11. tbl. 100. árg. 2014

Fræðigrein

doi: 10.17992/lbl.2014.11.566

Ágrip

Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að skoða vinnuslys 13-17 ára ungmenna á Íslandi, orsakir þeirra og alvarleika. Í fyrsta lagi var athugað hversu stór hluti ungmenna hefur slasast í vinnu, hve lengi þau hafa verið fjarverandi frá vinnu vegna slyssins og hvernig vinnuslysin og alvarleiki þeirra skiptist eftir aldri og kyni. Í öðru lagi voru tegundir áverka og helstu slysavaldar skoðaðir. Í þriðja lagi voru alvarlegustu áverkarnir skoðaðir og hvað olli þeim.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var lagður fyrir 2000 manna slembiúrtak 13-17 ára ungmenna í Þjóðskrá árið 2008. Svarhlutfallið var 48,4%. Spurt var í lokaðri spurningu hvort ungmennin hefðu orðið fyrir vinnuslysi og um alvarleika slyssins en í opinni spurningu um áverka og slysavalda. Kí-kvaðrat próf var notað til að reikna tölfræðilega marktækni og miðað við 95% vikmörk.

Niðurstöður: Fimmtungur ungmennanna hafði orðið fyrir vinnuslysi, fjórðungur slasaðra var frá vinnu vegna slyssins, þar af 5,9% lengur en eina viku. Hlutfall slasaðra hækkar með hækkandi aldri og er hlutfallið komið í 30,7% við 17 ára aldur. Algengustu áverkar voru skurðir og tognun, en bakáverkar og beinbrot höfðu í för með sér lengsta fjarveru frá vinnu. Beitt áhald var algengasti slysavaldurinn en að bera eða taka hlut upp og fall hlutar voru þeir slysavaldar sem ollu lengstri fjarveru.

Ályktun: Fjöldi ungmenna sem slasast við vinnu og alvarleiki sumra slysanna vekur ugg. Auk öryggisþjálfunar og fræðslu í vinnuvernd, þurfa framtíðarrannsóknir að skoða hvort staða ungmenna á vinnumarkaði ógni í reynd öryggi þeirra og ef svo er, hvernig hægt sé að bæta þar úr.

Inngangur

Algengt er að ungmenni undir 18 ára aldri stundi launaða vinnu samhliða skóla og vinna íslenskra ungmenna er áberandi mikil, sérstaklega yfir sumartímann.1,2Vinna ungmenna er sveigjanleg í þeirri merkingu að vinnutíminn er gjarnan óreglulegur og þau skipta oft um vinnu.1,2 Rannsóknir á vinnuslysum ungmenna eru fáar1 en þó er ljóst að nokkur hluti ungmenna verður fyrir vinnuslysum, að sum þeirra eru alvarleg og að skurðir og brunasár eru algengir áverkar.2-6 Ungmenni eru í meiri hættu á að lenda í vinnuslysum en þeir sem eldri eru,7-9 eldri ungmennum er hins vegar hættara við vinnuslysum en þeim yngri og strákum er hættara við vinnuslysum en stelpum.7,10Engu að síður sýna rannsóknir að bæði aldur og kyn eru víkjandi þættir í vinnuslysum ungmenna og að það eru fyrst og fremst þættir tengdir vinnustaðnum sem segja fyrir um áhættuna.10 Svo dæmi sé tekið sýndi bandarísk rannsókn að upplifun starfsfólks af því að rekið væri á eftir því í vinnu spáði fyrir um aukna slysahættu meðal ungmenna.11 Dönsk rannsókn leiddi í ljós að burður þungra hluta, of mikið andlegt álag og skortur á stuðningi frá stjórnanda voru þættir sem tvöfölduðu líkur á að unglingar slösuðust í vinnunni.8 Þá sýndi rannsókn meðal norrænna ungmenna sem framkvæmd var í lok síðustu aldar að íslensk ungmenni með reynslu af vinnu lentu hlutfallslega ekki í fleiri vinnuslysum en norrænir jafnaldrar þeirra. Hins vegar ollu vinnuslys íslensku ungmennanna fremur vinnutapi en gerðist annars staðar á Norðurlöndunum.2

