09. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Verði bæði lýsi og ljós!

En sá er háttur á að gefa börnum lýsi svo þau fái ekki innfallna maga, verði afskræmd af kröm og þurfi að fara í ljós. Lýsishellandi hjúkrunarkonur geta birst þegar minnst varir. Klukkulausir krakkar vita ekki hvenær á þeim er von. Hann horfir út um gluggann án þess að sjá nokkuð nema sælan blikflöt skynjunarinnar. En hann er alltaf á ómeðvituðum verði gagnvart lýsinu. Stofurnar hér í norðurálmunni eru sér og gengið þangað frá hjúkrunarstofum, tannlæknastofu og ljósabaðstofu á ská yfir portið. Hann vaknar við vondan draum og sér lýsiskvendin storma yfir portið með könnurnar, þær fjölmenna, þetta er heill lýsishellandi her í hjúkkubúningi á leið að hella klígju vægðarlaust í hin vondu börn. Þetta eru meintar hjúkrunarkonur sem styðja hvor aðra í erfiðu starfi. Þar kom inn önnur og hélt á lýsiskönnu. Hún kemur og þú átt að rétta upp hökuna og gapa á meðan hún hellir í þig þessu ógeði. Þetta er niðurlæging hinna varnarlausu. Lýsisbrunnurinn er svo vemmilegur að maður afber ekki þá kvöl að sjá lýsiskönnurnar sem þær dýfa daglega í brunninn, hvað þá að fá þetta ógeð ofan í sitt ofurnæma smáfuglsgin.

Þórunn Valdimarsdóttir, Megas. Sól í Norðurmýri.
Píslarsaga úr Austurbæ
. Forlagið, Reykjavík 1990: 127.


Eftir er þá að ljúka síðasta kafla þessarar frásagnar með því að lýsa rómantísku aðferðinni, hvernig hvallýsið er látið á ámurnar og því komið fyrir í lestinni þar sem stórhvelið hverfur aftur í djúpið og rennur áfram undir yfirborðinu eins og að fornu, en því miður ekki til þess að koma upp aftur að blása.

Meðan lýsið enn er volgt er það, líkt og heitur púnsdrykkur, sett á svonefndar sextunna ámur og þótt skipið ef til vill taki dýfur og velti er þessum stóru ámum sveiflað, velt og við þær bisað og getur þá vel svo farið að þær renni ógnandi yfir sleipt dekkið eins og skriðufall uns tökum er á þeim náð og þær stöðvaðar á flóttanum. Jafnframt er barið með öllum sleggjum sem við verður komið á gjarðirnar því sérhver háseti er á þessari stundu fæddur beykir.

Þegar loks er lokið að fylla á síðasta pelann og lýsið allt kólnað er tekið ofan af stóru lúkuopunum, iður skipsins opnuð og ámurnar látnar síga niður að síðasta hvílustað þeirra á hafinu. Þegar þessu er lokið er lúkuhlerunum komið aftur á sinn stað og allt er loftþétt lokað eins og skápur sem búið er að múra upp í.

Hermann Melville. Mobý Dick – eða hvalurinn.
Þýðing: Júlíus Havsteen/Ísak Harðarson. JPV útgáfa, Reykjavík 2005: 484.
Myndin á kápu blaðsins var tekin í Austurbæjarskólanum í  nóvember árið 1953, ljósmyndari: Sigurhans E. Vignir. Það tíðkaðist hérlendis að nemendum væri gefið lýsi í skólanum á árunum uppúr 1930 og fram undir 1970. Mikilvægt var að „uppáhellingin“ tækist vel enda var fátt verra en að fá lýsi í skólafötin! Samspil mataræðis og heilsufars er ótvírætt en margslungið og deildar meiningar hafa löngum verið um það hvað er heilsunni hollast. Læknar byrjuðu snemma að gagnrýna meðferð matvæla og mataræði landsmanna enda sáu þeir þess merki að víða var pottur brotinn.

Þegar konur voru kosnar í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908 hófu þær að beita sér fyrir bættum aðbúnaði barna og fengu því einnig framgengt að ráðinn var læknir við barnaskólann, Guðmundur Hannesson (1866-1946). Skólalæknirinn annaðist almenna heilbrigðisskoðun og benti á leiðir til úrbóta og ef foreldrar gátu ekki brugðist við var reynt að aðstoða þá sem þess þurftu. Þegar lögbundnu skólaeftirliti var komið á árið 1916 kynntust læknar heilsufari og aðbúnaði flestra barna í sínu héraði og þau kynni urðu til þess að lögð var meiri áhersla á samfélagslegar úrbætur. Landlæknir hvatti til almennrar heilbrigðisskoðunar í skólum árið 1921 en frá því ári er kunn skýrsla Steingríms Matthíassonar (1876-1948) héraðslæknis á Akureyri um heilsufar skólabarna. Hann bar saman ýmsa þætti í heilsufari barna á Akureyri og í nærliggjandi sveitum og niðurstaða hans var að sveitabörnin væru heilbrigðari og gáfaðari. „Meiri mjólk, styttri skólatími, færri kennslustundir, meira næði, minni sollur og svo það atriði, og ekki minnst, það að sveitabörnin eru fljótt vanin á að vinna og vinna þarflega vinnu sem þroskar heila, hendur og vöðva.“ Þessi skoðun féll í góðan jarðveg meðal margra Íslendinga.Úr lýsisbræðslu í Reykjavík á fyrsta áratug 20. aldar. Ljósmyndari Pétur Brynjólfsson. 
Birt með leyfi Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni.


Næringarskortur og „útmánaðasvelti“ var staðreynd meðal íslenskra skólabarna. Í Reykjavík var fátækum börnum gefinn matur í skólanum og um 1930 var farið að gefa börnum mjólk að drekka og skömmu síðar einnig lýsi. Lýsi hefur fylgt þjóðinni frá upphafi og verið notað sem ljósmeti, til matar og við ýmsum kvillum. Hvernig og með hvaða hætti menn gerðu sér grein fyrir því að lýsi væri einna heppilegast til að stuðla að heilbrigði skólabarna er ekki vitað. Þekking á vítamínum og hvaða matvæli innihalda vítamín var takmörkuð en þó töldu menn sig sjá samhengi milli skorts á ákveðinni fæðu og heilsuleysis. Menn lögðu áherslu á þjóðlega innlenda framleiðslu eins og mjólk og lýsi sem innihalda A- og D-vítamín sem vissulega var skortur á. Skorturinn á C-vítamíni var kannski öllu alvarlegri en úr honum varð ekki auðveldlega bætt nema með innflutningi matvæla, t.d. appelsína, og slíkt þótti ekki heppilegt á tímum þjóðlegs rétttrúnaðar.

Heilbrigðiseftirlit í skólum var eitt mikilvægasta framlag til heilsuverndar og síðar heilsueflingar í landinu um áratugaskeið.

Jón Ólafur ÍsbergÞetta vefsvæði byggir á Eplica