11. tbl. 100. árg. 2014

Fræðigrein

Læknablaðið 100 ára. Sagan um Borgarspítalann

Brátt líður að því að 50 ár verða liðin frá því Borgarspítalinn í Fossvogi í Reykjavík tók til starfa. Hann var byggður og stofnaður til þess að bregðast við því sem mun hafa jaðrað við öngþveiti í sjúkrahúsmálum í Reykjavík. Hann tók til starfa í árslok 1967 en starfsemi í nafni hans lauk með sameiningu Reykjavíkursjúkrahúsanna árin 1996-2000. Hér verður sagt nokkuð frá aðdraganda að stofnun hans og starfsemi.


Borgarspítalinn. Myndin sýnir vel álmur spítalans og umhverfi. Lága byggingin var reist fyrir slysa-
og bráðadeildina. Þyrluvöllurinn er efst á myndinni. Myndin er fengin úr afmælisriti Reykjavíkur 1986,
á 200 ára afmæli borgarinnar. Mynd Morgunblaðið.

Saga sjúkrahúsa á Íslandi er ekki ýkja löng. Það fyrsta sem kallaðist Sjúkrahús Reykjavíkur tók til starfa árið 1866. Það var á efri hæð skemmtistaðar við Aðalstræti. Þar voru aðeins örfá sjúkrarúm. Íbúar landsins voru þá um 67.000. Litlar framfarir voru í sjúkrahúsmálum næstu áratugina enda þjóðin fátæk og fámenn. Smám saman rofaði þó til í þeim efnum. Vilmundur Jónsson (1889-1972), fyrrum landlæknir, hefur ritað mjög ítarlega frásögn af gangi þessara mála fyrstu áratugina í bókinni Lækningar og saga.1

Á 20. öld urðu miklar framfarir í heilbrigðismálum og margar sjúkrastofnanir tóku til starfa, bæði á Reykjavíkursvæðinu og á landsbyggðinni. Þessu hefur Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur sagt frá í bók sinni Líf og lækningar.2 Meðal merkari áfanga verður að telja opnun St. Jósefsspítala á Landakoti (1902) og Landspítalans (1930).

Hér verður þessi saga ekki rakin nánar heldur sagt frá Borgarspítalanum. Þangað leituðu þúsundir landsmanna til að fá bót meina sinna og fjöldi aðstandenda þeirra. Starfsmenn voru fjölmargir. Þótt Reykjavíkurbær hafi haft forgöngu um stofnun hans var hann spítali allra landsmanna enda var allt að helmingur sjúklinganna frá öðrum sveitarfélögum. Spítalinn var rekinn af bæjarfélaginu (síðar borginni) í tæp 30 ár en árið 1996 voru spítalinn og Landakotsspítali sameinaðir og hét hann eftir það Sjúkrahús Reykjavíkur. Árið 1999 var svo tekin ákvörðun um að sameina þennan spítala og Landspítalann og heita þeir Landspítali frá árinu 2000.

Vonandi verða lesendur nokkru fróðari um sögu spítalans og þeir sem minna þekkja til heilbrigðismála átta sig væntanlega betur á því hversu mikið þarf til svo að starfrækja megi meðalstórt sjúkrahús og hversu flókin og margbreytileg sú starfsemi er.


Myndin sýnir þrengsli sem oft urðu á göngum lyflækningadeildar vegna sjúklingafjölda. Mynd úr
Ársskýrslu Borgarspítalans 1987, ljósmyndari ókunnur.

Aðdragandi að stofnun

Um það leyti sem síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1945, og raunar fyrr, var orðið ljóst að sjúkrarúmaskortur var mikill. Oft reyndist erfitt að fá pláss fyrir sjúklinga á Reykjavíkursjúkrahúsunum og biðlistar lengdust. Mikil fólksfjölgun hafði orðið í landinu og miklir fólksflutningar voru af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Var leitað ýmissa leiða til að ráða bót á þessu vandamáli. Meðal annars leitaði bærinn fyrir sér um kaup á Landakotsspítala, en ekki náðist um það samkomulag. Talsvert mun hafa verið rætt um stækkun Landspítala en ekki mun hafa verið einhugur hjá ráðamönnum hans varðandi nýbyggingar á þeim tíma. Ýmsar samþykktir voru gerðar og háværar raddir voru á þá leið að siðferðislega væri komið að Reykjavík að hafa frumkvæði í sjúkrahúsmálunum.