Lög sem kveða á um lágmarksaldur við vinnu og um vinnuvernd ungmenna sem hafa náð tilskildum lágmarksaldri voru sett í flestum Evrópulöndum fyrir lok 19. aldar. Þá hafa verið ákvæði um lágmarksaldur við vinnu og verndun ungmenna í sáttmálum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) frá árinu 1919.12Það var hins vegar ekki fyrr en íslensk lög voru aðlöguð evrópskri reglugerð í lok 9. áratugar síðustu aldar að íslensk löggjöf um vinnu aldurshópsins varð sambærileg því sem gerðist í nágrannalöndunum.13Rannsóknir sýna engu að síður að vinna ungmenna á sér oft stað utan við lög og reglur.2,14,15 Bandarískar rannsóknir benda einnig til að öryggisþjálfun ungmenna á vinnustað sé ábótavant.15, 16 Þá sýna rannsóknir að ungir starfsmenn telja oft að staða sín á vinnustaðnum leyfi ekki að þau láti í ljós áhyggjur af, eða vitneskju um, að öryggi þeirra sé ábótavant.17-20

Hérlendis er upplýsingar um vinnuslys að finna í tveimur opinberum skrám, í slysaskrá Vinnueftirlitsins og í Slysaskrá Íslands sem Embætti landlæknis hefur umsjón með.21,22Samkvæmt 79. gr. íslenskra vinnuverndarlaga ber að tilkynna Vinnueftirlitinu ef starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga vegna slyss á vinnustað og eru þau slys skráð í slysaskrá stofnunarinnar.23Síðastliðinn áratug, eða frá 2004 til 2013, voru að meðaltali 84 slys meðal einstaklinga 18 ára og yngri skráð í slysaskrá Vinnueftirlitsins á ári. Skráin sýnir að á þessu 10 ára tímabili orsakaðist meirihluti slysanna af höggi (23%), einhverju sem klemmir (19%) og hvössum/beittum hlut (17%). Útvortis blæðing (25%), tognun/liðhlaup (22%) og beinbrot (16%) voru algengustu áverkar sem slysin ollu. Þá má lesa úr skránni að á þessu 10 ára tímabili hættu 29 (3,5%) þeirra sem slösuðust starfi vegna þess að þeir voru óvinnufærir í lengri eða skemmri tíma eftir slysið og að tveir létu lífið vegna vinnuslysa.21

Vinnueftirlitið og fjöldi annarra aðila skrá inn slys í Slysaskrá Íslands og eru því í henni fleiri vinnuslys en í slysaskrá Vinnueftirlitsins.21, 22Árið 2012 voru til að mynda skráð 82 vinnuslys einstaklinga 18 ára og yngri hjá Vinnuefirlitinu21 en 427 vinnuslys einstaklinga á aldrinum 15-19 ára í Slysaskrá Íslands. Samkvæmt Slysaskrá Íslands voru vinnuslys fjórði algengasti slysaflokkur aldurshópsins (12,2%) það ár og komu næst á eftir heima- og frítímaslysum (35,1%), íþróttaslysum (28,3%) og umferðarslysum (14,0%). Fleiri vinnuslys meðal ungmenna voru skráð í Slysaskrá Íslands á árunum fyrir efnahagshrunið 2008. Þannig voru 602 vinnuslys 15-19 ára einstaklinga skráð árið 2007 og voru þau 17,1% allra skráðra slysa aldurshópsins það ár. Eins og árið 2012 voru vinnuslysin fjórði algengasti slysaflokkurinn.22

Í Bandaríkjunum og í Bretlandi hafa slysaskrár verið gagnrýndar fyrir að vanskrá vinnuslys ungmenna.4, 24Vanskráningin er meðal annars rakin til þess að í slysaskrár fara aðeins slys sem valda vinnutapi en vegna þess hve vinna ungmenna er óreglubundin missir ungmennið ekki alltaf úr vinnu þrátt fyrir slysið. Sú gagnrýni gæti átt við slysaskrá Vinnueftirlitsins en á síður við um Slysaskrá Íslands. Spurningakannanir þar sem ungmennin sjálf eru spurð út í vinnuslys (self-reported surveys) hafa þann kost umfram slysaskrár að þær gefa tækifæri til annars konar upplýsingasöfnunar um slysin. Meðal annars geta þær gefið upplýsingar um minniháttar slys sem ekki komast á blað hjá slysaskrám.4,8,25Gallinn er hins vegar sá að ungmennið þarf að hugsa aftur í tímann en minnið getur í einhverjum tilfellum brugðist. Fáar rannsóknir á vinnuslysum ungmenna þar sem notast er við spurningakannanir hafa verið gerðar í Evrópu, þar með talið á Íslandi, en fleiri í Bandaríkjunum og Kanada.

Í þessari grein er fjallað um niðurstöður rannsóknar á vinnuslysum meðal 13-17 ára ungmenna á Íslandi sem byggir á spurningakönnun sem ungmennin svöruðu sjálf. Markmiðið með rannsókninni er þríþætt. Í fyrsta lagi að athuga hversu hátt hlutfall ungmenna hefur slasast í vinnu, að meta hversu alvarleg slysin eru og að skoða hvernig slysin og alvarleiki þeirra dreifist eftir aldri og kyni. Í öðru lagi að skoða helstu áverka sem vinnuslysin valda og hverjir eru slysavaldar. Í þriðja lagi verður skoðað hverjir eru alvarlegustu áverkarnir og orsakir þeirra.

Sjá spurningakönnun.

Efniviður og aðferð

Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn þar sem ýmsar hliðar launaðrar vinnu íslenskra ungmenna eru skoðaðar.1 Rannsóknin beindist að þeim hópi ungmenna sem íslensk vinnuverndarlög fjalla um og leyfir að taki þátt í launaðri vinnu í einhverjum mæli. Meginregla laganna er að ekki megi ráða börn á skólaskyldualdri til vinnu en þó með þeirri undantekningu að þau mega vinna létt störf frá 13 ára aldri. Að auki eru vinnuaðstæður þess hóps sem lokið hefur skólaskyldu en hefur ekki náð 18 ára aldri háðar strangari skilyrðum en vinnuaðstæður fullorðinna.23 Í rannsókninni var vinna skilgreind sem öll vinna sem laun eru þegin fyrir, óháð því hvar hún er stunduð. Launuð vinna í heimahúsum fellur því undir rannsóknina, þar með talin barnapössun. Þýði rannsóknarinnar var öll 13-17 ára ungmenni á Íslandi. Í byrjun árs 2008 var upplýsingabréf með beiðni um þátttöku sent til forráðamanna 2000 ungmenna úrtaks, valið tilviljunarkennt úr Þjóðskrá. Spurt var um sumarvinnu árið 2007 og vinnu með skóla veturinn 2007-2008. Forráðamenn sem samþykktu þátttöku barna sinna voru beðnir að afhenda ungmenninu umslag með upplýsingabréfi ætlað því og lykilorði að rafrænum spurningalista. Þannig var ekki einungs forráðamanni heldur einnig ungmenninu sjálfu veitt tækifæri til að samþykkja þátttöku í rannsókninni. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sá um framkvæmdina. Samtals svöruðu 952 ungmenni könnuninni og var svarhlutfallið því 48,4%. Þátttaka var ítrekuð með símhringingum og tölvupóstum. Kynjahlutfall þeirra sem svöruðu var 55,8% stúlkur og 44,2% drengir og aldurshlutfall 20,8% 13 ára, 20,6% 14 ára, 22,5% 15 ára, 18,4% 16 ára og 17,6% 17 ára.

Spurningar sem beindust að vinnuslysum ungmenna byggðu á spurningalista norrænu vinnueftirlitanna sem lagður var fyrir á Norðurlöndunum árið 1998.2 Svarendur sem merktu við að þeir hefðu einhverja reynslu af launaðri vinnu voru spurðir í lokuðum spurningum hvort þeir hefðu einhvern tímann orðið fyrir vinnuslysi og hversu lengi þeir hefðu verið frá vinnu vegna slyssins. Þá voru ungmennin beðin um að lýsa í opinni spurningu hvernig slysið vildi til og hvernig áverka þau hlutu (ef einhverja). Flokkun slysavalda og áverka byggir því á skilningi svarendanna sjálfra á þessum þáttum en ekki á fyrirfram gefinni flokkun rannsakenda.26 Ef svarandi hafði orðið fyrir fleiri en einu vinnuslysi var hann beðinn um að gefa upplýsingar um síðasta slys. Áverkar voru settir í 11 flokka (sjá töflu III) og slysavaldar í 7 flokka (sjá töflu IV). Í 24,4% tilvika voru svörin um áverkann það óljós að ekki var hægt að setja þau í ákveðinn flokk og í 18,6% tilvika gilti það sama um slysavaldinn. Kí-kvaðrat próf var notað til að reikna tölfræðilega marktækni. Prófið metur hvort marktækur munur er á milli mismunandi hópa í tíðnitöflum.26 Miðað var við 95% vikmörk. Tölfræðigreiningin var unnin í SPSS tölfæðiforritinu.

Rannsóknin var tilkynnt til Persónuverndar og samþykkt af Siðanefnd Félagsvísindadeildar Háskóla Íslands þann 18. október 2007. Vísindasiðanefnd taldi rannsóknina ekki heyra undir sitt verksvið.

Niðurstöður

Nær allir sem svöruðu spurningalistanum voru í skóla, eða 98%, og 90% svarenda höfðu reynslu af launaðri vinnu. Samtals voru 84% í launuðu starfi sumarið 2007 og 49% í launaðri vinnu með skóla veturinn 2007-2008. Atvinnuþátttakan jókst marktækt með hækkandi aldri, bæði hvað varðar sumarvinnu (úr 46% meðal 13 ára í 98% meðal 17 ára) og vinnu með skóla (úr 15% meðal 13 ára í 71% meðal 17 ára). Marktækt fleiri stelpur (56%) en strákar (40%) unnu með skóla. Starf í vinnuskóla var algengasta sumarstarfið (39%) en verslunarstörf algengasta starfið með skóla (53%). Að meðaltali unnu ungmennin í 33 klukkustundir á viku yfir sumartímann og í 10 klukkustundir á viku með skóla yfir vetrartímann. Af þeim sem höfðu orðið fyrir vinnuslysi sögðu tæplega þrír fjórðu (73%) að slysið hefði átt sér stað á árinu 2007 en ríflega fjórðungur (27%) að slysið hafi orðið fyrir þann tíma.

Tafla I sýnir að rúmlega fimmtungur (21,3%) ungmennanna hefur orðið fyrir vinnuslysi, þar af 11,9% einu sinni og 9,5% tvisvar eða oftar. Taflan sýnir marktækan mun eftir aldri. Samtals hafa 14,3% 13 ára ungmenna orðið fyrir vinnuslysi en hlutfallið er komið í 30,7% við 17 ára aldur. Þá hafa 5,4% yngsta aldurshópsins orðið fyrir slysi oftar en einu sinni, samanborið við 17% elsta aldurshópsins. Tafla I sýnir einnig marktækan kynjamun þar sem fleiri strákar (24,1%) en stelpur (19,2%) hafa slasast við vinnu. Strákarnir (12,8%) eru einnig líklegri en stelpurnar (6,9%) til að hafa slasast oftar en einu sinni.

Tafla II sýnir að 29,6% ungmenna sem höfðu slasast í vinnu voru frá vinnu í viku eða skemur vegna vinnuslyss en 5,9% í meira en viku. Að vera frá vinnu í meira en viku er hér metið sem vísbending um að slysið hafi verið alvarlegt. Taflan sýnir hvorki marktækan aldurs- né kynjamun hvað varðar hvort, og þá hve lengi, ungmennin voru frá vinnu vegna slyss.

Tafla III sýnir algengustu áverkana. Skurður (25,6%) er langalgengasti áverkinn, tognun (12,2%) sá næstalgengasti og brunasár (9,6%) sá þriðji algengasti. Engir þessara áverka leiddu til þess að viðkomandi væri lengur en viku frá vinnu. Bakáverkar (8,3%) og beinbrot (5,1%) voru þeir áverkar sem urðu þess oftast valdandi að viðkomandi var óvinnufær í meira en eina viku.

Eins og fram kemur í töflu IV eru orsakavaldar 41% vinnuslysanna eitthvað sem verður í vegi starfsmannsins, beitt áhald, heitt áhald/heitur vökvi eða fall þungs hlutar. Slys vegna falls þungs hlutar, vegna þess að þungum hlutum er lyft og/eða hann borinn og vegna húsdýrs/gæludýrs eru þættir sem á hinn bóginn valda meira en viku fjarveru frá vinnu.

Tafla V sýnir að þeir áverkar sem leiddu helst til langrar fjarveru frá vinnu, það er bakáverkar og beinbrot, hlutust helst af því þegar ungmennið lyfti eða bar þungan hlut, rann í hálku eða á sleipu gólfi eða vegna falls þungs hlutar.

Umræður

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að við 18 ára aldur hefur tæplega þriðjungur ungmenna hér á landi orðið fyrir að minnsta kosti einu vinnuslysi og að 6% slysa 13-17 ára ungmenna leiða til meira en einnar viku vinnutaps. Hærra hlutfall eldri ungmenna hefur orðið fyrir vinnuslysi en þeirra sem yngri eru og strákar eru líklegi til að hafa lent í vinnuslysi en stelpur. Hvorki aldurs- né kynjamunur er hins vegar til staðar hvað varðar lengd fjarveru vegna slyss. Erfitt er að fullyrða hvort algengara sé að íslensk ungmenni lendi í vinnuslysi og/eða þau lendi í alvarlegri slysum heldur en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum vegna þess að ólík rannsóknarsnið torvelda samanburð. Rannsókn Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur2frá árinu 1998 sem náði til allra Norðurlandanna sýndi ekki hærra hlutfall vinnuslysa meðal íslenskra ungmenna en hærra hlutfall alvarlegra slysa. Niðurstöðurnar um aldurs- og kynjamuninn hníga í sömu átt og erlendar rannsóknarniðurstöður en vert er þó að benda á að samkvæmt þeim eru bæði aldur og kyn víkjandi þættir í vinnuslysaáhættu ungmenna. Það eru fyrst og fremst þættir tengdir vinnustaðnum sem spá fyrir um áhættuna.10Þar sem ekki var spurt um vinnuaðstæður í þessari rannsókn er ekki hægt að leggja mat á það hér.

Samkvæmt Hagstofu Íslands bjuggu 23.542 einstaklingar á aldrinum 13-17 ára hérlendis í lok árs 2007.27Séu niðurstöður rannsóknarinnar heimfærðar uppá þjóðina má því gera ráð fyrir að um 3300 þessara einstaklinga hafi orðið fyrir vinnuslysi það ár. Sama ár voru 602 vinnuslys 15-19 ára einstaklinga skráð í Slysaskrá Íslands22 og 90 slys einstaklinga 18 ára og yngri í Vinnuslysaskrá.21Með öðrum orðum bendir rannsóknin til þess að mörg minniháttar vinnuslys ungmenna séu ekki skráð í opinberar skrár. Niðurstöðurnar sýna að eitthvað sem er í vegi fyrir hinum unga starfmanni, beitt áhald, heitt áhald eða vökvi og fall þungs hlutar eru algengustu slysavaldarnir og valda meira en fjórum af hverjum tíu slysanna. Skurður, tognun og brunasár valda hins vegar oftast fjarveru. Það eru þó ekki þessir áverkar sem leiða til lengstrar fjarveru frá vinnu heldur eru það bakáverkar og beinbrot. Það sem helst veldur svo alvarlegum áverkum er að ungi starfsmaðurinn lyftir eða ber þungan hlut, þungur hlutur fellur á hann eða að hann rennur á sleipu undirlagi. Bakáverkar og beinbrot eru ekki eingöngu alvarlegir áverkar í þeim skilingi að þeir valdi langri fjarveru frá vinnu heldur er einnig hætta á að slíkir áverkar valdi ungum starfsmönnum varanlegu heilsutjóni.28

