06. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Lífsmörk er viðburðarík saga – um nýja bók eftir Ara Jóhannesson

Ari er lyflæknir, með innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma sem undirgrein, og hefur starfað sem slíkur áratugum saman.
Hann var við framhaldsnám og störf í Connecticut í Bandaríkjunum frá 1976-1984, síðan yfirlæknir á Sjúkrahúsinu á Akranesi til ársins 1998 en hefur síðan starfað á Landspítalanum.


Læknir og rithöfundur: „Ég vissi að ég ætlaði að fást við hluti sem eru ríkjandi á bráðasjúkrahúsum,
það er fórnfýsi og það eru fíknir,“ segir Ari sem hér stendur sunnan undir Kjarvalsstöðum, við hlið
stjörnuhimins listaverksins
 Viðsnúningur eftir Guðjón Ketilsson. Mynd/gun

Ari Jóhannesson lyflæknir er liðtækur á fleiri sviðum en lækningum. Hann gaf út ljóðabókina Öskudagar árið 2007 og nú er hann kominn með nýja bók, Lífsmörk, lífsreynslu- og spennusögu með hetjulækni í aðalhlutverki.

Við Ari sitjum úti á verönd Kjarvalsstaða í glampandi sólskini og ætlum aðallega að spjalla um nýju bókina hans, Lífsmörk, sem gerist að hluta til á Landspítalanum. Aðalsöguhetjan er svæfinga- og gjörgæslulæknir í miklum metum, bæði meðal starfsfólks og sjúklinga. Ari fer ekki í launkofa með að sögusviðið sé honum kunnugt.

„Ég hef unnið á sjúkrahúsi nánast allan minn starfsaldur, og þekki allvel til á gjörgæsludeild, þó ég starfi þar ekki. Þetta er hins vegar ekki lykilsaga. Persónur bókarinnar eru alfarið mín hugarsmíð en auðvitað hef ég viðað þeim að mér gegnum árin. Ég vil segja að þær séu, hver um sig, samsettar úr nokkrum lifandi einstaklingum og held að það sé gjarnan þannig í skáldsögum. Ég reikna með að lesendur reyni að finna ákveðna einstaklinga í bókinni og er spenntur að vita hvað út úr þeim rannsóknum kemur. Það er reyndar búið að benda mér á nokkra sem koma til greina!“

Ari vill ekki beinlínis meina að söguefnið hafi lengi verið búið að sækja á hann. „Það sem sótti á mig var að halda áfram þar sem ljóðunum sleppti. Hluti þeirra var ortur út frá reynsluheimi læknis og ég hafði áhuga á að halda áfram með það sem viðmið en sá fljótlega að það sem mig langaði að lýsa komst ekki nægilega fyrir innan hins knappa ljóðforms. Þannig að fljótlega var kominn söguþráður og síðan persónur. En það var ekki eins og ég skrifaði inn í skapalón eða tiltekinn ramma, heldur varð söguþráðurinn að mestu til jafnhliða skrifunum.

Ég vissi að ég ætlaði að fást við hluti sem eru ríkjandi á bráðasjúkrahúsum, það er fórnfýsi og það eru fíknir, bæði vinnufíkn og annars konar fíknir og það eru lífsmörk, bæði í eiginlegri og yfirfærðri merkingu. Líka sársauki. Það er heilmikill sársauki í þessari bók en líka húmor. Ástæðan fyrir því að aðalsöguhetjan er svæfinga- og gjörgæslulæknir er einkum sú að hann er svona erkitýpa, fórnfús og alltaf nálægur á bráðasjúkrahúsi dag sem nótt og þessi heimur, sérstaklega gjörgæslunnar, hentar vel sem umgjörð utan um þá hluti sem ég nefndi.“

Bókin var í smíðum í fimm og hálft ár að sögn höfundarins. „Ég byrjaði haustið 2008 og lauk henni ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum,“ segir Ari. „Því veldur að bæði kunni ég lítið til verka og svo hafði ég ekki mikinn tíma aflögu. En ég held að þessi langi ritunartími geti verið kostur því með honum fékk sagan tíma til að þroskast.“

Læknaróman með snúningi

Sagan hefst árið 2008 og henni lýkur 2011 þannig að hún gerist samhliða hruninu og kannski vissri endurreisn líka. „Það er ákveðin speglun í sögunni sem ég get ekki sagt frá því þá er ég að ljóstra of miklu upp,“ segir Ari. Hann kveðst oft fá spurningu um hverskonar bók þetta sé en eiga erfitt með að skilgreina hana. „Ég hef sagt að þetta sé læknaróman með snúningi en þá er vægt til orða tekið. Hún er að hluta til spennusaga, blanda af þessu tvennu og fleira til. Lífsmörk er viðburðarík saga og í henni verða heilmikar sviptingar.“

Ég spyr Ara hvort honum hafi þótt vanta sögu þar sem tilfinningalegar aðstæður lækna væru í fókus.

„Ég vil ekki segja að það hafi verið upphaflegi tilgangurinn en núna þegar ég lít yfir söguna held ég að margt í henni kallist á við vaxandi umræðu í samfélaginu um heilsu lækna, ekki síst andlega heilsu.

Í síðasta tölublaði Læknablaðsins kom fram að heilsa lækna hefur verið til umræðu á fjórum fundum það sem af er þessu ári. Þar eru vaxandi blikur á lofti með hluti eins og kulnun í starfi sem virðist vera mjög útbreidd og alls ekki fara minnkandi. Þar kom fram að læknar hafa tilhneigingu til að leita sér ekki hjálpar heldur greina og meta sjálfa sig, oft með hörmulegum árangri, og eru hræddir við að sýna veikleikamerki. Þetta kemur að einhverju leyti fram í sögunni. Hún er þó ekki ádeila á Landspítalann eða eitthvað slíkt en hún hlýtur samt að bregða ljósi á kerfi sem krefst mikilla afkasta, óeðlilegs vinnutíma og heldur kannski aldrei alveg nógu vel utan um starfsfólkið. Þannig aðstæður bjóða upp á kulnun.“

Aðalsöguhetjan er afburðamaður á sínu sviði en Ari segir hetjur ekki áhugaverðar nema í þeim sé einhver brotalöm og það sé tilfellið með okkar mann. „Ég tek það þó fram að bókin er ekki bara um lækna því við sögu koma ýmsar stéttir og hún gerist ekki bara á Landspítalanum, heldur mjög víða,“ segir hann. „Þannig breytist sviðsmyndin þegar líður á söguna og staðir eins og Laugarvatn, Ölfus, Tórontó, Bos-ton, Róm og Austurlönd koma við sögu. Og fjölskylda söguhetjunnar fær eðlilega mikið rúm.“


Kápuna á kiljunni hannaði Alexandra Buhl.
Forlagið gaf bókina út á dögunum. Ekta
sumarlesning fyrir lækna, heilbrigðisstarfs-
menn og aðra landsmenn.

Gerir strangar kröfur á ritvellinum

Af því sem ég er búin að lesa í bókinni tek ég eftir að Ari notar þar fjölbreytt orðalag. Er hann alinn upp við það? „Ég er alinn upp við áhuga á íslensku máli. Faðir minn, Jóhannes Arason útvarpsþulur, var hreintungumaður og ég bý auk þess að því að hafa haft góða íslenskukennara í menntaskóla.“

Ég bið Ara að segja svolítið frá fólkinu sínu.

„Pabbi var frá Ytra-Lóni á Langanesi og móðir mín, Elísabet Einarsdóttir, var frá Kárastöðum í Þingvallasveit. Ég er kvæntur Jóhönnu F. Jóhannesdóttur hjúkrunarframkvæmdastjóra á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og á fjóra stráka, tvo af fyrra hjónabandi, Jóhannes og Árna Gaut og tvo með Jóhönnu, Egil og Teit,“ svarar hann og tekur fram að eldri drengirnir séu orðnir fjölskyldumenn og þeir yngri séu í föðurhúsum. En eru rithöfundar og skáld í ættinni?

„Ekki nálægt mér. Ég er reyndar, að því er talið er, 6. ættliður frá séra Jóni Þorlákssyni á Bægisá í móðurætt. Ætt föður míns kvíslast um Þingeyjarsýslur og þar eru auðvitað allir skáld!“

Inntur eftir öðrum áhugamálum en ævistarfinu og skriftunum svarar Ari: „Ég hef lagt stund á hestamennsku í nokkuð langan tíma en síðasta árið hefur hún orðið að þoka fyrir skrifunum. En ég er svolítið farinn að ríða út aftur þessa dagana.“

Dreymir hann um að verða einhverntíma bara rithöfundur? „Ég er nú kannski að brenna inni með það vegna aldurs. En ég held örugglega áfram að stunda skapandi skrif. Það hefur reyndar hentað mér ágætlega að sinna þeim í hjáverkum. Þar hef ég haft þá stefnu að líta á mig sem atvinnurithöfund í hlutastarfi, frekar en bara tómstundarithöfund. Þar með geri ég strangar kröfur til mín á ritvellinum líka, sem er kannski ein af ástæðum þess að sagan Lífsmörk var fimm ár í smíðum.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica