01. tbl. 100. árg. 2014

Ritstjórnargrein

Læknablaðið 100 ára

Engilbert Sigurðsson ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins‚ prófessor í geðlæknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands‚ yfirlæknir við geðsvið Landspítala

doi: 10.17992/lbl.2014.01.524

Allt hefur sinn tíma segir í gömlum texta. Læknablaðið hefur komið út óslitið frá ársbyrjun 1915 og er því nú að hefja sitt 100. útgáfuár. Afmælisbarnið ber háan aldur vel enda er efni þess í stöðugri endurskoðun. Á þessum merku tímamótum er rétt að minnast þeirra sem ruddu brautina. Eldhuginn Guðmundur Hannesson ýtti Læknablaðinu úr vör og markaði djúp spor í sögu þess í upphafi síðustu aldar. Hann handskrifaði sjálfur fjölmörg tölublöð af því sem hann nefndi „fyrirrennara íslensks læknablaðs“, hektógraferaði og sendi læknum í norður- og austuramtinu á árunum 1902 til 1904. Síðar stóð Guðmundur fyrir reglulegri útgáfu Læknablaðsins og var kjörinn í ritstjórn þess frá 1915 til 1921. Blaðið hefur alla tíð verið skrifað á íslensku. Á seinni árum hafa þó ágrip og myndefni verið birt á íslensku og ensku. Árlega eru gefin út 12 tölublöð, en júlí- og ágústblaðið kemur út sameinað í júlí. Nær allt efni blaðsins er birt í opnum aðgangi á netinu.

Læknablaðið hefur um árabil fylgt alþjóðlegum viðmiðum um kröfur til fræðigreina. Það fékkst metið með sama hætti til rannsóknarstiga í Háskóla Íslands og sambærileg erlend tímarit eftir að fræðigreinar blaðsins fengust skráðar í gagnagrunn Medline/Pubmed árið 2005. Á síðustu árum hafa fræðigreinarnar og tilvitnanir í þær einnig verið skráðar á vefi Science Citation Index, Journal Citation Report/Science Edition, Scopus og Google Scholar. Með því að hvika hvergi frá kröfum til fræðilegs efnis hefur tekist að halda skráningu blaðsins í ofangreinda grunna. Samhliða þróun efnis, útlits og rafræns aðgengis þarf ávallt að huga að tengslum við lækna í hinum ýmsum sérgreinum og kynna blaðið fyrir námslæknum og læknanemum. Margir þeirra stíga þar sín fyrstu spor á ritvellinum.

Ritstjórn hefur ákveðið að minnast aldarafmælisins með ýmsum hætti í 100. árgangi. Þar munu fléttast saman þræðir úr fortíð og nútíð. Forsíðan verður með breyttu sniði.  Sögulegar myndir af læknum og lykilstofnunum íslenskrar heilbrigðisþjónustu verða í öndvegi. Í hverju tölublaði verða birtar sérstakar afmælisgreinar. Í tilefni þess að Læknadagar fara í hönd ríður Stefán B. Matthíasson á vaðið og rekur sögu þeirra. Í seinni tölublöðum munu meðal annars birtast greinar um þróun læknismenntunar á Íslandi; um mikilvæg skref á sviði lýðheilsu og heilsugæslu; lykiláfanga í þróun klínískra rannsókna og sögð verður saga merkra frumkvöðla í læknastétt hér á landi. Rausnarlegur styrkur Læknafélags Íslands gerir okkur kleift að skanna og setja á netið þá eldri árganga sem til þessa hafa ekki verið aðgengilegir á netinu. Lyfjastofnun hefur veitt leyfi til birtingar lyfjaauglýsinga frá árunum 1915 til 1990 samhliða öðru skönnuðu efni. Þróun auglýsingatextanna er merk heimild um veröld sem var. Þeir endurspegla þekkingarstig og tíðaranda, og þær elstu hafa að auki ótvírætt skemmtigildi. Á vordögum mun Læknablaðið standa fyrir málþingi og afmælisveislu.

Að mati undirritaðs hefur Læknablaðið á síðustu árum gegnt mikilvægara hlutverki í umræðu um heilbrigðismál á Íslandi en nokkru sinni fyrr. Fjölmiðlar fá nú efnisyfirlit þess sent með tölvupósti um leið og blaðið kemur út. Almenningur á greiðan aðgang að efni blaðsins á netinu, enda sýna fréttamenn leiðurum og öðru efni blaðsins iðulega mikinn áhuga. Prentútgáfan vegur sem fyrr þungt í tekjuöflun blaðsins. Markviss kynning lækna á grafalvarlegri stöðu heilbrigðisþjónustu hér á landi í leiðurum blaðsins og í öðrum fjölmiðlum á síðasta ári stuðlaði að kröfu almennings og síðan þingheims um endurreisn þjónustunnar. Heilbrigðismál urðu fyrir vikið að kosningamáli í fyrsta sinn í manna minnum síðastliðið vor og varð umræðan mikilvægt leiðarljós við gerð fjárlaga. Hún skapaði einnig sátt á Alþingi nú í desember um fyrstu skrefin til endurreisnar heilbrigðisþjónustunnar eftir tveggja áratuga viðvarandi hagræðingu, sparnað og niðurskurð. Niðurstaða fjárlaga fyrir árið 2014 kveikir von í brjóstum margra um að forsendur hafi loks skapast til að snúa við þróun sem hefur gengið of nærri þreki starfsfólks. Sáttin á Alþingi um að uppbygging þjónustunnar sé hafin og haldi áfram á næstu árum mun hvetja íslenska lækna erlendis til að íhuga að snúa nú heim að loknu sérnámi. Þar ræður þó niðurstaða fyrirliggjandi kjarasamninga vitaskuld einnig miklu. Verulegur vandi er fyrirséður í nýliðun heilsugæslulækna hér á landi sem bregðast verður við.1 Ungir heilsugæslulæknar hafa bent á að mikilvægt sé að draga úr miðstýringu og bjóða fjölbreyttari rekstrarform í heilsugæslunni, líkt og gefist hefur vel í nágrannalöndunum, eigi þeir að ílendast hér að námi loknu.2 Yfirlýsingar heilbrigðisráðherra benda til þess að brýning þeirra fari saman við áherslur hans.

Að lokum þetta: Læknablaðið á að sameina lækna. Þakkir færi ég öllum þeim sem hafa í gegnum tíðina helgað blaðinu krafta sína og gert það að því öfluga fræði- og félagsriti sem það er í dag. Þær þakkir færi ég starfsfólki, en ekki síður höfundum fræðigreina, íslenskum læknum. Framtíð blaðsins er í ykkar höndum.


  1. Sigurjónsson H. „Þekking okkar á málaflokknum er ekki nýtt“. Segir Þórarinn Guðnason um þátttöku sérfræðilækna við stefnumótun heilbrigðisþjónustu. Læknablaðið 2012; 98: 40-2.
  2. Georgsdóttir GJ. Hálffullt glas. Læknablaðið 2013; 99: 577.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica