélags Íslands og Skurð-læknafélags Íslands hafa nú staðið yfir í rúman mánuð. Ekkert hefur þokast í samkomulagsátt í samningaviðræðum félaganna við samninganefnd ríkisins og allt stefnir í harðari verkfallsaðgerðir á næstu vikum. Forystumenn læknafélaganna segja hrinu uppsagna yfirvofandi ef ekki náist samningar á næstunni.
Þorbjörn Jónsson formaður LÍ, Sólveig Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri LÍ, Ómar Sigurvin Gunnarsson samninganefndarmaður og Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar LÍ fara yfir málin.
Þau eru nokkuð brúnaþung enda er staðan grafalvarleg.
„Forsætisráðherra gaf í skyn á fundi með Framsóknarmönnum á Höfn í Hornafirði um helgina (22.-23. nóv.) að veita ætti meira fé til heilbrigðismálanna. Við eigum eftir að sjá hvernig það er hugsað og ekki er samninganefnd ríkisins komin með aukið umboð til samninga við okkur,“ segir Sigurveig Pétursdóttir formaður samninganefndar Læknafélags Íslands.
„Ef ekki semst á næstu vikum, fyrir áramót, sé ég fyrir mér að læknar segi upp störfum í auknum mæli. Þetta verða ekki hópuppsagnir heldur tekur hver þessa ákvörðun fyrir sig og það sem er alvarlegt er að þessir einstaklingar taka ákvörðunina að vel ígrunduðu máli og munu ekki snúa aftur jafnvel þó samið verði við lækna síðar. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar því starfsemi í ákveðnum greinum byggir á örfáum einstaklingum. Ef þeir hverfa á brott er ekkert annað í stöðunni en að leggja niður viðkomandi starfsemi.“
Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands tekur í sama streng og segir stöðuna óbreytta frá upphafi verkfalls. „Það er ekkert á borðinu þó ýmislegt jákvætt hafi verið sagt af ráðamönnum. Stjórn félagsins hefur samþykkt að halda áfram verkfölllum og auka umfang þeirra með því að hver lota standi í fjóra daga og þær verði samfelldar en ekki með hléum á milli eins verið hefur hingað til.“
Helgi Kjartan Sigurðsson formaður Skurðlæknafélags Íslands segir stöðuna óbreytta og enginn samningafundur boðaður með samninganefnd ríkisins þegar þetta er skrifað.
„Það er ekkert að gerast hjá okkur og við höfum verið að bíða eftir tilboði sem samninganefnd ríkisins lofaði okkur þann 4. nóvember. Það bólar ekkert á því ennþá. Við áttum fund 22. nóvember og honum lauk með því að enginn nýr samningafundur var boðaður. Við bíðum því núna eftir samninganefnd ríkisins hafi samband þegar hún hefur eitthvað fram að færa. Annars er tilgangslaust að ræða saman. Hugsanlega verður eitthvað útspil frá ríkisstjórninni sem gæti liðkað fyrir samningum. Það er eina glætan í stöðunni núna,“ sagði Helgi Kjartan.
Aðspurður um yfirvofandi uppsagnir sagðist Helgi Kjartan vonast til þess í lengstu lög að til þeirra kæmi ekki. „ Við vonum að deilan leysist áður en til þess kemur.“
Verkfallsverðir Læknafélaganna hafa haft bækistöð í höfuðstöðvum Læknafélagsins að Hlíðasmára 8 og safnast þar saman að morgni verkfallsdaganna áður en haldið er í eftirlitsferðir á sjúkrahúsin. Að sögn verkfallsvarða hefur ekkert verið um verkfallsbrot en vegna skipulags verkfallsins þar sem einstök svið, en ekki öll, eru í verkfalli á hverjum tíma, hafa komið upp álitamál sem leysa hefur þurft úr.
Verkfallsverðir Skurðlæknafélagsins á vettvangi. Frá vinstri: Halla Fróðadóttir lýtalæknir, Sigríður
Sveinsdóttir háls-, nef- og eyrnalæknir og Rafn Hilmarsson þvagfæraskurðlæknir.
Stjórnir félaganna hafa lagt áherslu á að verkfallsverðir forðist átök eða deilur inn á sjúkrahúsunum og hefur reynst auðvelt að fylgja þeim fyrirmælum. Það var einróma álit verkfallsvarða að samstaða annars heilbrigðisstarfsfólks með málstað þeirra væri mikil og allir legðu sig fram um að gæta þess að verkfallið væri haldið og ekki gengið í annarra störf. Niðurstaðan er því sú að verkfallið kemur verst niður á þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og hefur fjölda aðgerða verið frestað vegna verkfallsins en flestir hafa tekið því vel og af skilningi.
Hjá ríkissáttasemjara í Borgartúni. Á myndinni eru frá vinstri samninganefnd LÍ: Oddur Ingimarsson,
Björn Gunnlaugsson og Sigurveig Pétursdóttir, og Magnús Pétursson ríkissáttasemjari, Gunnar Björnsson
og Halldóra Friðjónsdóttir af hálfu ríkisins.
Blaðamaður Læknablaðsins varð vitni að því þegar eldri kona kom í sitt reglubundna eftirlit á Hjartagátt Landspítala á verkfallsdegi og var vísað frá. Hún tók því vel þó hún hefði tekið leigubíl að heiman og yrði nú að taka annan bíl heim án þess að fá lausn sinna mála. Starfsfólk afgreiðslunnar sagði þetta ekki einstakt tilfelli enda ekki allir með dagsetningar verkfalla á einstökum sviðum spítalans á hreinu.
„Við vonum að deilan leysist sem fyrst svo ekki komi til áframhaldandi og útbreiddari verkfalla,“ segir Þorbjörn Jónsson formaður LÍ.