Vegna stöðu þessara mála skipaði bæjarstjórn nefnd í desember 1948 til undirbúnings byggingar bæjarspítala. Formaður var Sigurður Sigurðsson (1903-1986) síðar landlæknir. Nefndin lagði til að reist yrði sjúkrahús í Fossvogi fyrir 325 sjúklinga. Teikningar gerðu arkitektarnir Einar Sveinsson (1906-1973) og Gunnar Ólafsson (1916-1959). Þeir kynntu sér sjúkrahús erlendis og leituðu ráða margra aðila varðandi hönnun. Eftir lát Gunnars stóð Einar einn að hönnun hússins.

Byggingarnefnd var skipuð og var formaður hennar fyrrnefndur Sigurður Sigurðsson. Nefndin vann mikið og gott starf. Hún var lögð niður 1965. Þá tók við Sjúkrahúsnefnd Reykjavíkur. Jón Sigurðsson (1906-1986) borgarlæknir sem var formaður nefndarinnar hefur gert ítarlega grein fyrir aðdraganda, stofnun og byggingu spítalans í afmælisriti á 10 ára afmæli spítalans3 og er það aðalheimild flestra sem ritað hafa um þennan kafla í sögu spítalans.

Grunnur hússins var grafinn árið 1952 en aðalframkvæmdir hófust 1954. Eftir að þær hófust munu hafa borist fregnir af fyrirhugaðri mikilli stækkun Landspítalans og mun það hafa komið nokkuð á óvart miðað við það sem að framan greinir. Það hlýtur að hafa verið fjárveitingavaldinu nokkuð umhugsunarefni og sýndi líka stórhug og bjartsýni að leggja fjármagn til byggingar tveggja stórra sjúkrahúsa á sama tíma. Um þessar mundir var einnig unnið að stækkun Landakotsspítala. Ríkið fjármagnaði alfarið byggingar á vegum þess en 60% af byggingarkostnaði sveitarfélaga og síðar 85%.

Ákveðið var að spítalabyggingin í Fossvogi yrði T-laga þar sem tvær álmur voru einkum ætlaðar sem legudeildir fyrir sjúklinga og ein álma þar sem gert var ráð fyrir röntgendeild, rannsóknadeild, skurðstofum, slysa- og bráðamóttöku og ýmissi annarri starfsemi. Spítalinn var byggður í áföngum og var aðeins önnur legudeildarálman byggð fyrst en hin nokkrum árum síðar. Árið 1978 var byggð álma á þremur hæðum sem hýsti slysa- og bráðamóttöku. Þar var einnig rekin heilsugæslustöð frá 1981 í nokkur ár.

Það var ljóst strax í upphafi að langan tíma tæki að byggja spítalann. Var þá gripið til þess ráðs að fullgera byggingu Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg og voru tvær efstu hæðirnar teknar í notkun fyrir sjúkradeildir. Í fyrstu voru þar sjúklingar sem veikst höfðu af mænuveiki en árið 1956 var starfseminni breytt í lyflækninga- og farsóttadeild og hét í fyrstu Bæjarspítalinn en eftir 1962 Borgarspítalinn.

Það tók langan tíma að byggja húsið af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna þess að á fyrstu byggingarárunum voru allar slíkar framkvæmdir háðar fjárfestingaleyfum. Fimmtán ár liðu frá því að byggingaframkvæmdir hófust þar til eiginleg starfsemi hófst.  


Jón Sigurðsson borgarlæknir og fyrsti formaður Sjúkrahúsnefndar Reykjavíkur.


Farið af stað

Fyrsti sjúklingurinn var innritaður á spítalann 28. desember 1967 og er það talinn stofndagur hans. Þá voru landsmenn um 200.000. Fyrsta heila starfsárið var 1968 og mótaðist og þróaðist starfsemin nánar á næstu tveimur árum. Þegar starfsemi hófst á spítalanum fluttust þangað ýmsar heilbrigðisstofnanir sem reknar voru á vegum borgarinnar: Slysavarðstofan sem verið hafði í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar, lyflækningadeild sem var á efri hæðum í sama húsnæði, starfsemin á sjúkrahúsi Hvítabandsins við Skólavörðustíg, en þar voru einkum stundaðar skurðlækningar, og geðdeild sem verið hafði í Farsóttahúsinu við Þingholtsstræti.

Eins og nærri má geta hefur þurft geysimikinn undirbúning áður en móttaka sjúklinga gat hafist. Ráða þurfti starfsmenn sem voru fjölmargir, panta búnað í fjórar skurðstofur, skurðarborð, lampa, svæfingavélar og fleira sem til þurfti, allan tækjabúnað á röntgendeild, rannsóknastofur, eldhús, sótthreinsunardeild og búnað á sjúkradeildir, rúm, lín, leirtau og margt fleira.

Ýmsir forystumenn og konur unnu að undirbúningi og voru stjórnendur þegar spítalinn tók til starfa.

Framkvæmdastjóri var ráðinn Haukur Benediktsson (1924-2009) en hann hafði verið framkvæmdastjóri Sjúkrahúsnefndar Reykjavíkur og Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg og var því vel kunnugur sjúkrahúsmálum borgarinnar. Hann átti mikinn þátt í öllum undirbúningi að opnun spítalans og á hans herðum hvíldi rekstur, fjármál, starfsmannamál og launamál.

Forstöðukona (hjúkrunarforstjóri eftir 1974) var Sigurlín Gunnarsdóttir. Hún hafði unnið lengi að undirbúningi ýmiss konar og um flest varðandi búnað sjúkradeilda. Öll hjúkrun og aðhlynning var á hennar starfssviði, auk yfirstjórnar annarrar starfsemi, svo sem sótthreinsunar, saumastofu og ræstinga. Hún hefur ritað afar fróðlega bók sem heitir Sjúkrahús verður til4 þar sem hún fjallar um undirbúning að opnun spítalans, búnað sjúkradeilda, skipulag hjúkrunar og fleira. Hún greinir frá því að gert var ráð fyrir 5 umgöngum af rúmfötum fyrir hvert sjúkrarúm. Keyptir voru 3 km af sængurveradamaski og 4 km af lakalérefti. Auk þess efni í vinnufatnað starfsmanna, gluggatjöld og fleira. Saumastofa spítalans tók til starfa nokkru fyrir opnun hans. Þar voru allar flíkur sniðnar og saumaðar, sængurfatnaður, gluggatjöld og annað sem nota þurfti á spítalanum.

Eldhús spítalans var stórt og vel búið tækjum, og veitti ekki af, því matreiða þurfti fjölmargar máltíðir á hverjum degi, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Undirbúning á þessu sviði hafði með höndum Elínborg Finnbogadóttir (1908-1992) síðar matráðskona spítalans. Stór matsalur fyrir starfsfólk var við hlið eldhússins.

Umsjónarmaður spítalans var Jón Atli Jónsson (1924-1975) vélstjóri. Hann hafði á hendi umsjón með spítalabyggingunni, veitumálum innanhúss, vatni, rafmagni, hita, frárennsli og sorphirðu, öryggismálum, viðgerðum og viðhaldi.

Röntgendeild spítalans hóf starfsemi árið 1966. Þar með var bætt úr brýnni þörf, því biðtími eftir röntgenrannsóknum hafði verið langur fram að því. Yfirlæknir var Ásmundur Brekkan sem starfað hafði við Landspítalann. Hann sá um val á tækjabúnaði og annaðist allan undirbúning að opnun deildarinnar. Þangað kom fyrsta tölvusneiðmyndatæki landsins árið 1981.

Yfirlæknir á lyflækningadeild var Óskar Þórðarson (1906-1995) en hann hafði gegnt sama starfi á lyflækningadeild Heilsuverndarstöðvarinnar frá upphafi.

Rannsóknastofa Heilsuverndarstöðvar fluttist á sama tíma í nýja spítalann. Þessi deild fékk allmikið rými og þar hófst fjölbreytt starfsemi. Yfirlæknir var Eggert Ó. Jóhannsson (1925-1992).

