01. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Vel heppnuð íðorðasmíð - rætt við Magnús Snædal um starf Orðanefndar læknafélaganna

„Það mun hafa verið Baldur heitinn Jónsson prófessor í íslensku sem stakk upp á mér við Örn Bjarnason snemma árs 1984,“ segir Magnús Snædal prófessor í málvísindum sem um 12 ára skeið var ritstjóri Íðorðasafns lækna, Líffæraheita, Fósturfræðiheita, Vefjafræðiheita, og Alþjóðlegrar tölfræðiflokkunar sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála ICD-10.


„Fagmál eru alþjóðleg og tilheyra samfélögum sem eru öðruvísi tilkomin en málsamfélög,“ segir
Magnús Snædal málfræðingur sem ritstýrði Íðorðasafni lækna um árabil.

„Íðorðaþýðingar og nýyrðasmíð var á þeim tíma ekki neitt sérstakt hugðarefni mitt og ég held að Baldur hafi einfaldlega vitað að ég var á lausu og þess vegna stungið upp á mér í þetta starf, sem reyndist síðan töluvert meira umfangs en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Örn Bjarnason var þá byrjaður að undirbúa útgáfu Íðorðasafnsins og hafði farið yfir fyrstu stafkaflana í Goads Medical Dictionary og tínt út það sem honum fannst ástæða til að hafa með og sett þýðingar við ef til voru. Síðan var fundur vikulega ásamt orðanefndinni sem í voru á þeim tíma Bjarni Þjóðleifsson og Magnús Jóhannsson ásamt Erni og við fórum yfir þetta. Þannig var þetta unnið til að byrja með en síðan snerist það við þannig að ég tíndi saman það sem ég fann í öðrum heimildum og Örn fékk það og bætti við eða strikaði út eftir atvikum.“

Hófst um miðjan áttunda áratuginn

Í formála að fyrsta útgefna stafkafla Íðorðasafnsins (1985) segir Örn Bjarnason fyrrverandi ritstjóri Læknablaðsins og formaður Orðanefndar læknafélaganna svo frá aðdraganda útgáfunnar:

„Fyrir tæpum áratug (1976) kom það til tals milli ritstjóra Læknablaðsins að nauðsyn bæri til að hefja útgáfu íðorða, að kynna ný orð og hugtök. Við Bjarni Þjóðleifsson tókum því þess vegna fegins hendi, þegar stjórn Læknafélags Íslands, fól okkur, að sækja þing málnefnda sérgreinafélaga og stéttarfélaga sem haldið var á vegum Íslenskrar málnefndar haustið 1977 og höfum við sótt þau þing, sem haldin hafa verið á tveggja ára fresti.

Síðla árs 1977 var hafist handa um að kanna þann efnivið sem tiltækur var. Í upphafi var ætlunin að vinna að einhvers konar bættri Nomina Clinica. Frá því var fljótlega horfið og sá kostur valinn, að vinna út frá enskum orðaforða, stafkaflanum A og svo skyldi tekinn fyrir stafkaflinn B og síðan koll af kolli. Verkið vannst að sjálfsögðu afar hægt og það var ekki fyrr en á árinu 1983, að það sást fyrir endann á þessum fyrsta áfanga.

Frá formlegri stofnun orðanefndar var gengið 1983 og bættist þá í hópinn Magnús Jóhannsson og hefir skipun nefndarinnar verið óbreytt síðan. Fyrsta verk nefndarinnar var að svipast um eftir starfsmanni. Nutum við aðstoðar Baldurs Jónssonar prófessors og fékk starfsemin inni hjá Íslensku málstöðinni. Snemma árs 1984 samþykktu stjórnir LR og LÍ þá ráðagerð, að Magnús Snædal málfræðingur yrði ráðinn til þess að ritstýra Íðorðasafni lækna.“

„Síðar bættust Eyjólfur Þ. Haraldsson, Guðjón S. Jóhannesson, Helgi Þ. Valdimarsson og Jóhann Heiðar Jóhannsson í orðanefndina,“ segir Magnús.


ICD-10 og íðorðasöfnin sem komu út 1995 og 1996 að tilstuðlan Orðabókarsjóðs læknafélaganna.

Læknisfræðilegt fagmál

Uppruna læknisfræðiheita má í langflestum tilvikum rekja til grísku eða latínu að sögn Magnúsar. „Íðorðafræðin leggja áherslu á samræmi milli tungumála. Ákjósanlegast er að greið leið skilnings sé á milli tungumálanna og hægt sé að treysta því að íðorðið samsvari sér á milli þeirra. Það er mikilvægt að átta sig á því að íðorðaforðinn er ekki bundinn þjóðtungu nema að hálfu leyti, það er hvað útlitið varðar. Fagmál læknisfræðinnar er læknisfræðilegt, en ekki enskt, grískt eða latneskt. Þegar íðorðaforði er fluttur af einu tungumáli yfir á annað er reynt eins og kostur er að skipta eingöngu um útlit en innihald á helst að vera óbreytt. Stundum er sagt að íðorðasmíð felist að miklu leyti í beinum, ef ekki hráum, þýðingum, einkum úr ensku. Þessi gagnrýni er út í hött því þetta á að vera svona að því gefnu að erlenda heitið sé viðeigandi.“

- Hver var staða læknisfræðiheita á íslensku á þessum tíma?

„Hún var frekar bág satt að segja. Það voru til tvö orðasöfn Guðmundar Hannessonar, Læknisfræðiheiti og Líffæraheiti. Það síðarnefnda hafði Jón Steffensen endurskoðað og gefið út aftur. Svo var til orðasafn úr líffræði og annað úr uppeldis- og sálarfræði en lítið umfram það. Þetta var sem sé viðameira en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Og íðorðasmíð er í rauninni allt annars eðlis en orðasöfnun í almenna orðabók.“

Magnús vísar hér til greinar sem hann birti í Málfregnum (1992; 6: 2) þar sem hann segir eftirfarandi: „Í íðorðastarfinu er ákveðið hvert táknið á að vera og hvernig á að nota það en í almennu orðabókarstarfi þurfa menn að komast það því hver táknin eru og hvernig þau eru notuð.“ Síðar í sömu grein segir Magnús: „Fagmál eru alþjóðleg og tilheyra samfélögum sem eru öðruvísi tilkomin en málsamfélög, það er „samfélögum“ um starfsgrein eða fræðigrein.“

Íðorð eru oft samsett úr tveimur eða fleiri orðstofnum og þá kemur upp sú krafa að merkinguna megi ráða af samsetningunni; að hið samsetta orð hafi merkinguna fólgna í sér. „Helst viljum við að orðin séu bæði stutt og auðskiljanleg en það er ekki alltaf hægt og samsettu orðin í íðorðafræðunum geta orðið bæði löng og strembin. Samsett og afleidd orð hafa oftast þann kost að orðhlutarnir vísa í eitthvað sem við þekkjum. Stundum geta þau þó verið falskir vinir og haft allt aðra merkingu sem íðorð og þá er ekki hægt að komast hjá því að læra orðin og læknisfræðilega merkingu þeirra. Þegar rætt er um merkingu íðorða snýst umræðan ekki um íðorðið sjálft, heldur þýðingu þeirrar aðgreiningar sem gerð er í veruleikanum. Formgerðin sem íðorðaforðinn birtir á því að þjóna tæknilegum eða vísindalegum markmiðum. Þekking og skilningur á íðorðaforða krefst því alltaf þekkingar á hlutunum.”

ICD-10 útgáfan er langviðamesta orðasafn yfir sjúkdóma og heilbrigðisvandamál sem gefið hefur verið út á íslensku til þessa. Verkið unnu auk ritstjórans Magnúsar, Jóhann Heiðar Jóhannsson og Örn Bjarnason. Útgáfan var þrekvirki  á sínum tíma og gerð samkvæmt samningi milli heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins og Orðabókarsjóðs læknafélaganna. Fram að því var að sögn Magnúsar sneitt hjá mjög sjaldgæfum sjúkdómum og læknisfræðilegum fyrirbærum í íðorðasafninu, ekki var talin ástæða til að þýða eða finna íslensk orð yfir slíkt en við útgáfu ICD-10 varð ekki hjá því komist. „Allt varð að komast yfir á íslensku. Íðorðasafnið var auðvitað ómetanlegt hjálpargagn við þessa vinnu,“ segir hann.

Útgáfan er sérlega gagnleg fyrir þær sakir að ensku heitin standa ávallt andspænis þeim íslensku og hún nýtist því vel þeim sem lært hafa ensku heitin eingöngu, svo sem þeim sem stundað hafa sérnám erlendis. Hið sama má einnig segja um Líffæraheitin, Fósturfræðiheitin og Vefjafræðiheitin sem komu út ári fyrr (1995). Þar eru birt samhliða íslensku þýðingunni hin alþjóðlegu heiti auk þess sem latnesk-íslensk og íslensk-latnesk orðaskrá fylgja á eftir.

Málstol upphaf orðarunu

Um mikilvægi íslenskra íðorða í læknisfræði þarf ekki að fjölyrða. Magnús tekur heilshugar undir þau orð Jóhanns Heiðars Jóhannssonar að sjálfsögð krafa sé að læknir noti íslensk læknisfræðiorð í samtölum við sjúklinga sína eða í fræðsluefni fyrir almenning (Læknablaðið 2013; 99: 522-4). „Það er í rauninni tilgangurinn á bakvið þetta starf að til séu orð á íslensku yfir flestallt það sem læknar fást við í störfum sínum. Þetta á að sjálfsögðu við um annað heilbrigðisstarfsfólk líka, því ýmsar fleiri stéttir en læknar læra líffærafræði, fósturfræði og sjúkdómaheiti svo eitthvað sé nefnt. Hvað læknana varðar er þetta sérlega mikilvægt þegar haft er í huga að þeir stunda sérnám víða um heim og koma til baka með sérgreinaorðaforðann þaðan og þannig getur ýmis misskilningur eða skortur á skilningi orðið til.“

Magnús segir að áhugi læknastéttarinnar á íslensku íðorðasafni hafi birst með margvíslegum hætti. „Þetta er í fyrsta lagi það sérhæft mál að áhuginn er einstaklingsbundinn fremur en að hann fari eftir sérgreinum eða kynslóðum. Ég hef fundið áhugasama einstaklinga í öllum sérgreinum og á öllum aldri. Það voru kannski ekki mjög margir einstaklingar sem höfðu samband við okkur meðan á útgáfu Íðorðasafnsins stóð en þeir sem gáfu sig fram voru margir hverjir ágætlega öflugir. Einnig fengum við góð viðbrögð frá mörgum þegar leitað var til sérgreinafélaganna vegna útgáfu ICD-10. Síðan er allstór hópur sem lætur sér nægja að fylgjast með og lætur ánægju sína í ljós þegar tækifæri gefst. Einhverjir höfðu sjálfsagt efasemdir um fyrirtækið en ég varð ekki mikið var við það.“

Aðspurður um hvað honum sé minnisstæðast frá starfinu fyrir Orðanefnd læknafélaganna segir Magnús að það sé vissulega ýmislegt en upp í hugann komi glíma við þýðingu orðsins abasia sem hafi þvælst fyrir honum lengi vel. „Þetta orð táknar missi hæfileikans til að ganga vegna bilunar í miðtaugakerfinu þótt ganglimir séu alheilir. Ekki sýndist mér auðvelt að finna orð í íslensku yfir það. Eftir heilmiklar vangaveltur skaut upp orðinu gangstol en það var hið gamla og gróna orð málstol sem vísaði veginn. En það var eins og við manninn mælt að þegar þetta var komið til þá opnuðust margar dyr þar sem hægt var að nota orðið stol með ýmsum forliðum. Þetta lýsir íðorðasmíðinni kannski ágætlega þegar orð og orðstofnar verða uppspretta heilla flokka eða kerfa með ýmsum for- og viðskeytum.“

Það er ekki úr vegi að spyrja Magnús hvort hann sé ekki með fróðari mönnum um hugtök læknisfræðinnar eftir 12 ára starf að íðorðasmíðinni. „Ég hafði nú einhvern tíma á orði við Örn Bjarnason þegar hinar ýmsu stéttir voru að bæta orðinu fræðingur í starfsheiti sitt að ég gæti kannski farið að titla mig læknisfræðing eftir þetta. En ætli ég haldi ekki áfram að vera málfræðingur þótt íðorðastarfið með læknum hafi vissulega verið skemmtilegt og fræðandi.”



Þetta vefsvæði byggir á Eplica