04. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
„Verðum að halda í fólkið og þekkinguna“
- segir Helgi Kjartan Sigurðsson formaður Skurðlæknafélags Íslands sem heldur vísindaþing 4.-5. apríl í samvinnu við félög svæfinga-, gjörgæslu-, fæðingar- og kvensjúkdómalækna
Í sextánda sinn halda Skurðlæknafélag Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélag Íslands vísindaþing að vorlagi og stendur það yfir í Hörpu dagana 4. og 5. apríl næstkomandi. Í ár eins og oft áður tekur Félag íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna þátt í ráðstefnunni.
Það hlýtur að teljast merkilegt að í ekki stærri félögum sé hægt að halda úti árlegu vísindaþingi og í ár bárust á fimmta tug ágripa. Það sýnir að talsverð gróska er í vísindastarfi á þessu sviði lækninga hér á landi. Enda var Helgi Kjartan Sigurðsson formaður Skurðlæknafélagsins ánægður með þann árangur.
„Auk erinda þar sem vísindamenn kynna niðurstöður úr rannsóknum sínum eru haldin sérstök málþing að morgni 4. og 5. apríl þar sem flutt verða yfirlitserindi. Oft hafa það verið erlendir fyrirlesarar sem við höfum boðið eins og verður á dagskrá 5. apríl, en að þessu sinni verða eingöngu íslenskir fyrirlesarar á málþingi um aðgerðarþjark þann 4. apríl og það erum við afar ánægð með,“ sagði Helgi Kjartan.
Helgi Kjartan formaður skurðlæknafélagsins. Mynd Védís.
Aukin sérhæfing
Skurðlæknafélag Íslands er liðlega fimmtugur félagsskapur, stofnað í mars 1957 af 36 starfandi skurðlæknum. Það hefur allan tímann verið fagfélag en árið 2006 tók það einnig að sér að verða stéttarfélag og sér um samninga um kjör skurðlækna í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Helgi Kjartan segir að vissulega hafi orðið miklar breytingar á starfi skurðlækna á þessari hálfu öld.
„Stærsta breytingin er sú að sérhæfing hefur aukist til mikilla muna. Við stofnun félagsins voru flestir stofnfélagar almennir skurðlæknar. Við sækjum framhaldsmenntun okkar til nágrannalandanna, ekki hvað síst Norðurlanda, og þar sem annars staðar hefur átt sér stað mikil sérhæfing. Sérnám í skurðlækningum hefur breyst þannig að það er verið að draga saman í almennri menntun og sameiginlegum námsþáttum en meiri áhersla lögð á sérhæfinguna sem hefst fyrr.“
Því hefur verið haldið fram að vegna fámennis sé erfitt að halda uppi eðlilegri starfsþjálfun sérhæfðra lækna hér á landi. Stangast það ekki dálítið á við þessa þróun?
„Jú, það er að sjálfsögðu mikil ögrun fyrir okkur að útvega nógu marga lækna til þess að sinna öllum þessum sérfögum, ekki síst í því róti sem hér er. Þá reynir á okkur að fá til okkar hæft fólk og halda í það góða fólk sem hér er að störfum,“ segir Helgi Kjartan.
Hár meðalaldur sérfræðilækna
Hann er þó ekki á því að skurðlækna skorti verkefni til þess að halda sér í þjálfun. „Menn verða sér úti um reynslu með því að vinna mikið, enda er alltaf nóg að gera og skortur á skurðlæknum útbreiddur. Til þess að sinna því sem þarf að gera standa menn strangar vaktir og öðlast við það mikla og góða reynslu. Það sýnir sig líka í árangri skurðlækna. Á sviði krabbameins-, kviðarhols- og hjartaskurðlækninga er hann fyllilega sambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.
Þróunin hefur líka verið sú að æ fleiri sérhæfðar skurðaðgerðir eru nú gerðar hér á landi sem áður þurfti að láta gera í útlöndum. Hjartaskurðlækningar eru skýrasta dæmið um þetta. Einnig er farið að græða nýru í sjúklinga hér á landi en aðrir líffæraflutningar eru ekki gerðir hér, enda fjöldi þeirra svo lítill. Þetta er enn ein ögrunin, að viðhalda og halda í nýja þekkingu. Velflest viljum við vera hér heima, en eftir hrun hefur verið erfitt að fá nýtt fólk til starfa. Prófessorinn okkar, Tómas Guðbjartsson, skrifaði nýlega grein í Læknablaðið þar sem hann bendir á að meðalaldur íslenskra sérfræðilækna sé orðinn mjög hár og að erfitt verði að fá nýja lækna í stað þeirra sem hætta á næstu árum.“
Hvernig er hægt að bregðast við því?
„Það þarf að gerast á ýmsum vígstöðvum. Nú eru kjaraviðræður í gangi og þar þarf að vanda til verka ef við ætlum okkur að halda þessari þekkingu í landinu. Margir skurðlæknar starfa erlendis að hluta til og viðhalda þannig þekkingu sinni. Atvinnutilboð erlendis frá streyma inn, enda er alls staðar skortur á skurðlæknum.“
Helgi Kjartan vinnur sjálfur í Noregi, nánar tiltekið í Björgvin og Stafangri, og hefur farið reglulega utan frá því hann fluttist heim 2007. Hér heima er hann í 75% vinnu við Landspítalann við kviðarholsskurðlækningar, aðallega ristil- og endaþarmsskurðlækningar.
Noregsferðir og róbótar
„Svona þing eins og við erum að halda eru líka liður í því að viðhalda þekkingunni og laða fólk að starfinu. Mesti þunginn í erindaflutningnum er á almennum læknum og þetta er mikilvægur vettvangur fyrir unga fólkið til þess að afla sér reynslu í því að flytja erindi og kynna starfsemi sína á vísindaráðstefnum. Skurðlækningar eru krefjandi vinna og sérnámið langt svo það er ekki sjálfgefið að fanga ungt fólk í fagið. Það er meðal annars hlutverk þessara þinga að leyfa þessum ungu læknum að kynna verkefnin sín og vekja áhuga þeirra á faginu.“
En hvernig gengur að sameina starfið hér heima og erlendis lífi fjölskyldunnar? Fylgir því ekki talsvert álag þegar heimilisfaðirinn er reglulega fjarverandi?
„Jú, auðvitað er það álag, en það eru ekki bara Noregsferðirnar því í starfi mínu hér heima er ég á vakt og bakvakt fjórða hvern sólarhring miðað við fullt stöðugildi svo starfið krefst mikils af fjölskyldunni. Noregsferðirnar bætast svo ofan á það. Auðvitað hefur það verið rætt á heimilinu hvar okkur er best fyrir komið. Eigum við að flytja til útlanda eða halda þessu áfram? Það má vissulega venjast öllu og kosturinn við þetta er að með þessu móti held ég þekkingu minni við, auk þess sem ferðalögin skapa ákveðna tilbreytingu í starfi og víkka sjóndeildarhringinn.“
Hann vísar aftur til vísindaþingsins en eins og áður er nefnt hefst það á málþingi um það sem er nýjast í heimi skurðlækna. „Þar verða fluttir fyrirlestrar um aðgerðarþjarkinn, róbot til skurðlækninga, sem verið er að safna fyrir. Það er mikilvægt að fá slíkt tæki hingað til lands og það er líka liður í því að halda í fólk. Haldin verða fjögur erindi þar sem farið verður yfir notkun aðgerðarþjarka við lækningar á krabbameini í blöðruhálskirtli, ristli og endaþarmi, leghálsi og við brjóstholsskurðlækningar. Að erindum loknum verða pallborðsumræður sem Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum, stjórnar,“ sagði Helgi Kjartan Sigurðsson formaður Skurðlæknafélagsins og hlakkar greinilega til.