04. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Nýtt tæki


Brjóstmynd af Gunnlaugi Claessen (1881-1948) sem sett var utan á hlaðinn grunn
hússins á Hverfisgötu 12 að tilstuðlan dætra hans árið 1994. Tilefnið var að liðin
voru 80 ár frá því Gunnlaugur setti fyrsta röntgengeislann í loftið á Íslandi.

Hvað er í maganum? Stöðugar tækniframfarir og aukin menntun síðastliðinna 200 ára hafa gert líf okkar að flestu leyti auðveldara og betra. Eitt skýrasta dæmið um þetta er læknisfræðin sem hefur gjörbreytt lífi fólks. Sjúkrahúsin í dag eru búin öflugum tæknibúnaði sem gerir læknum kleift að greina sjúkdóma og lækna fólk sem ekki var nokkur kostur að gera áður en þessi tæki komu til sögunnar. Sumir hafa talað með neikvæðum hætti um nýyrðið hátæknisjúkrahús og þessa dularfullu og óskilgreindu hátækni sem stundum er leidd fram sem illvígur og tilfinningalaus andstæðingur hins mannlega í umönnun sjúkra. Tæknin er þó auðvitað ekkert annað en tól í hendi kunnáttufólks sem leitar allra leiða til að verða að liði í þjónustu við sjúka.


Mynd frá árinu 1941, breskir hermenn að marsera í Ingólfsstræti beint á móti
húsi Guðmundar Hannessonar, Hverfisgötu 12, þar sem Gunnlaugur Claessen
hafði aðstöðu sína. Ofar í götunni er Vísir til húsa og Félagsprentsmiðjan, en þar
var Læknablaðið prentað áratugum saman.

Ljósmyndari: Skafti Guðjónsson/Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Sjúkrahús var fyrst stofnað á Akureyri 1873 og þar er elsta samfellda saga sjúkrahúss á Íslandi. Árið 1953 var byggt nýtt sjúkrahús og var nafni þess breytt í fjórðungssjúkrahús en í því fólst meðal annars aukin ábyrgð og stærra þjónustusvæði. Þessu fylgdi einnig aukið framlag ríkisins til tækjakaupa og á skömmum tíma var byggt upp hátæknisjúkrahús á Akureyri.

         



Á forsíðumyndinni nú í aprílblaðinu er Sigurður Ólason röntgenlæknir (1918-1996) að sýna notkun á nýju tæki sem sjúkrahúsið fékk í nóvember 1962. Tegundarheiti tækisins er ekki þekkt en þetta mun vera dæmigert röntgen- og gegnumlýsingartæki sem notað var til að leita að berklum og til að skoða innyfli, maga og ristil. Tækið þótti einkar hentugt þar sem hægt var að snúa því á alla kanta með sjúklingum en bæði var hægt að skoða og taka myndir. Sigurður er hér að sýna notkunina og „sjúklingurinn“ er Árni Ingimundarson kórstjóri og skrifstofumaður hjá KEA en myndina tók Gunnlaugur P. Kristinsson fræðslustjóri KEA og áhugaljósmyndari, en hann tók fjölmargar myndir fyrir sjúkrahúsið. Myndin er birt með leyfi Minjasafns Akureyrar.

Jón Ólafur Ísberg



Þetta vefsvæði byggir á Eplica