09. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Í Skálanesi 1981

Vegabætur á veginum til Vestfjarða hafa verið til umræðu að undanförnu og er tekist á um vegagerð um Teigsskóg í Þorskafirði. Því rifjaðist upp fyrir mér löngu liðinn atburður úr einni lítilli læknisævi.

Sunnudaginn 15. mars 1981 fékk ég símtal frá Skálanesi vegna veikinda Ingibjargar Jónsdóttur, konu Jóns Einars Jónssonar bónda á Skálanesi. Margir sem fóru um hlaðið á Skálanesi á leið sinni vestur á firði minnast Jóns. Hann rak þar útibú Kaupfélags Króksfjarðar, seldi bensín og olíur en einkum og sér í lagi óbarinn vestfirskan harðfisk og  vísaði viðskiptavinunum á klubbu og stein handan vegar.


Söguslóðir Sigurbjörns líta svona út á korti Landmælinga Íslands af Gufudal.
Þetta er í grunninn kort frá árinu 1911 sem Landmælingadeild danska herforingjaráðsins (Generalstabens topografiske Afdeling) mældi út og teiknaði. Einsog fleira gott má finna þetta inn á timarit.is


Ég var læknir í Búðardal á þessum tíma og náði svæði heilsugæslustöðvarinnar í Búðardal að hreppamörkum Gufudalssveitar og Múlahrepps á Klettshálsi. Var það um 150 km vestan við Búðardal. Þá var enn búið á mörgum bæjum í Gufudalssveit, meðal annars á þremur bæjum í Kollafirði. Liðlega 120 km voru frá Búðardal á Skálanes. Ég mat vandann þannig að sinna þyrfti sjúklingnum án tafar.

Þetta var snjóþungur vetur. Töluvert hafði snjóað um nóttina og dregið og erfið færð um allar sveitir. Svínadalur var alveg ófær, Gilsfjörður þokkalegur en hálsarnir í Austur-Barðastrandarsýslu, Hjallaháls og Ódrjúgsháls, ófærir. Veðrið var annars gott, bjart og bloti í snjónum. Var úr vöndu að ráða. Annaðhvort þurfti að fá alla leiðina opnaða með dýrum tækjum Vegagerðarinnar eða fá þyrlu til að flytja mig á staðinn, sem var ekki eins sjálfsagt mál í þá daga og nú. Ég hafði samband við Þorgeir Samúelsson frá Höllustöðum en hann var hefilsstjóri Vegagerðarinnar á Reykhólum (nú verksmiðjustjóri í Þörungaverksmiðjunni). Þorgeir var ódeigur til hjálpar ef því var að skipta, en nú sá hann mörg tormerki á mokstri, hann yrði heilsugæslunni óbærilega dýr. En Þorgeir var ekki ráðalaus; ég skyldi koma mér vestur og síðan myndum við hittast á Stað á Reykjanesi og freista þess að fara yfir á Skálanes á snjósleða. Firðirnir væru á ís og þetta yrði sennilega skásti kosturinn.

Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar og bjó mig út þegar í stað með nauðsynleg gögn og hjartalínuritstæki sem hafa mátti í tösku um öxl. Ég var venjulega á ferðum sem þessum í ullarfötum, lopapeysu, skíðasmekkbuxum og VÍR-gæruúlpu, sem ég á enn. Slíkur fatnaður er kallaður aumingjaúlpa á mínu heimili en telst eftirsótt munaðarvara af menntaskólafólki. Þá hafði ég jafnan litla lyfjatösku og aukaföt og nesti ef á þyrfti að halda. Ferðin sóttist vel til að byrja með inn í Hvammssveit en þá varð ég að taka stefnuna út á Fellströnd og fara fyrir strandir sem kallað er.    

Færðin þyngdist stöðugt og í móunum fyrir neðan Rauðbarðaholt þurfti ég að járna Volvoinn minn, sem oft kom fyrir. Ég naut þess þó að einhver var á undan mér og höfðu skaflarnir víða verið handmokaðir. Brátt ók ég fram á Björn Stefán Guðmundsson kennara frá Reynikeldu á Skarðsströnd, þar sem hann var einn á ferð með hestakerru. Ætlaði að ná í hross sem hann átti vestur í Reynikeldu. Þótti mér hann heldur velja daginn til þess, en Birni er ekki fisjað saman. Eftir þetta var ferðin tíðindalaus. Skarðsströndin er alla jafna snjólétt og lítil vandræði nema þar sem vegarstæðið er slæmt og skafrenningurinn hleður í.

Ég kom að Stað einhvern tímann upp úr miðjum degi. Veðrið var enn gott en þó heldur tekið að þykkna í lofti og það var komið frost. Þeir tóku á móti mér Þorgeir og kunningi minn Eiríkur Snæbjörnsson, bóndi á Stað, sem ætlaði að fylgja okkur á dráttarvél til strandar. Hann var auðvitað öllum hnútum kunnugur. Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður voru allir ísi lagðir og engin hætta nema ef til vill uppi við land. Við Þorgeir settumst nú á sleðann, ég sat fyrir aftan og brá töskunni með hjartaritinu á bakið en hafði læknistöskuna og aukabúnaðinn í fanginu. Þótti mér það ágæt vist.

Við lögðum á ísinn til norðurs með stefnu á Hallsteinsnes til að hafa sem traustastan ís og rétt sunnan nessins sveigði Þorgeir til vesturs í stefnu á Grónes og fórum við þar rétt undan landi. Þá tók hann stefnu á Hofsstaði sem er „hæg smájörð“ vestan til í Gufufirði. Þar tókum við land neðan við litla húsið og fórum upp á túnin og til suðurs og upp í hlíðina, þannig að við náðum þjóðveginum á Melanesi. Þar var eitt sinn var sjúkraflugvöllur. Leiðin lá síðan suður um Hraunin þar til komið var í Skálanesbæina.

Þegar ég glugga í þessa bráðum 30 ára gömlu sjúkraskrá sé ég að ýmislegt hefur lagst þungt á ungan lækni við þær aðstæður sem þá voru og margt hefur breyst hvað varðar tækjakost og samgöngur. Undir úrlausn færi ég:

„Þar sem veður er þungbúið og ekki fært á staðinn til að ná í hana nema í þyrlu er tekið það ráð að hafa hana heima.“  

„Ekki eru allt framfarir sem svo er kallað,“ sagði séra Matthías, sem fæddur var og alinn upp í Skógum í Þorskafirði. Sjálfsagt er margt til í því en þegar litið er yfir þær vegabætur sem orðið hafa á þessum slóðum síðustu þrjá áratugi, verða þær tæplega kallaðar annað en framfarir.

Þó er enn margt ógert.Þetta vefsvæði byggir á Eplica