12. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Læknaskortur er staðreynd – segir formaður FAL

Eyjólfur Þorkelsson er formaður Félags almennra lækna en á síðasta aðalfundi var nafni félagsins breytt úr Félagi ungra lækna. Eyjólfur segir nafnbreytinguna hafa verið tímabæra og nauðsynlega þar sem oft hafi verið uppi misskilningur um hvað „unglæknir“ þýddi; ekki hafi allir gert sér grein fyrir því að unglæknir væri útskrifaður læknir með almennt lækningaleyfi en án sérfræðimenntunar.

u04-fig1
„Það er nánast regla fremur en undantekning að almennir læknar þurfi að vinna áfram eftir að hefðbundnum vinnudegi er lokið, við frágang dagvinnunnar eða undirbúning innlagna, án þess að fá nokkra yfirvinnu greidda,“ segir Eyjólfur Þorkelsson formaður Félags almennra lækna.

„Læknanemi, læknakandídat og unglæknir, þessu var iðulega ruglað saman. Hins vegar fer ekkert á milli mála hvað almennur læknir stendur fyrir: Það er læknir með almennt lækningaleyfi. Aldur almennra lækna er eðli málsins samkvæmt yfirleitt í lægri kantinum en þó eru dæmi um vel fullorðna lækna með almennt lækningaleyfi sem hafa ekki lagt fyrir sig sérgrein.“

Eyjólfur lýsir almennum læknum sem framvarðasveit spítalans. „Við gegnum stöðum aðstoðar- og deildarlækna, við höldum utan um deildavinnuna og stöndum bundnar vaktir með miklum samskiptum við sjúklinga og aðstandendur. Okkur finnst vinnuframlag okkar sjaldan metið að verðleikum og lítið tillit tekið til þess vinnuálags sem almennir læknar starfa undir, sérstaklega á síðustu misserum þegar almennum læknum hefur markvisst verið fækkað á stofnuninni. Til marks um álagið má nefna að það er nánast regla fremur en undantekning að almennir læknar þurfi að vinna áfram eftir að hefðbundnum vinnudegi er lokið, við frágang dagvinnunnar eða undirbúning innlagna, án þess að fá nokkra yfirvinnu greidda. Auk þess er vinnustundafjöldi almennra lækna á viku yfirleitt fimm til tíu stundum yfir skilgreindum hámarksvinnutíma. Þetta eru eingöngu tímar samkvæmt vinnuskýrslu svo yfirvinnan sem ég nefndi áðan er ekki inni í þessum tölum. Hversu mikil þessi ólaunaða yfirvinna er í raun, veit enginn fyrir víst en hún á að vera til í gögnum spítalans þar sem við stimplum okkur inn í upphafi dags og út þegar við förum heim. Það hefur hins vegar reynst þrautin þyngri að fá aðgang að þessum gögnum og verður líklega ekki hægt nema fyrir atbeina dómstóla.“

Deilt um vaktaskipulag

Almennir læknar stóðu í vor í deilu við stjórn Landspítala um breytingar á vaktakerfi sem hefði að sögn Eyjólfs þýtt styttingu vakta úr 16 stundum í 13, en í staðinn fleiri nætur unnar í röð. „Við mótmæltum þessu með þeim rökum að þetta þýddi minni hvíld fyrir okkur og væri því öryggismál bæði fyrir okkur læknana og sjúklingana. Okkur mislíkaði einnig að okkur var ekki boðið upp á neinar viðræður um þetta, heldur einungis tilkynnt að þetta hefði verið ákveðið. Við mótmæltum því og bentum á að ekki væri löglega að þessari breytingu staðið og hugðumst leggja fram stjórnsýslukæru. Auk þess bentum við á að með þessu ykist vinnuskylda úr því að vera tæplega lögleg í það að vera kolólögleg. Á þeim grundvelli kom Læknafélag Íslands til sögunnar sem okkar stéttarfélag og lögfræðingur félagsins var fyllilega sammála okkar túlkun. Að endingu gengu um 70 almennir læknar út, sem hafði mikil og víðtæk áhrif. Á fimmta degi kom spítalinn til móts við óskir okkar og báðir aðilar náðu samkomulagi. Í því fólst meðal annars að skipuð var nefnd þar sem áttu sæti fjórir fulltrúar Landspítala og þrír frá Félagi almennra lækna og þeim falið að semja tillögur að nýju vaktakerfi fyrir öll svið spítalans þar sem tekið væri tillit til mismunandi þarfa sviðanna. Starfið í nefndinni hefur gengið mjög vel, þótt nokkrar tafir hafi orðið af ýmsum ástæðum. Nú eru tilbúnar tillögur að vaktakerfi fyrir tvö svið sem almenn sátt ríkti um í nefndinni, en vegna fyrrnefndra tafa var óskað eftir fresti. Framkvæmdastjórn spítalans hafnaði hins vegar þeirri ósk og lét ennfremur í það skína að ekki yrði að fullu farið að tillögum nefndarinnar, sem þeir höfðu þó skuldbundið sig til samkvæmt samkomulaginu frá vordögum. 

Eyjólfur segir mjög leitt ef tillögur nefndarinnar ná ekki fram að ganga, því með þeim séu í rauninni sniðnir helstu vankantar af núverandi kerfi. „Við höfum bundið miklar vonir við þessar nýju tillögur. Fyrir hönd félagsins hef ég farið á fund forstjóra Landspítala um þetta mál, því okkur finnst ábyrg afstaða stjórnar spítalans felast í því að leyfa nefndinni að ljúka starfi sínu ótrufluð. Með því að ýja að breytingum á framkomnum tillögum og hafna ósk nefndarinnar, er starf hennar í uppnámi, jafnframt því sem þetta ýtir undir óöryggi og óánægju meðal bæði almennra lækna og sérfræðinga sem sjá fram á aukið vinnuálag ef almennir læknar hverfa frá spítalanum.“

Verri áhrif til lengri tíma



Eyjólfur segir það nánast rangfærslu að tala um yfirvofandi læknaskort. „Hann er staðreynd nú þegar. Tilfinnanlegastur er hann meðal lækna á aldursbilinu 30-45 ára, en í þeim hópi eru almennir læknar sem farnir eru til framhaldsnáms erlendis og þeir sem lokið hafa sérfræðinámi en eru enn starfandi erlendis. Þess utan hefur almennum læknum á Landspítala verið fækkað um nálega 20% á stuttum tíma. Almennir læknar finna fyrir auknu álagi í vinnu og upplifa efnahagsþrengingar í samfélaginu á sama hátt og aðrir þegnar. Þegar þeir eiga þess kost að fara út til starfa og náms, þar sem vinnutíminn er styttri, launin hærri og aðstæður almennt mun betri, er ekkert skrýtið að þeir velji þann kost. Þetta sama ástand veldur því að ungir sérfræðingar telja ekki fýsilegt að flytjast heim. Ábyrgð stjórnenda Landspítalans og heilbrigðisyfirvalda er því mikil þegar reynt er að þrengja að kjörum og starfsaðstæðum almennra lækna, að því er virðist með öllum tiltækum ráðum. Það hefur slæm áhrif til skamms tíma en líklega eru áhrifin enn verri þegar litið er til lengri tíma. Við erum öll á sama báti að þessu leyti. Sérfræðingarnir finna fyrir því að með fækkun almennra lækna eru þeir hreinlega að kafna í verkefnum sem almennir læknar sinntu áður og það hlýtur að vera freistandi að halda til starfa erlendis þar sem þeim býðst aðstaða til að vinna í sinni sérgrein og engu öðru.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica