02. tbl. 100. árg. 2014
Umræða og fréttir
„Þetta er dund, hobbí" - Stefán Steinsson sneri Heródótosi á íslensku
Forlagið gaf út Heródótos fyrir jólin en hann hefur beðið í 2400 ár eftir að koma út á íslensku. Bókin vegur eitt kíló og er 750 blaðsíður og er engu orði ofaukið.
Stefán Steinsson hefur í hjáverkum frá læknisstörfum þýtt eitt af stórvirkjum fornbókmennta, Rannsóknir Heródótusar, sem gjarnan er sagður faðir sagnfræðinnar. Stefán kveðst ekki hafa fengið áhuga á bókmenntum fyrr en eftir útskrift úr læknadeild Háskóla Íslands en fram að því höfðu raunvísindi átt hug hans allan.
„Þýðingin tók tvö og hálft ár og síðan var ég þrjú og hálft ár að yfirfara hana,“ segir Stefán Steinsson
um þýðingu sína á Rannsóknum Heródótusar.
Ljósmynd/Páll A. Pálsson.
Raunvísindaáhugi Stefáns vekur reyndar spurningar þar sem systkini hans fjögur, Heimir (látinn árið 2000), Iðunn, Kristín og Ingólfur hafa öll vakið athygli fyrir ritstörf og húmanísk viðfangsefni. Foreldrar þeirra voru Steinn Stefánsson skólastjóri á Seyðisfirði og Arnþrúður Ingólfsdóttir húsfreyja.
Spáð fyrir um læknaskort
„Ég lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðideild Menntaskólans að Laugarvatni 1978, fór beint í læknadeild og útskrifaðist þaðan 1984. Það er rétt að systkini mín voru máladeildarstúdentar. Á menntaskólaárum var ég nokkuð jafnvígur á raungreinar og tungumál. Hins vegar fékk ég áhuga á bókmenntum 10 árum síðar þegar ég var læknir í Búðardal. Þá hlustaði ég á Íslendingasögur og Þórberg af hljóðbókum á ökuferðum um héraðið. Ég er líklega fæddur með málaáhuga og lagðist til dæmis fyrst yfir finnsku 16 ára,” segir Stefán í upphafi samtals okkar.
Hann rifjar upp að í læknanáminu hafi kennurum orðið tíðrætt um offramleiðslu lækna í landinu. Það hafi verið áhyggjuefni læknanema að fá starf að námi loknu. „„Þið eruð svo mörg,“ var setning sem þeir klifuðu á. Við vorum 45 sem útskrifuðumst saman og öll fengum við vinnu þrátt fyrir hrakspár. Það er fróðlegt að rifja upp að á þessum árum var gerð framtíðarspá sem sagði að með óbreyttum fjölda útskrifaðra lækna yrði læknaskortur á Íslandi árið 2010. Það þótti flestum hljóma sem fjarstæða og ártalið 2010 stappa nærri hugarburði vísindaskáldsagna. Þetta hefur þó ræst þótt helstu ástæður læknaskorts séu aðrar en gert var ráð fyrir í þessum útreikningum.”
Grúskari og gömul sál
Stefán segir að hann hafi reyndar verið farinn að hlakka til þess að loknu læknanámi að geta leyft sér að lesa fagurbókmenntir áhyggjulaus. „Í Búðardal las ég Dægradvöl Benedikts Gröndal og þá kviknaði löngun til að læra grísku og latínu. Það varð til þess að ég skráði mig í klassísk fræði við Háskólann árið 1991. Þar naut ég handleiðslu Sigurðar Péturssonar og félaga.
Áður en ég réðst læknir í Búðardal hafði ég hugsað mér að verða fæðingalæknir og var deildarlæknir á fæðingardeild Landspítalans á annað ár. Það hét þá súperkandídat. Eftir það fór ég í hérað, lengst af í Búðardal en líka á Þingeyri, samtals 6 ár. Ég skipti um sérgrein, réð mig á Klepp og lauk sér-fræðiprófi í geðlækningum frá Royal College of Psychiatrists í London 1998.”