Rannsóknin vekur upp spurningar um hvort fyrirbyggjandi aðgerðum og öryggisþjálfun ungmenna á vinnustað sé ábótavant. Samkvæmt vinnuverndarlögum ber atvinnurekendum skylda til að sjá til þess að allir starfsmenn fái nauðsynlega öryggisþjálfun (14. gr.). Ekki var spurt um öryggisþjálfun í þessari rannsókn. Rannsóknir frá Bandaríkjum sýna að þrátt fyrir að nokkur hluti þarlendra ungmenna fái öryggisþjálfun sé hún oft ófullnægjandi.15,29Þjálfunin beinist ekki að þeim þáttum sem helst ógna öryggi þeirra,15,29ekki er tekið tillit til þess að líkamlegur og andlegur þroski ungmenna er ekki sá sami og fullorðinna og ekki eru notaðar þjálfunaraðferðir sem henta ungmennum.16Vert er að vekja athygli á að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn vinnuslysum geta náð út fyrir vinnustaðinn. Í nýlegri norrrænni skýrslu um vinnuöryggi ungmenna er því haldið fram að skólakerfið hafi í því samhengi mikilvægu hlutverki að gegna og bent er á að evrópskar vinnueftirlitsstofnanir hafi sett mikið af kennsluefni og upplýsingum á netið.30 Það á einnig við um íslenska Vinnueftirlitið, en talsvert magn upplýsinga um vinnuvernd barna og ungmenna er að finna á heimasíðu þess. Fleira en fyrirbyggjandi aðgerðir innan og utan vinnustaðarins gæti þó þurft að koma til, eigi að tryggja vinnuöryggi barna og ungmenna. Erlendar rannsóknir sýna að ungt starfsfólk telur stöðu sína oft veika og að það hindri þau í að koma áhyggjum sínum og vitneskju um slysahættur og slæmar vinnaðstæður á framfæri við yfirmenn.17-20 Íslensk ungmenni telja einnig að staða þeirra á vinnumarkaði sé veik.1Auk þess að skoða öryggisþjálfun, þurfa framtíðarrannsóknir því að beinast að því hvort staða þeirra á vinnumarkaði ógni í reynd öryggi þeirra og ef svo er, hvernig hægt væri að bæta þar úr.

Rannsókn þessi hefur þær takmarkanir að lágt svarhlutfall dregur úr alhæfingargildi niðurstaðnanna. Þá verður að taka niðurstöðurnar um slysavalda og um tegund áverka með þeim fyrirvara að þær voru unnar upp úr opinni spurningu og að óljós svör voru gefin um annan hvorn þáttinn í um og yfir fimmtungi tilfella. Einnig var spurt aftur í tímann og minni svarenda gæti því í einhverjum tilfellum hafa brugðist. Vert er að benda á að rannsóknin var gerð þegar mikil þensla var í íslensku efnahagslífi og aðgengi ungmenna að vinnu var gott. Það auðveldaði þeim að skipta um vinnu, til dæmis ef þeim fannst aðbúnaður slæmur.1 Það er hins vegar óljóst hvort staða barna og ungmenna í atvinnulífinu hafi eflst eða veikst í kjölfar efnahagsþrenginganna 2008. Því er brýnt að endurtaka þessa rannsókn og gera frekari rannsóknir á vinnuslysum aldurshópsins.