Slysavarðstofan fluttist nú í spítalann og varð sérstök deild, slysadeild. Þar varð strax mikið annríki vegna slysa og bráðra sjúkdóma. Yfirlæknir var Haukur Kristjánsson (1913-2001) sem verið hafði yfirlæknir Slysavarðstofunnar.

Nokkurt nýmæli þótti þegar ákveðið var að hafa deild fyrir geðsjúka inni í aðalbyggingunni og munu hafa verið skiptar skoðanir á því máli. Yfirlæknir var Karl Strand (1911-1998) en hann hafði lengi starfað í Bretlandi.

Skurðlækningadeild var undir forystu Friðriks Einarssonar (1909-2001) en hann var í hópi þeirra sem ráðnir voru alllöngu fyrir opnun spítalans til ráðgjafar og undirbúnings. Hann starfaði áður við Landspítalann sem annar af aðalskurðlæknum spítalans ásamt Snorra Hallgrímssyni prófessor.

Þegar skurðlækningar hófust á spítalanum var stofnuð sjálfstæð svæfingadeild og annaðist starfsfólk hennar svæfingar, deyfingar og ýmiskonar umönnun sjúklinga fyrir og eftir skurðaðgerðir. Yfirlæknir var Þorbjörg Magnúsdóttir (1921-2006). Hún var annar af fyrstu sérfræðingum í svæfingalæknisfræði hér á landi árið 1952 og hafði verið svæfingalæknir við sjúkrahús Hvítabandsins og varð yfirlæknir gjörgæsludeildar spítalans sem tók til starfa árið 1970 og mun hafa verið fyrsta almenna gjörgæsludeildin hér á landi.

Háls-, nef- og eyrnadeild tók til starfa árið 1970. Nokkru síðar opnaði göngudeild á vegum deildarinnar. Yfirlæknir var Stefán Skaftason.

Árið 1973 fékk spítalinn til afnota allstórt húsnæði í nágrenninu. Þar var stofnuð endurhæfingardeild (síðar endurhæfingar- og taugadeild) sem daglega kallaðist Grensásdeild. Var nú bætt úr brýnni þörf vegna endurhæfingar eftir slys og sjúkdóma. Yfirlæknir var Ásgeir B. Ellertsson.

Fæðingarheimilið við Þorfinnsgötu var lengi rekið sem sjálfstæð eining á vegum borgarinnar en frá 1989 sem ein af deildum spítalans. Þar var á tímabili rekin lítil skurðstofueining. Yfirlæknir var Guðjón Guðnason (1923-1998) og forstöðukona og yfirljósmóðir Hulda Jensdóttir.

Lækningabókasafni var komið á laggirnar við Borgarspítalann þegar í upphafi og átti Kristín H. Pétursdóttir bókasafnsfræðingur veg og vanda af uppbyggingu þess. Þar var fljótlega góður bóka- og tímaritakostur og ýmis þjónusta var veitt, svo sem heimildaleit og ljósritun.


Starfsmenn skurðdeildar áður en fyrsta aðgerð fór fram 1968. Frá vinstri: Svala Jónsdóttir hjúkrunar-
kona, Frosti Sigurjónsson læknir, dr. Friðrik Einarsson yfirlæknir, Valgerður Kristjánsdóttir yfirhjúkrunar-
kona, Þórarinn Guðnason læknir, Jón Níelsson læknir, Þorbjörg Magnúsdóttir yfirlæknir svæfinga- og
gjörgæslugeildar, Hulda Þorkelsdóttir hjúkrunarkona, Páll Helgason læknir, Jón Stefánsson læknir og
Sigurður B. Þorsteinsson læknir. (Ljósm. ókunnur.)

Og árin liðu

Næstu árin urðu miklar framfarir í greiningu og meðferð sjúkdóma og margar nýjungar komu til sögunnar. Sérhæfing jókst og starfsmönnum fjölgaði. Nýjar sjálfstæðar og sérhæfðar deildir voru stofnaðar.

Heilaskurðlæknarnir Bjarni Hannesson (1938-2013) og Kristinn Guðmundsson hófu störf við spítalann árið 1970 og sérstök heila- og taugaskurðlækningadeild tók til starfa árið 1973 undir forystu þeirra. Áður þurfti að flytja sjúklinga með heilaæxli og önnur mein í heila og taugakerfinu til útlanda, einkum Kaupmannahafnar. Bjarni Jónsson (1909-1999) yfirlæknir á Landakotsspítala hafði kynnt sér meðferð höfuðáverka á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn og annaðist slíka sjúklinga eftir atvikum fyrir komu Bjarna og Kristins.

Hjartadeild var lengi hluti lyflækningadeildar en varð síðar sjálfstæð eining. Þvagfæraskurðdeild var stofnuð, sömuleiðis bæklunarskurðlækningadeild, öldrunarlækningadeild og smitsjúkdómadeild. Læknar önnuðust speglanir á innri líffærum á sérstakri speglunardeild. Þar fengust nákvæmar sjúkdómsgreiningar.

Rekstur spítala krefst að sjálfsögðu samstarfs margra aðila og aðstaða verður að vera fullnægjandi. Í töflu þeirri sem hér fylgir er greint frá þessum þáttum, aðstöðu og starfsemi. Þess ber að geta að sumt sem þar er talið var ekki til staðar allan þann tíma sem hér um ræðir. Eitthvað kann að vera vantalið.

Á sjúkradeildum var athvarf sjúklinga og hjúkrun þeirra og umönnun var umfangsmikil og mikilvæg. Á spítalanum störfuðu margir færir læknar sem önnuðust sjúkdómsgreiningar og meðferð hinna slösuðu ásamt samstarfsfólki sínu. Sjúkdómsgreiningar urðu nákvæmari og fljótari eftir því sem árin liðu með nýrri þekkingu og tækni. Meðferðarúrræði urðu fleiri og betri. Legutími styttist umtalsvert.

Tölvuvæðing hófst smám saman og ruddi sér til rúms á flestum sviðum. Rannsóknadeild hafði þar nokkra forystu í samstarfi við Skýrsluvélar ríkisins. Öll rannsóknasvör bárust útprentuð samdægurs sem þótti nýjung og var til mikils hægðarauka. Árið 1981 fékk spítalinn eigin tölvu og smám saman varð tölvunotkun almenn.

Spítalinn rak nokkur útibú: Hjúkrunardeild í húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar, geðdeild og síðar öldrunardeild í húsi Hvítabandsins við Skólavörðustíg, Arnarholt á Kjalarnesi þar sem rekin var langtímavistun fyrir geðsjúka, hjúkrunar- og endurhæfingardeild í Hafnarbúðum við Reykjavíkurhöfn. Einnig lítil útibú við Eiríksgötu og við Kleifarveg.

Nokkur samvinna var milli spítalanna í Reykjavík og sérstaklega má benda á samvinnu um  bráðavaktir sem voru teknar upp til að jafna álag vegna bráðveikra sjúklinga sem leggja þurfti inn til meðferðar.

Sjúkrarúm á spítalanum voru um 510 árið 1995, þar af tæp 300 í Fossvogi en rúmlega 200 á útibúum og dagdeildum. Þá voru stöðugildi 1257 en í þeim voru miklu fleiri starfsmenn þar sem margir voru í hlutastöðum.

Stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkur (sem tók við af Sjúkrahúsnefnd Reykjavíkur) var skipuð þremur fulltrúum sem kosnir voru af borgarstjórn og fulltrúar starfsmanna voru tveir. Fundi stjórnar sátu auk þess framkvæmdastjóri spítalans, hjúkrunarforstjóri og formaður læknaráðs. Boðleiðir innan spítalans voru stuttar og auðvelt reyndist að ná tali af yfirmönnum, sem gerði öll samskipti nánari og fljótvirkari.

Rekstur spítalans var oft erfiður. Hann var lengi rekinn með daggjöldum þar sem greitt var fyrir hvern legudag. Hallarekstur var bættur með halladaggjöldum. Síðar var spítalinn rekinn með föstu framlagi sem ákveðið var í fjárlögum. Reyndist oft erfitt að reka spítalann réttu megin við strikið. Stundum var fyrirskipaður flatur niðurskurður á útgjöldum, þá náðu endar ekki saman í rekstrinum og þurfti að grípa til niðurskurðar, sparnaðar og framlengdra sumarlokana sem oft reyndist erfitt. Af og til var skortur á starfsfólki, einkum hjúkrunarfræðingum. Vinnudeilur komu fyrir. Félag velunnara Borgarspítalans studdi starfsemi hans á ýmsan hátt.

Í árslok 1986 var tilkynnt að hafnar væru viðræður milli borgaryfirvalda og ríkisins um yfirtöku þess á eignum og rekstri Borgarspítalans. Þetta olli miklu uppnámi meðal starfsfólks og urðu í kjölfarið fundahöld, fjölmiðlaumræða og stuðningsyfirlýsingar um málið. Ekki varð úr þessum áformum.

Um allt þetta má lesa í ársskýrslum spítalans. Þar er greint frá rekstrartölum, fjármálum, sjúkdómsgreiningum, læknisaðgerðum, fjölda legudaga, fjölda starfsmanna og mörgu fleiru. Lengi var gefið út starfsmannablaðið Spítalapósturinn og er margt fróðlegt þangað að sækja. Sömuleiðis blaðaefni frá þessum tíma.

 

Fræðsla heilbrigðisstétta og vísindastarfsemi

Frá opnun spítalans fór fram mikil fræðslustarfsemi fyrir heil-brigðis-stéttir sem fór vaxandi eftir því sem tímar liðu. Hér á eftir verða taldir fjölmennustu hóparnir en eitthvað kann að vera vantalið.

Hjúkrunarnemar við Hjúkrunarskóla Íslands og síðar hjúkrunarfræðinemar við Háskóla Íslands voru fjölmargir en þessir nemendur voru oft margar vikur hver.

Sjúkraliðaskóli var starfræktur við spítalann í nokkur ár og voru nemendur um 160 fram til ársins 1975 þegar Sjúkraliðaskóli Íslands tók til starfa en nemendur skólans sóttu verklegt nám til spítalans eftir sem áður.

Læknanemar voru fjölmennur hópur og var hver þeirra lengur eða skemur við nám. Sérstakur samningur var síðar gerður við Háskólann varðandi þessa kennslu árið 1983. Allmargir læknar spítalans voru kennarar við læknadeild í hlutastarfi. Fræði- og vísindastörf fóru vaxandi eftir því sem tímar liðu.

Margir læknakandídatar voru á spítalanum eftir útskrift frá læknadeild til að ljúka kandídatsárinu þannig að þeir gætu öðlast lækningaleyfi. Þá voru margir læknar við ýmiss konar framhaldsnám eða sérfræðinám.

Nemendur Nýja hjúkrunarskólans voru við framhaldsnám í nokkrum undirgreinum hjúkrunar og sóttu verklegt nám á spítalann. Röntgentæknaskólinn var tengdur starfsemi röntgendeildar og fór verulegur hluti bóklegu og verklegu kennslunnar fram á spítalanum. Meinatæknanemar voru við verklegt og bóklegt nám við rannsóknadeild mestallt árið. Þá má telja nemendur í sjúkraþjálfun, bókasafnsfræði, sálfræði, þroskaþjálfun, iðjuþjálfun og félagsráðgjöf. Nemendur Stýrimannaskólans og Hjálparsveita skáta voru mislengi á slysadeild. Í nokkur ár voru haldin tveggja vikna námskeið fyrir sjúkraflutningamenn í samstarfi við Rauða krossinn. Nemar í guðfræðideild Háskólans sóttu fræðslu og reynslu í sálgæslu.  

Þessi kennsla fór að talsverðu leyti fram sem klínískt nám á sjúkradeildum og öðrum sérdeildum. Fluttir voru fyrirlestrar fyrir hina ýmsu hópa og á flestum deildum voru fræðslufundir.

 

En hvernig tókst svo til?

Bygging og rekstur Borgarspítalans verður að telja mikilvægt framfaraspor í heilbrigðismálum. Hann var reistur til að bregðast við vandræðum í sjúkrahúsmálum í Reykjavík. Landsmönnum og sérlega íbúum Reykjavíkur hafði fjölgað mikið og stöðugt jókst eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Á því tímabili sem hér um ræðir, frá 1967 til 2000, fjölgaði landsmönnum um 80.000.

Á þessum 29 árum jókst starfsemi eftir því sem húsakostur stækkaði. Miklar framfarir urðu á tímabilinu í greiningu sjúkdóma eins og áður segir. Nýting sjúkrarúma var yfirleitt mjög góð og oft var yfirfullt. Afköst spítalans voru veruleg og það tókst að koma flestum, en því miður ekki öllum, til betri heilsu og lækna mörg mein. Fjöldi innlagðra sjúklinga á spítalann var um 230.000 manns. Spítalinn var frá upphafi aðalmóttökustaður landsins vegna slysa og bráðra sjúkdóma. Og álag á starfsfólk var mikið. Á því tímabili sem hér um ræðir leituðu sér lækninga á slysa- og bráðamóttöku spítalans tæplega ein milljón manns. Margir þurftu bráðrar innlagnar við eða þurftu að koma í fleiri heimsóknir þangað vegna sára- og gipsskiptinga og til ýmiss konar eftirlits. Séu þessar endurkomur taldar með er talan hærri en ein og hálf milljón.

Á göngudeild háls-, nef- og eyrnadeildar sem stofnuð var 1975 komu rúmlega 300.000 manns, röntgen og myndgreiningar voru rúmlega ein milljón, svæfingar og deyfingar voru um 140.000, á rannsóknadeild voru gerðar um 400.000 rannsóknir, einungis á árinu 1994. Loks má benda á hinn mikla fjölda heilbrigðisstarfsmanna sem hafa hlotið menntun eða fræðslu á spítalanum.

Á tímabilinu voru haldnir í Reykjavík tveir fundir leið-toga stórvelda, Nixon forseti Bandaríkjanna og Pompidou Frakk-landsforseti funduðu á Kjarvalsstöðum 1972, og Gorbatjov aðalritari sovéska kommúnistaflokksins og Reagan forseti Bandaríkjanna í Höfða 1986. Í bæði skiptin var Borgarspítalinn valinn af fulltrúum þeirra sem fyrsti spítali (primary hospital) kæmi eitthvað alvarlegt fyrir leiðtogana. Viðbúnaður spítalans var talsverður vegna þessa.

En hvernig mátu sjúklingarnir þjónustu og viðmót starfsmanna? Kunnugt er um eina könnun þessa efnis sem gerð var meðal sjúklinga undir lok þessa tímabils og voru langflestir sjúklinganna  ánægðir með þá þjónustu og úrlausnir sem tiltækar voru á hverjum tíma.

Borgarspítalinn starfaði frá 1967 og til sameiningar sjúkrahúsanna árin 1996-2000. Þessar sameiningar áttu sér nokkurn aðdraganda sem ekki verður rakinn hér. Þá urðu miklar breytingar á stjórnsýslu, deildaskiptingu hinna ýmsu sérgreina og fleiru. Öflug spítalastarfsemi hefur síðan verið rekin í húsakynnum Borgarspítalans og heitir þar nú Landspítali. En það er önnur saga.Þakkir

Bestu þakkir fá Bragi Þorgrímur Ólafsson fagstjóri á Landsbókasafni, Elín Helga Jóhannesdóttir skrifstofustjóri Landspítala, Guðmundur Oddsson fyrrum yfirlæknir hjartadeildar Borgarspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur, og Jóhannes Pálmason fyrrum forstjóri Borgarspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur.

 

Heimildir

  1. Jónsson V. Lækningar og saga. Tíu ritgerðir. 1-2. Menningarsjóður, Reykjavík 1969.
  2. Ísberg JÓ. Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2005.
  3. Sigurðsson J. Byggingarsaga Borgarspítalans, fyrri aðaláfangi byggingarinnar. Læknablaðið 1978; 68, Fylgirit 6: 9-16.
  4. Gunnarsdóttir SM. Sjúkrahús verður til. Upphaf og uppbygging hjúkrunarþjónustu Borgarspítalans í Reykjavík. Sjúkrahús Reykjavíkur, Reykjavík 2000.

    Ársskýrslur Borgarspítalans í Reykjavík. Frá upphafi til loka starfsemi Borgarspítalans, sem tiltækar eru.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica