04. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Eyra á örlitlum þræði var örlagavaldur

– segir Sigurður E. Þorvaldsson lýtalæknir sem lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og hugðist fara í tannlækningar. Sigurður hefur nýlega látið af störfum og fer hér lauslega yfir lífsgönguna.


Þau hjónin Sigurður E. Þorvaldsson lýtalæknir og Jóna Þorleifsdóttir.

„Áhugi minn á lýtalækningum byrjaði eiginlega þegar ég var stúdent á vakt á slysavarðstofunni, sem þá var í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.

Karlmaður sem hafði orðið fyrir áverka á andliti leitaði á slysadeildina, annað eyrað hafði nærri rifnað af en hékk þó á örlitlum þræði. Ég hringdi í Árna Björnsson lýtalækni og lýsti málinu fyrir honum og niðurstaðan varð sú að ég mundi ekki gera neinn skaða með því að sauma eyrað á, sem ég gerði og eyrað lifði. Svona er tilviljanakennt hvert lífið leiðir mann. Ég hafði engin stór plön í upphafi heldur leiddi eitt af öðru,“ segir Sigurður sem er fæddur 1936 í Vesturbænum í Reykjavík. „Sem Vesturbæingur fór ég á alla leiki með KR og það var voðalega erfitt að fara austur fyrir Læk að hitta stúlku. En það fór þó svo,“ segir hann glettnislega. Kveðst hafa gengið í Miðbæjarskólann þar til Melaskólinn var opnaður. Þá var hann sendur þangað og það þótti honum ergilegt því félagarnir voru flestir áfram í Miðbæjarskólanum. „Það skiptist akkúrat um götuna sem ég átti  heima við,“ segir hann. „Síðan fór ég í Verslunarskólann sem var við Grundarstíg í þá daga.“

Ætlaðir þú að verða kaupsýslumaður?

„Það var nú kannski ekki hugsunin en Verslunarskólinn bauð upp á fjögurra vetra nám til verslunarprófs sem var gagnleg menntun. Tveggja vetra viðbótarnám bauðst til stúdentspróf sem ég lauk 1956. Eftir stúdentspróf var ég erlendis til áramóta. Þegar ég kom heim var hugmyndin að fara í tannlæknadeild, en þar var ekki hægt að hefja nám á miðjum vetri, mér var þá sagt að ég gæti byrjað í læknadeild því þar væri kennd sama efnafræði. Mér líkaði svo vel við félagana í læknadeild að ég ákvað að vera þar áfram og námið gekk ágætlega.“

Féll vel á Landakoti 

Á kandídatsárinu var Sigurður á Landakotsspítala og fann strax að þar mundi hann vilja starfa ef kostur yrði á að sérfræðinámi loknu. „Á Landakoti var hugur í læknum að gera vel, sérlega góð samskipti lyflækna og skurðlækna og mér féll vel við systurnar.

Ég fékk styrk hjá American Scandinavian Foundation til að fara á Mayo Clinic í Rochester, Minnesota, til eins árs. Að yfirveguðu máli fór ég í lyflækningar því ég taldi þær góða undirstöðu fyrir öll læknisstörf. En mig langaði í skurðlækningar, fékk framlengda dvölina um fjögur ár og lauk námi í almennum skurðlækningum á Mayo Clinic og MS-prófi frá University of Minnesota.

Þegar við komum til Rochester voru fjórir íslenskir læknar þar fyrir í framhaldsnámi en flest vorum við 8 um tíma, öll í mismunandi greinum. Það var eftir því tekið hvað við vorum mörg frá þessu litla landi. Þarna var allt í fremur föstum skorðum. Námslæknar voru yfirleitt þrjá mánuði í senn á hverri deild. Vaktaálag var mikið. Fyrstu tvö árin var ég á vakt aðra hverja nótt og daginn eftir vaktina þurfti ég að vinna venjulega dagvinnu fram að kvöldmat. Svo þegar heim kom þurfti að undirbúa kynningu fyrir næsta morgun. Það tók örlítið betra við á þriðja ári og á fjórða ári þurfti ég ekki að sofa inni á spítala en var á stöðugri bakvakt með kalltæki. Flestir sem hafa lært  í Bandaríkjunum kannast við þetta vaktaálag.

Dr. Oliver Beahrs var sá læknir sem mér fannst mest til um, hann hafði unnið fyrir sér í læknaskóla með því að sýna töfrabrögð við ýmis tækifæri, ég sá hann hins vegar aldrei í því hlutverki en inni á skurðstofu var hann einnig algjör galdramaður. Hann var skipulagður og kom vel fram við námslækna.

Ég fór síðan til Ann Arbor í Michigan í lýtalækningar. Það var gaman að vera í Ann Arbor sem er háskólabær með öllu því lífi sem því fylgir. Yfirlæknir deildarinnar var Dr. Reed Dingman. Mér er  minnistætt þegar ég kom í starfsviðtalið til hans að sækja um námsstöðu.

Þegar öllum venjulegum spurningum hafði verið svarað og umræðuefnið tæmt sá ég kunnuglegt landslag á málverki á skrifstofunni. Þetta reyndist vera málverk frá Þingvöllum og nú gafst tækifæri til að slaka aðeins á og ræða málverkið. Málverkið var eftir  Dr. Harold Gillies, sem  var brautryðjandi í lýtalækningum í og eftir fyrra stríð. Hann var Ný-Sjálendingur að uppruna, en starfaði í Bretlandi. Gillies var mikill áhugamaður um laxveiði og kom oft til Íslands í þeim erindum, en hann var jafnframt nokkuð slyngur listmálari og  málaði íslenskt landslag. Síðar fékk ég þetta málverk að gjöf frá syni Dingmans að honum látnum og á nú sjálfur sumarbústað þar sem þetta landslag blasir við.“ 
 

Hjartað sló annars staðar

Eftir nám í lýtalækningum vildi Sigurður bæta við sig frekari reynslu í sumum greinum sem hann taldi að hér heima yrðu augljós verkefni lýtalæknis, eins og brunameðferð og meðferð á krabbameini
í munni og á hálsi.

„Ég vann í hálft ár á brunadeild Michigan-háskóla. Þetta var afar stór deild og tók við öllum stærri brunum frá nærliggjandi ríkjum. Mér fannst það erfitt starf að leggja sig allan fram dag og nótt vitandi það að líklega mundu flestir deyja eftir nokkra daga eða verða afskræmdir til lífstíðar. Minni brunar komu sjaldan til okkar.“ 

Síðar fékk Sigurður námsstöðu við Roswell Park Memorial Institute sem er krabbameinsspítali í Buffalo í New York-fylki. „Það var dálítið sláandi að koma í anddyrið á þessum spítala því allan hringinn í móttökunni var svæði sem kallað var Cancer Hall of Fame, þar voru myndir af frægu fólki, körlum og konum, að auglýsa sígarettur. Myndirnar sýndu gjarnan fólk við íþróttaiðkanir eða í fallegu fjallaumhverfi. Öll höfðu þau dáið úr krabbameini. Það var áhrifamikil viðvörun til þeirra sem sáu.

Minnisstæðasti kennari minn var læknir að nafni Bakhamjian, Armeni að uppruna, ákaflega hugmyndaríkur þegar kom að lagfæringu þeirra lýta sem hlutust af ágengum krabbameinsaðgerðum í andliti eða munnholi.

Hann sagði okkur eiginlega aldrei fyrirfram hvernig hann ætlaði að lagfæra lýtin sem mundu hljótast af aðgerðunum en á endanum voru lausnir hans augljóslega þær réttu og sniðnar að vandanum.

Ég vildi einnig öðlast meiri færni í aðgerðum á klofinni vör og gómi og fékk námsstöðu við University of Miami hjá lækni sem hét Ralph Millard. Hann hafði sem ungur maður verið læknir í Kóreustríðinu og þar í sveitum sá hann mörg börn sem skutust um og földu sig, en voru greinilega með klofna vör. Sagan segir að þar sem erfitt var að fá foreldra til að koma með börnin hafi hann eins og sannur kúreki farið um ríðandi og snarað fyrsta barnið. Þegar fólk sá hvað barnið leit vel út eftir aðgerðina streymdu börnin til hans. Þegar ég var í námi hjá honum staðfesti hann söguna.

Að þessum langa undirbúningstíma loknum tók ég próf í almennum skurðlækningum og síðar í lýtalækningum. Mér buðust freistandi störf en eins og margur annar Íslendingurinn tók ég ekki þeim boðum því hjartað sló annars staðar.“

Endursköpun brjósta aðalverkefnið

Voru margir lýtalæknar við störf á Íslandi þegar þú komst heim frá námi?

 „Árni Björnsson og Knútur Björnsson. En þá voru engar stöður þannig að við sinntum líka almennum skurðlækningum og oft svokölluðum bæjarvöktum á kvöldin og nóttunni, sem voru einskonar heimilislæknisvitjanir í hús. 

Ég var mest á Landakoti. Málin þróuðust þannig að ég gerði margar aðgerðir til að endurskapa brjóst eftir brottnám vegna krabbameins. Það var krefjandi og eftir að hafa verið 8 ár á Landakoti fór ég til Bandaríkjanna á ný og var ráðinn hjá stofnun í San Diego í Kaliforníu sem heitir Kaiser Permanente. Þar var mitt aðalverkefni endursköpun brjósta og meðferð klofinnar varar og góms. Algengasta aðferð við brjóstaendursköpun þá var að fluttur var vöðvi af bakinu með yfirliggjandi húð og sílikon-brjóstapúði settur undir vöðvann. En önnur tegund aðgerða var að ryðja sér til rúms. Þar var tekin húð og undirliggjandi fita frá nafla niður að lífbeini og flutt upp á bringuna sem sporöskjulagaður vefur, sem brjóst var mótað úr. Þetta krafðist tengingar grannra æða með aðstoð smásjár. Ég fór því til þriggja mánaða námsdvalar hjá Harry Buncke við Ralph K. Davies spítala í San Francisco, einum af brautryðjendum í skurðaðgerðum með aðstoð smásjár og endurtengingu örsmárra æða. Buncke varð frægur fyrir að flytja stóru tá á hendi í stað þumals, fyrst á öpum og síðan mönnum.

Árið 2000 birti blaðið Plastic Surgery News lista yfir 10 lýtalækna sem höfðu haft mest áhrif á sitt fag á síðastliðinni öld, Millard og Buncke voru í þeim hópi og verðskulduðu það fyllilega.

Ég hef verið afar heppinn með að komast að hjá góðum og hugmyndaríkum læknum sem fóru ekki troðnar slóðir heldur fundu nýjar leiðir að góðum lausnum.

Meðan ég var í San Diego fór ég til Mexíkó í sjálfboðavinnu að gera aðgerðir á börnum með klofna vör og góm, sem höfðu ekki fengið neina þjónustu og voru sum orðin nokkuð stálpuð  þegar þau loksins fengu þessa hjálp. Áður hafði ég farið með vini mínum til Guatemala sömu erinda. Vinur minn er mormóni og það var trúfélag hans sem stóð fyrir ferðinni. Við fórum upp í fjöllin til indíánabyggða, tókum allt sem til þurfti með okkur og gerðum aðgerðir við aðstæður sem oft voru frumstæðar en dugðu til góðra verka. Það er ákaflega gefandi að sjá vör sem hefur verið klofin verða nokkurn veginn eðlilega og missmíði verða að fallegu brosi.“

Allt hefur einhverja áhættu

Þú hefur eingöngu sótt sérmenntun þína vestur um haf.     

„Já, ég  var samtals í nær 13 ár í Bandaríkjunum bæði í námi og starfi. Starfið hér heima var fyrst og fremst spítalastarf en ég hef alla starfsævina líka rekið stofu og verið í 50% starfi á hvorum stað en ég lauk starfsævinni fyrir þremur mánuðum.“   

Það hefur væntanlega verið nóg að gera hjá ykkur lýtalæknunum þegar þú varst að byrja þó kannski hafi verið minna pjatt í samfélaginu þá.  

„Þú segir pjatt. Ég held þú sért að reyna að segja fegrunaraðgerðir. Hvort þær eru þarfar eða óþarfar er alltaf álitamál. Þær gera heilmikið fyrir suma og eru mjög mismikil inngrip, en allt sem gert er hefur einhverja áhættu. Samfélagið er orðið opnara bæði hér og annars staðar þannig að þessir hlutir eru ekki sömu feimnismál og þau voru. Sumt fólk kemur með óraunverulegar væntingar og oft á erfiðleikatímum lífs síns og þá þarf að fara sér hægt í aðgerðum. Önnur hjálp er þá oft betri. Unglingsárin eru oft erfið félagslega en sá Gordionshnútur er allajafna ekki leystur með eggvopni. Þetta er alltaf talsvert matsatriði hvað er innan skynsamlegra marka.“ 

Er þér einhver aðgerð minnisstæðari en önnur á ferlinum?   

 „Ég man eftir vissum verkefnum. Við Rafn Ragnarsson, kollegi minn, gerðum margar aðgerðir sem við kölluðum „tafarlausa endursköpun“. Þá var hvorttveggja gert í  senn, að brjóst var fjarlægt vegna krabbameins og nýtt brjóst endurskapað. Það eru nokkrar mismunandi aðgerðir til að endurskapa brjóst, hver og ein með sínum kostum og sérstöku áhættu. Allar skurðaðgerðir eru áskorun bæði fyrir sjúkling og lækni. Þegar ég lauk störfum á Læknastöðinni og Handlæknastöðinni færðu starfsfélagar mínir mér skúlptúr að gjöf sem er í raun aðgerðalýsing á endursköpun brjósts eins og ég hef lýst hér að ofan.“

Kynntist konunni í skóbúð

Segðu mér aðeins frá einkahögum þínum.

 „Mínir einkahagir eru mjög einfaldir. Eftir 4. bekk í Verslunarskólanum fékk ég sumarvinnu í skóversluninni Hvannbergsbræðrum. Stúlka að nafni Jóna Þorleifsdóttir, sem var einnig í Versló, fékk vinnu þar líka. Þannig hófust okkar kynni. En við urðum ekki par fyrr en ég var nýbyrjaður í læknisfræðinni. Svo varð úr þessu ágætis hjónaband sem á stórafmæli um þessar mundir. Við höfum bæði mikinn áhuga á skíðum og ferðalögum til framandi landa. Við eigum þrjú börn, Ingibjörgu sem kennir ensku við Menntaskólann við Hamrahlíð, Þorvald Egil, rafmagnsverkfræðing sem vinnur hjá Deloitte og Sturlu Þór sem er viðskiptafræðingur og starfar í Osló.“  

Öldungadeildin lifandi félagsskapur

Sigurður hefur nýlega lokið fjögurra ára setu í stjórn Öldungardeildar lækna sem er opin læknum 60 ára og eldri þó flestir fari ekki að mæta fyrr en þeir hafa lokið störfum.

Makar lækna eru mjög virkir þátttakendur í starfi félagsins að sögn Sigurðar. „Við höfum jú flest fylgst að í gegnum lífið bæði í námi og starfi og þannig skapað sterk vinabönd,“ segir hann. Oftast er árlega farin ein ferð innanlands og önnur út fyrir landsteinana. „Þetta er lifandi félagsskapur og ég sé eftir að hafa ekki notað fyrsta tækifæri sem gafst til að ganga í félagið. Síðasta ferðin sem við stóðum fyrir var til Ítalíu. Við enduðum í Flórens og fórum mörg á veitingastaðinn Lapi, en flestir kannast við kvæði Davíðs Stefánssonar, Lapi, listamannakrá í Flórens, þar sem síðasta ljóðlínan er „En Lapi er og Lapi verður listamannakrá“ og var jafnan sungin af miklum krafti á stúdentaböllum hér áður.

Öldungadeildin gerði nýlega athugasemd við breytt aldursákvæði heilbrigðislaga sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn. Þar var læknum gert að hætta heilbrigðisþjónustu á eigin starfsstöð við 70 ára aldur, en hægt var að fá framlengingu tvö ár  í  senn, þó mest þrisvar sinnum. Læknar urðu því  að hætta öllum sjálfstæðum stofurekstri 76  ára. Sigurður segir þetta ákvæði ekki samræmast lögum í löndunum kringum okkur.

„Við vöktum athygli á þessu í greinum í Læknablaðinu og öðrum fjölmiðlum. Síðan fengum við viðtal við Kristján Júlíusson heilbrigðisráðherra, gerðum honum grein fyrir hvernig þessum málum er háttað í löndunum í kringum okkur og hvaða vandræði hlytust af svona afdráttarlausum takmörkunum á starfi á eigin starfsstöð. Heilbrigðisráðherra tók vel í erindi okkar og hefur lagt fram frumvarp til breytingar á þessu aldursákvæði. Efnislega er tillaga ráðherra sú að læknar geti unnið á eigin starfsstöð til 75 ára aldurs og þá sótt um framlenginu til þriggja ára en eftir það til eins árs í senn. Umsókn læknis þarf að fylgja læknisvottorð og upplýsingar um hvað læknirinn hefur unnið við, hvað hann hyggst vinna við og hvar og hvernig hann hefur haldið menntun sinni við. Þetta er allt af hinu góða að ég tel.

Það er gott að finna að kerfið er þó þannig að þegar maður leggur fram eitthvað sem rök eru fyrir þá eru ráðamenn tilbúnir til að skoða það og slíkt ber að meta að verðleikum.“ Þetta vefsvæði byggir á Eplica