Þar með er ekki öll sagan sögð. Stefán skipti að nýju um vettvang árið 2002 eftir 9 ár í geðlækningum og vann á þriðja ár á slysa- og bráðasviði Landspítalans í Fossvogi. „Þaðan fór ég austur á Hvolsvöll og var heilsugæslulæknir í 6 ár áður en ég færði mig til Akureyrar. Þar hef ég verið síðan á tilskildum deildum til að hljóta sérfræðiviðurkenningu í heimilislækningum sem var stimpluð nú í desemberbyrjun. Frá 1. október 2013 starfa ég við bráðamóttöku og sjúkraflug á FSA. Þetta lýsir kannski leitandi sál og ég þarf alltaf að vera grúska eitthvað,” segir Stefán sposkur og kveðst líka vera flökkudýr. „Ég er og verð Seyðfirðingur en eftir 15 ára aldur hef ég hvergi verið lengur en 6 ár nema í Reykjavík þegar allt er talið saman. Ég kann vel við mig á Akureyri og verð þar í bili.
Ég hef löngum verið sáttur við læknisstörf enda eru þau talsvert fjölbreytt. Það eru sterk tengsl á milli heimilislækninga og geðlækninga og stundum fullyrt að þriðjungur þess sem heimilislæknar fást við sé andlegs eðlis. Ég hef líka kunnað vel við bráðalækningar þar sem takturinn er oft hraðari. Í Englandi kynntist ég mörgum hliðum geðlækninga, allt frá meðhöndlun heróínfíkla til barnageðlækninga. Ég bý að þeirri reynslu í starfi mínu á bráðamóttöku.”
Nóg um læknisferilinn í bili og snúum okkur að þýðingum Stefáns úr grísku. Eflaust þætti mörgum afköstin á því sviði undanfarin ár alveg nægileg til að standa undir fullu starfi. „Einhverjir voru að tala um afreksverk en ég hef ekki tilfinningu fyrir því. Þetta er dund, hobbí.
Þegar ég var á Laugarvatni var Heimir bróðir minn skólastjóri Lýðháskólans í Skálholti. Ég dvaldi þar oft um helgar. Heimir var mikill latínugráni og sá áhugi smitaði út frá sér þótt hann lægi í dvala næstu árin. Námi í latínu og grísku við háskólann lauk samt ekki með formlegu prófi því ég fór til Bretlands en það vantaði ekkert rosalega mikið upp á.
En ég var farinn að leggja drög að þýðingum úr grísku strax 1992 og ég þýddi fyrst Skaphundinn, leikrit eftir gríska skáldið Menander (341-290 f.Kr). Þýðingin hefur beðið útgáfu hjá Lærdómsritum Bókmenntafélagsins frá 2007. Ég byrjaði svo að þýða Rannsóknir Heródótusar það ár eftir að hafa gengið úr skugga um að enginn annar væri að því. Ég las ekki bókina alla í upphafi heldur byrjaði að þýða beint og skipulega eins og ríbósóm og las hana jafnóðum og ég þýddi. Þýðingin tók tvö og hálft ár og síðan var ég þrjú og hálft ár að yfirfara hana. Það er í samræmi við það sem reyndir rithöfundar og þýðendur hafa sagt: „Fljótur að skrifa, lengi að yfirfara.““
Fornmál eða nútímamál
Ekki er sjálfsagt hvernig þýðandi nálgast svo fornan texta. Stefán segir það grundvallaratriði að ákveða á hvers konar íslensku textinn skuli þýddur. „Ég byrjaði að búa til mál sem stóð miðja vegu milli Sveinbjarnar Egilssonar og fornsagnanna. Sumum fannst það mjög flott en jarðbundnari yfirlesarar, fyrst og fremst Kristín systir mín, ráðlögðu nútímalegri nálgun. Þetta var skynsamleg ákvörðun. Ef ég þýði eitthvað fornt í framtíðinni mun ég miða við nútímaútlagningu því svona tilbúið mál getur orðið dálítið óskilgetið. Það er þó ekki þar með sagt að textinn sé lágkúrulegt hversdagsmál heldur mætti lýsa honum sem íslensku manns sem vandar sig. Sumum þykir hann full hátíðlegur en ég er nokkuð sáttur við útkomuna. Þetta er kryddað alþýðumál en ekki götumál.”
Trúmennska við frumtexta er annað viðfangsefni og verður nokkuð snúið þegar svo fornum texta er lyft til nútímans. „Ég er með tryggð við frumtexta á heilanum. Það eru alls kyns atriði sem þarf að huga að í þeim efnum. Heimsmynd Heródótusar er allt önnur en nútímamanna og mér þótti nauðsyn að hin forni sjónarhóll réði í þýðingunni. Hann nefnir aldrei fjórar höfuðáttir heldur miðar hann við sólargang. Hann vísar einnig til stjörnumerkja eins og Stóra-björns. Þessu hélt ég til haga ásamt því að þýða nöfn á náttúrufyrirbærum. Svartahaf nefnist í beinni þýðingu Gestrisnahaf. Þetta er ekki beinlínis togstreita en kallar á vangaveltur. Fæstar setningar úr forngrísku er hægt að þýða beint, sem á reyndar við um ýmis tungumál, svo textann verður útleggja. Maður hefur þá merkingu frumtexta til leiðsagnar.”
Vantaði íslenska þýðingu
Stefán segir meginástæðu þess að hann réðst í þýðingu þessa höfuðrits vera að íslenska þýðingu þess hafi hreinlega vantað. „Þetta er eitt af þeim ritum sem eiga að vera til á íslensku. Verkið er mjög skemmtilegt aflestrar, sem eflaust er ein ástæða þess að það hefur lifað í gegnum aldirnar. Ég þýddi alla lesninguna beint á tölvu, sem varla er í frásögur færandi. Með því móti gat ég jafnan haft opna ameríska tölvuútgáfu Tuftsháskóla hvar sem ég var niður kominn, með frumtexta ásamt skýringum og tilvísunum í vafaatriði. Ég hafði mismunandi þýðingar einnig við höndina. Skýringar við þennan texta eru ótalmargar og fylla heilu bækurnar. Ég lagði mig ekki eftir þeim öllum en vísa í upprunann ef fræðimenn hafa áhuga á að leita þær uppi.”
Heródótus frá Halíkarnassus í Litlu-Asíu er talinn fæddur árið 484 fyrir Krist. Rannsóknir hans skiptast í 9 bækur. Þær rekja sögu og uppgang Persaveldis frá dögum Kýrusar Persakonungs. Þeim lýkur þegar Xerxes konungur Persa tapar endanlega í baráttunni um að innlima Grikkland í veldi sitt í sögufrægum orrustum við Salamis, Plateu og Mýkölu.
Lifandi og skemmtileg frásögn
„Heródótus er að lýsa atburðum sem gerðust ekki löngu fyrir hans dag og lauk ekki fyrr en rétt um það bil sem hann kemur í heiminn. Hann hefur því aðgang að frásögn sjónarvotta. Rannsóknir hans eru endursögn atburða samkvæmt lýsingu viðmælenda. Hann ferðast víða um lönd og aflar upplýsinga hjá fjölmörgum. Frásagnarmáti er lifandi og skemmtilegur, stundum í fyrstu persónu, stundum í annarri eða þriðju persónu. Hann lætur flest flakka og tekur upp ýmsar furðusögur. Það er skemmtilegt að lýsingar hans á íbúum framandi landsvæða verða æ furðulegri eftir því sem löndin eru fjarlægari og óaðgengilegri. Hann slær þó varnagla við því að leggja of mikinn trúnað á allt sem viðmælendur hans segja.”
Um stíl Heródótusar segir Stefán að hann eigi mikið að þakka Hómer, bæði í hugsun og málfari. „Í raun var söguefni Heródótusar og Hómers hið sama, stríð og ferðalög. Að sumu leyti minnir Heródótus á Mozart. Tær einfaldleiki virðist augljós á yfirborðinu en dylur djúpa heimshryggð undir niðri. Á sama hátt er stíll Heródótusar einfaldur og hrynfagur, ekkert tafs í frásögninni eða málalengingar. Höfundur er hreinn og beinn í hugsun, dálítið barnalegur og veltir sér upp úr skrítnum hlutum. Fegurð tungutaks og hrynjandi er við brugðið.”