12. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Nám og kennsla

Hjúkrunarfræðinemar horfa með andakt á læknakandídatinn Árna Björnsson (1923-2004) og hlusta á hann segja allt sem segja þarf um líffærafræði. Hauslaus beingrind kemur út úr skápnum og fylgist með en þeim finnst Árni greinilega meira spennandi! Þessa mynd á kápu blaðsins frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur tók Sigurhans E. Vignir um árið 1950 en þá fór kennslan fram á efstu hæð Landspítalans. Myndin er að mörgu leyti táknræn fyrir menntunarmál og stjórnun í heilbrigðiskerfinu á þessum árum; fjöldi af ungum konum sem ætla að verða hjúkrunarkonur hlusta á karlkyns læknakandídat uppfræða hópinn. Árni fékk lækningaleyfi árið 1953 en var kandídat á Landspítalnum af og til á árunum 1950-1953 og kenndi þá við skólann. Það þótti nægileg kennsla að læknanemar, sem flestir voru karlmenn, færu yfir helstu atriðin sem talið var æskilegt að hjúkrunarkonur kynnu einhver skil á.

Nám hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum sem og samspil þekkingar og fræðasviða ólíkra starfsstétta. Þá hafa kennsluaðferðir breyst frá því sem er á þessari mynd en það sem enn er óbreytt eru markmið náms heilbrigðisstarfsmanna: lækningar og líkn.


Myndin er tekin 23. maí 1969 í hátíðasalnum í aðalbyggingu Háskóla Íslands, og sýnir læknanema á
fyrsta ári gangast undir upphafspróf í læknisfræði. Tilefni myndatökunnar voru deilur fyrsta árs
læknanema við læknadeild HÍ og hótanir um prófverkfall ef kröfur þeirra um niðurfellingu inntöku-
skilyrða yrðu ekki teknar til greina. Þetta sumar voru fyrstu herskáar aðgerðir sem íslenskir stúdentar
stóðu að og má segja að þær hafi tilheyrt hinni evrópsku stúdentabyltingu sem hófst í París 1968 og
heil kynslóð dregur nafn sitt af.


Í nóvember 1973 fóru læknanemar í verkfall til að mótmæla áætlunum læknadeildar um að setja á fjöldatakmarkanir. Hvatamenn verkfallsins, Sigurður Guðmundsson, Gunnar Guðmundsson og Gizur Gottskálksson, allir ungir og vel greiddir, voru í stjórn Félags læknanema á þessum tíma. Báðar myndirnar tók Bragi Guðmundsson, og þær eru varðveittar hjá Ljósmyndasafni Íslands sem er eitt albesta ljósmyndasafn í heimi.

Kennsla hjúkrunarkvenna hófst með stofnun Holdsveikrahælisins í Laugarnesi 1898 en til þess að fullnuma sig í fræðunum þurftu þær að fara utan og fóru einkum til Kaupmannahafnar. Árið 1931 var Hjúkrunarkvennaskólinn stofnaður og fór þá allt nám fram hér heima. Nafni skólans var breytt í Hjúkrunarskóla Íslands 1948 en starfsheitinu hjúkrunarkona var ekki breytt í hjúkrunarfræðingur fyrr en árið 1975. Flestar konurnar höfðu lítið annað en skólaskyldu að baki þegar þær hófu nám í Hjúkrunarskólanum en eftir miðja öldina luku þær yfirleitt gagnfræðaprófi eða jafnvel meira námi. Nám hjúkrunarkvenna var að mestu verklegt en þær fengu einnig tilsögn í bóklegum greinum eins og lífeðlis-, lyflæknis- og líffærafræði. Lengi vel eimdi eftir af þeirri hugsun að „betra væri að hafa góðar konur til að aðstoða lækna og sjúklinga en langskólamenntaðar konur sem gerðu ekki annað en að skrifa skýrslur“. Eftir því sem árin liðu og tækni og þekkingu fleytti fram var námið flutt yfir á háskólastig.

Jón Ólafur Ísberg



Þetta vefsvæði byggir á Eplica