Heimildir

 1. Einarsdóttir M. Paid Work of Children and Teenagers in Iceland: Participation and protection. Óprentuð doktorsritgerð, Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, 2014.
 2. Rafnsdóttir GL. Barn- og ungdomsarbete i Norden. Nord 1999: 23; 1999.
 3. Dunn KA, Runyan CW, Cohen LR, Schulman MD. Teens at work: a statewide study of jobs, hazards, and injuries. J Adolesc Health 1998; 22: 19-25.
 4. Hobbs S, Anderson S, McKechnie J. Exploring risks faced by child workers in Britain. Int J Sociology Soc Policy 2009; 29: 176-85.
 5. Simoyi P, Frederick L, Niezen C. Teenagers' experience with occupational health and safety issues in West Virginia. Hum Ecolog Risk Assess 2001; 7: 1945.
 6. Zierold KM, Anderson H. The relationship between work premits, injury, and safety training among working teenagers. Am J Ind Med 2006; 49: 360-6.
 7. Frone MR. Predictors of work injuries among employed adolescents. J Appl Psychol 1998; 83: 565-76.
 8. Rasmussen K, Hansen CD, Nielsen KJ, Andersen JH. Incidence of work injuries amongst Danish adolescents and their association with work environment factors. Am J Ind Med 2011; 54: 143-52.
 9. Salminen S. Have young workers more injuries than older ones? An international literature review. J Safety Res 2004; 35: 513-21.
 10. Breslin FC, Day D, Tompa E, Irvin E, Bhattacharyya S, Clarke J, et al. Non-agricultural work injuries among youth: A systematic review. Am J Prev Med 2007; 32: 151-62.
 11. Evensen CT, Schulman MD, Runyan CW, Zakocs RC, Dunn KA. The downside of adolescent employment: hazards and injuries among working teens in North Carolina. J Adolesc 2000; 23: 545-60.
 12. Dahlén M. The Negotible Child: The ILO Child Labour Campain 1919-1973. Uppsala Universitet, Uppsölum 2007.
 13. Eydal GB, Rafnsdóttir GL, Einarsdóttir M. Working children in Iceland: Policy and the labour market. Barn 2009; 3-4: 187-203.
 14. McKechnie J, Hobbs S. Child labour: The view from the North. Childhood: A Global J Child Res 1999; 6: 89-100.
 15. Runyan CW, Schulman M, Dal Santo J, Bowling JM, Agans R, Ta M. Work-related hazards and workplace safety of US adolescents employed in the retail and service sectors. Pediatrics 2007; 119: 526-34.
 16. Zierold K, M., Welsh EC, McGeeney TJ. Attitudes of Teenagers Towards Workplace Safety Training. J Comm Health 2012; 37: 1289-95.
 17. Tucker S, Turner N. Waiting for safety: Responses by young Canadian workers to unsafe work. J Safety Res 2013; 45: 103-10.
 18. Breslin FC, Polzer J, MacEachen E, Morrongiello B, Shannon H. Workplace injury or ‘part of the job'?: Towards a gendered understanding of injuries and complaints among young workers. Soc Sci Med 2007; 64:7 82-93.
 19. Zakocs RC, Runyan CW, Schulman MD, Dunn KA, Evensen CT. Improving safety for teens working in the retail trade sector: Opportunities and obstacles. Am J Ind Med 1998; 34: 342-50.
 20. McDonald P, Bailey J, Price R, Pini B. School-aged workers: Industrial citizens in waiting? J Soc 2012.
 21. Vinnueftirlit ríkisins. Slysaskrá Vinnueftirlitsins. slysatol-fraedi.ver.is/ - ágúst 2014.
 22. Landlæknisembættið. Slysaskrá íslands. landlaeknir.is/tolfraedi-og-rannsoknir/tolfraedi/heilsa-og-lidan/slys/- október 2013.
 23. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum [Vinnuverndarlög], nr. 46/1980. Með áorðnum breytingum 15/1986, 61/1990, 7/1996, 52/1997, 83/199, 17/2003, 68/2003, 90/2004, 138/2005, 88/2008.
 24. Runyan CW, Zakocs RC. Epidemilogy and prevention of injuries among adolescent workers in United States. Ann Rev Publ Health 2000; 21: 247.
 25. McKechnie J, Hobbs S, Lindsay S, Lynch M. Working children: The health and safety issue. Child Soc 1998; 12: 38-47.
 26. Neuman WL. Social Research Methods: Qualitative and Quantitative approaches (Sixth Edition). Lasser J, editor. Pearson, Allyn and Bacon, Boston 2006.
 27. Hagstofa Íslands. Mannfjöldi eftir kyni og aldri 1841-2013: hagstofa.is/Hagtolur/Mannfjoldi/Yfirlit - mars 2014.
 28. Hestbaek L, Leboeuf-Yde C, Kyvik KO, Manniche C. The course of low back pain from adolescence to adulthood: Eight-year follow-up of 9600 twins. Spine 2006; 31: 468-72.
 29. Runyan CW, Bowling JM, Schulman M, Gallagher SS. Potential for violence against teenage retail workers in the United States. J Adolesc Health 2005; 36: 267.e1-.e5.
 30. Kines P, Framke E, Salmi A, Bengtsen E. Young workers' occupational safety and health risks in the Nordic countries. Nordic Council of Ministers, TemaNord Copenhagen: 2013: 5692013.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica