07/08. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Hættur og farinn – Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir fer frá Landspítala til starfa í Bandaríkjunum

Sigurður Böðvarsson sérfræðingur í krabbameinslækningum er á förum til Bandaríkjanna eftir að hafa starfað á krabbameinsdeild Landspítalans í 9 ár frá því hann lauk sérnámi. Hann lét af formennsku í Læknafélagi Reykjavíkur þann 1. júní og segir sér því ekkert að vanbúnaði lengur að flytja búferlum. Til hafi staðið í nær þrjú ár að flytja vestur um haf en nú sé rétti tíminn. Læknablaðið fékk Sigurð til að líta um öxl og lýsa reynslu sinni nú þegar hann stendur á þessum tímamótum.

 u02-fig1
„Ég hlakkaði mjög til að hefja störf á Landspítalanum,“ segir Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir
sem er að flytja búferlum til Bandaríkjanna.

„Ég tók við starfi formanns Læknafélags Reykjavíkur 2006. Þessi fjögur ár hafa verið skemmtileg og fljót að líða. Ég hef verið svo lánsamur að vinna með góðu og áhugasömu fólki allan tímann. Ég kom mér í stjórn Læknafélags Íslands strax haustið 2006 og tel nauðsynlegt að formaður LR sitji í stjórninni enda leiðir hann 75% lækna á Íslandi. Ég hef reynt á þessum árum að þróa mál með þeim hætti að LÍ einbeiti sér að stéttarfélagsmálum en LR að faglegum málum læknastéttarinnar. Auðvitað skarast fagleg og stéttarfélagsleg málefni nokkuð milli LÍ og LR og reyndar hafa samningar sjálfstætt starfandi sérfræðinga verið gerðir í nafni LR samkvæmt 100 ára hefð. Ég hef sem formaður látið samninganefnd félagsins eftir samningagerðina og ekki skipt mér sérstaklega af henni. Ég held að það sé ágætis fyrirkomulag, því formaðurinn þarf að hafa það í huga að í LR eru auk sjálfstætt starfandi lækna, heilsugæslulæknar og sjúkrahúslæknar og formanninum ber að gæta hagsmuna þeirra allra.“

Samskipti við stjórnmálamenn, ráðherra og embættismenn eru stór hluti af starfi formanns LR og tíð ráðherraskipti í heilbrigðisráðuneytinu hafa sett svip sinn á rekstur þess málaflokks á undanförnum árum.

„Ég hef á þessum árum fundað með fjórum heilbrigðisráðherrum og öllum þeirra oftar en einu sinni. Einnig hef ég átt ótal fundi með embættismönnum, þingmönnum og ýmsum nefndum. Ég hef reynt að miðla sjónarmiðum lækna og ítrekað vilja þeirra til samstarfs og samvinnu um stefnumótun og framkvæmd heilbrigðismála hér á landi. Mér hefur komið á óvart hve stjórnsýslan hér er veik og hve upplýsingar eru af skornum skammti. Góð kona sagði einu sinni að upplýsingar væru stjórnkerfinu jafn nauðsynlegar og peningar fjármálakerfinu. Án upplýsinga er erfitt að taka vitrænar ákvarðanir. Mér hefur því komið á óvart hve upplýsingar um til að mynda kostnað í heilbrigðiskerfinu eru fátæklegar. Reyndar liggja allar kostnaðartölur fyrir hjá sjálfstætt starfandi læknum við öll þeirra verk en hið opinbera stendur sig ekki að þessu leyti. Þannig vitum við uppá krónu hver er heildarkostnaður ríkisins við heimsókn sjúklings til sjálfstætt starfandi læknis, en enginn hefur getað sagt mér hvað heimsókn sama sjúklings til heilsugæslulæknis eða sjúkrahússlæknis á göngudeild kostar. Þetta verður auðvitað að laga ef ætlunin er að reka hér heilbrigðiskerfi á hagkvæman hátt. Athyglisvert er reyndar að miðað við fyrirliggjandi tölur er meðalkostnaður ríkisins vegna heimsóknar sjúklings til sjálfstætt starfandi sérfræðilæknis um 6500 krónur en meðalkostnaður við heimsókn sjúklings til hjúkrunarfræðings eða læknis innan heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um 3000 krónum hærri eða um 9500 krónur. Þessar tölur koma frá hagfræðingi Læknafélagsins og hún hefur unnið þær út frá opinberum gögnum eins vel og hún getur. Vafalaust eru skýringar á þessum mun margar, menn fara yfirleitt betur með eigið fé en annarra og síðan er gríðarlegur munur á yfirbyggingu sjálfstætt rekinna stöðva og heilsugæslunnar. Kostnaður við stjórnun heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var til dæmis um 600 milljónir á síðasta ári og mér kæmi á óvart ef samanlagður kostnaður við stjórnun sjálfstætt starfandi læknastöðva í Reykjavík færi yfir 5-10% af þeirri upphæð. Þrátt fyrir þetta eru komur til sjálfstætt starfandi lækna um 400.000 á ári en tæplega 300.000 til heilsugæslunnar.“

Læknafélag Reykjavíkur fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 2009. Þess var minnst með veglegri afmælishátíð og sérútgáfu blaðs um sögu félagsins. Var það mál manna að vel hefði tekist til.

„Það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í varðandi LR á undanförnum fjórum árum var auðvitað afmælishátíðin. Þetta var mikil hátíð og læknum til sóma. Ég þreytist seint á því að bera lof á störf afmælisnefndarinnar sem ber allan heiður af því hve vel tókst til.“

Landspítalinn – rekinn eins og einkafyrirtæki

„Mér þykir mjög vænt um Landspítalann. Ég ól allan minn aldur sem læknanemi við Hringbrautina og þar starfaði ég sem unglæknir í þrjú ár eftir útskrift. Mér þykir vænt um starfsfólkið þar og í hópi lækna spítalans eru ekki aðeins kollegar mínir, heldur einnig lærifeður og fyrirmyndir. Ég held að mér hafi verið farið eins og flestum þegar ég kom heim úr sérnámi árið 2001 að ég hlakkaði mjög til að hefja störf á Landspítalanum, bæði til að innleiða þar nýja þekkingu og ný vinnubrögð og ekki síst að þjóna íslenskum sjúklingum. Reyndar viðurkenni ég að ég hlakkaði líka gríðarlega til að fá mér skyr og samloku með hangikjöti og majónesi í matsalnum. Hvað sem öðru líður rak ég mig auðvitað fljótt á vinnustaðamenningu Landspítalans: „Vert þú ekkert að setja þig á háan hest karlinn minn, hér gerum við hlutina svona . . .“  Ég skildi þetta allt betur nokkrum árum seinna eða á árunum 2007-2009 en þá tók ég meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu. Vinnustaðamenning og breytingastjórnun voru í sérstöku uppáhaldi hjá mér í náminu og mér þótti gaman að tengja þau fræði við reynslu mína af Landspítala, reyndar svo gaman að ég skellti oft á tíðum uppúr í eins manns hljóði.“

Sigurður talar tæpitungulaust um reynslu sína af Landspítalanum fyrstu árin. Hann lýsir ástandi sem vart verður kallað annað en spilling í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur opinber undanfarnar vikur og mánuði.

„Þessi fyrstu ár á Landspítalanum voru leiðinleg og ég nenni ekki að rifja þau upp hér. Menn geta gert það sjálfir með því að glugga í hvaða fjölmiðil sem er frá þessum tíma sem endurspegla deilur, fjársvelti, niðurskurð og svo framvegis. Læknar voru óánægðir, mikið var kvartað til Vinnueftirlitsins, sameining sjúkrahúsanna var erfið, sviðsstjórar - ný stétt millistjórnenda –urðu til, handvaldir af forstjóra án auglýsingar. Þannig hlutu sumir fyrirhafnarlausan frama en aðrir héldu ekki störfum sínum jafnvel þótt þeir leituðu réttar síns fyrir dómstólum. Þú mátt ekki misskilja mig svo að ég hafi persónulega eitthvað á móti þeim sem völdust í störf sviðsstjóra. Þeirra á meðal er hið mætasta fólk. Það breytir því ekki að það var einnig hið mætasta fólk sem aldrei átti kost á því að sækja um þessi störf. Þannig minnti rekstur Landspítalans í sumu tilliti á þessum árum meira á einkafyrirtæki en opinbert fyrirtæki.

Nokkur straumhvörf urðu þegar Hulda Gunnlaugsdóttir réðst til spítalans árið 2008. Hulda hafði þann kost að vera utanaðkomandi og starfsmenn úr öllum geirum spítalans tóku henni vel. Hún hafði einnig að mér fannst lag á því að vekja athygli á því góða sem spítalinn gerði og hvetja fólk með jákvæðni og viðurkenningu. Ég kynntist Huldu svolítið í gegnum starf mitt sem formaður LR og seinna þróuðust mál með þeim hætti að hún varð meðleiðbeinandi minn í MSc-rannsóknarverkefni mínu í stjórnun heilbrigðisþjónustu við Háskólann á Bifröst. Verkefnið sneri að því að athuga starfsanda lækna spítalans árið 2009 og bera saman við andann sem ríkti árið 2003. Sem betur fer höfðu ýmsar breytur þróast til betri vegar, spítalinn hafði reyndar ekki átt úr háum söðli að detta að flestu leyti. Athygli vekur þó og hlýtur að vera mönnum umhugsunarefni að árið 2009 mátu 19% lækna heildarframmistöðu  spítalans slaka, 65% í meðallagi og aðeins 2% framúrskarandi. Þá bætir ekki úr skák þegar haft er í huga að sérfræðilækningar eru kjarnastarfsemi sjúkrahússins að einn af hverjum fjórum sérfræðilæknum hafði ákveðið eða var sterklega að íhuga að yfirgefa spítalann.

Ég sé ýmislegt jákvætt vera að gerast á spítalanum nú bæði varðandi hagræðingu í rekstri og rannsóknum og ekki síður kennslu. Sviðsstjórakerfið hefur verið lagt af, sviðum fækkað og einn framkvæmdastjóri ráðinn yfir hvert svið. Auka á áhrif og ábyrgð yfirlækna. Loks hafa íslenskir læknanemar á undanförnum árum verið fullkomlega á pari við bandaríska nema í “ameríska”-prófinu svokallaða og ber að halda þeirri viðurkenningu á lofti.“

u02-fig2
„Hundrað ára afmælishátíð LR í fyrrahaust var læknum til sóma,“ segir Sigurður sem gegnt
hefur formennsku í félaginu undanfarin fjögur ár.

Launamál lækna

„Ég hef verið að lesa um það undanfarið í blöðunum að ég sé ofurlaunamaður. Jafnframt varð ég kampakátur um daginn þegar ég heyrði frá heilbrigðisráðherra að laun lækna væru um 2-3 milljónir. Ég þóttist eiga von á umtalsverðri launahækkun en svo reyndist þó ekki vera.“

Sigurður telur að eigið framlag lækna til menntunar sinnar vanmetið og kostnaðurinn sem þeir leggja í til að fullmennta sig í ákveðinni sérgrein algjörlega sniðgenginn þegar laun eru ákvörðuð.

„Það tók mig 15 ár að öðlast sérfræðiréttindi í krabbameinslækningum. Sjö ára nám í læknadeild Háskóla Íslands, (þar af eitt ár í BSc-námi í ónæmisfræði). Síðan kandídatsár til að öðlast starfsréttindi og svo önnur mögur sjö ár í sérnámi í almennum lyflækningum og loks lyflækningum krabbameina í Bandaríkjunum.

Íslenskir læknar kosta sérnám sitt erlendis sjálfir með mikilli vinnu fyrir lág laun (styrk-stipend, raunar eins og það er kallað í Bandaríkjunum) og einnig koma til framlög til háskólasjúkrahúsanna frá skattborgurum viðkomandi ríkja. Íslenska ríkið kostar því ekki krónu til sérnáms íslenskra lækna. Sérnámið er ekki lánshæft hjá LÍN og læknar standa sjálfir straum af kostnaði við ferðir og flutninga búslóðar og fjölskyldu til og frá landinu. Þegar þeir síðan koma til landsins eigandi ekkert nema námslánaskuldirnar hefja þeir feril sinn á byrjunarlaunum sérfræðilæknis sem eru nú kr. 476.239 á mánuði. Skarfar eins og ég sem eru komnir með yfir 15 ár í starfsaldur eru komnir í hæsta launaflokk sérfræðilækna með kr. 533.157 á mánuði. Menn tala mikið um að vaktir lækna séu gulls ígildi og í þeim fólginn mikill fjársjóður. Þá er þar til að taka að krabbameinslækni á Landspítala standa til boða 2-3 gæsluvaktir í mánuði. Jafnaðarkaup á þessum vöktum er nú 1910 krónur, 25 aurar á klukkustund. Ekki er greitt sérstaklega fyrir útköll eða veru á spítalanum. Þessar vaktir gefa því um 60.000-90.000 krónur í aðra hönd á mánuði. Um daginn var ég á helgarvakt og gekk stofugang laugardag og sunnudag á hóp 19 sjúklinga sem voru vafalaust í hópi veikustu sjúklinga spítalans. Ég þurfti á allri minni kunnáttu í lyflækningum að halda því krabbameinssjúklingar hafa einkenni frá öllum líffærakerfum. Þessar 5-6 klukkustundir sem stofugangurinn tók mig laugardag og sunnudag hafði ég sem fyrr segir um 1910 krónur á klukkustund fyrir skatt. Dóttir mín vann á sama tíma við að afgreiða kaffi og kleinur í Húsdýragarðinum fyrir 1850 krónur á tímann. Ég útskýrði fyrir henni að þessar 60 krónur sem ég hefði umfram hana endurspegluðu annaðhvort hinn annálaða launamun kynjanna eða að þetta væri einhvers konar umbun eða viðurkenning á því að það væri erfiðara að annast sjúklinga en kaffi og kleinur. Ég vil endilega líka greina hér frá þeirri gullkistu sem stofurekstur minn er. Ég er í 80% vinnu á spítalanum, mánaðarlaun 426.526 kr. Mér reiknast svo til að þegar ég tek til arð af stofunni og skattahagræði vegna ehf. gefi stofan af sér um 60.000 krónum meira brúttó í laun á mánuði en ég hefði fyrir 100% starf á Landspítala, eða rúmar 30.000 krónur í vasann. Þetta er ekki há upphæð og skýrir líklega af hverju aðeins tveir krabbameinslæknar á Íslandi hafa fyrir því að vera á stofu. Sjúklingarnir kunna þó vel að meta þetta og þykir gott að vera í eftirliti annars staðar en á Landspítala þar sem þeir eiga ekki endilega góðar minningar frá krabbameinslyfjameðferðinni eða eru minntir á hana innan um veikt fólk á biðstofunni. Mér þykir sjálfum gott að vinna einn dag í viku í Læknasetrinu því þar hef ég góðan aðgang að læknum úr öllum sérgreinum á kaffistofunni og auðvelt er að leita til þeirra um ráð og leysa ýmis mál varðandi sjúklinga á innan við 60 sekúndum. Í samantekt myndi ég því segja að þeir ungu Íslendingar sem hafa hug á komast með mikilli fyrirhöfn í erfitt og illa launað starf á Íslandi ættu sterklega að íhuga krabbameinslækningar.“

Flutningarnir . . .

Í umræðunni undanfarið ár hefur oft verið bent á að læknar eiga auðveldara en flestar aðrar stéttir með að taka sig upp og flytjast af landi brott. Skýringin er einföld. Þeir leita iðulega aftur á þann stað þar sem þeir stunduðu sérnám, þar eru þeir öllum hnútum kunnugir, eiga vini og kollega, og sóst er eftir kröftum þeirra. Þessi lýsing á ágætlega við reynslu Sigurðar.

„Árið 2007 bárust mér bæði tölvupóstar og símhringingar frá mínu gamla sjúkrahúsi í Madison Wisconsin vegna áhuga þeirra á að fá mig í vinnu og reyndar líka frá tveimur öðrum stöðum, Ames í Iowa og La Crosse í Wisconsin, en á þessum stöðum starfa læknar sem voru með mér í sérnáminu á sínum tíma. Mér þótti vænt um að þeir skyldu hugsa til mín en sagði þeim að ég væri nýtekinn við starfi sem formaður læknafélagsins á staðnum og hygðist gegna því til 2010. Það væri hins vegar sjálfsagt að endurskoða málin þá. Síðan líður tíminn, hér verður hrun og forstjóri Landspítalans boðar uppsagnir 200 starfsmanna á næsta ári. Vinir mínir á Gundersen-Lutheran spítalanum í La Crosse réðu lækni árið 2007 en þurftu nú á nýjum að halda og spurðu hvort ég vildi skoða málið. Ég var til í það og mér til undrunar var ég valinn úr hópi 10 umsækjenda og boðið starf þar frá og með hausti 2010 sem ég þekktist.“

Gundersen-Lutheran spítalinn er sjálfseignarstofnun, ívið stærri en Landspítalinn, segir Sigurður. Krabbameinsstofnun spítalans er mjög öflug og þar eru nú í boði yfir 160 klínískar lyfjarannsóknir fyrir sjúklinga. Samkeppnisaðilinn er Mayo Clinic í Rochester sem er í einnar klukkustundar fjarlægð. 

„Ég hlakka til að hefja störf hjá Gundersen. Reyndar viðurkenni ég að ég er með svolítinn kvíðahnút í maganum því bæði er ég búinn að leigja húsnæði mitt hér heima og húsnæði í La Crosse en grænt ljós á atvinnuleyfi er ókomið. Þetta er eins og menn þekkja, mikið pappírsflóð hjá Ameríkönum en spítalinn er með lögfræðinga í þessu og vonandi gengur þetta upp. Erfiðast þó við allt þetta brölt er að kveðja sjúklingana hér heima. Það hefur oft á tíðum verið hlaðið tilfinningum enda sambandið oft orðið langt og náið. Ég áætla að vera úti í einhver ár en snúa síðan heim aftur ef ég finn áhugavert starf á Íslandi því auðvitað er ég Íslendingur og þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

Við fjölskyldan höfum nú rætt þennan flutning í þrjú ár eða síðan 2007 svo hér er ekki um skyndiákvörðun að ræða og hrunið sem orðið hefur á Íslandi er útaf fyrir sig ekki ástæða þess að við tökum þetta skref. Þó er því ekki að neita að álit mitt eins og annarra á Íslandi hefur beðið mikinn hnekki. Við búum við slaka stjórnmálastétt. Góður kollegi minn hefur talað um „Kvosar-syndrómið“. Þar á hann við að á Alþingi sitji fólk sem hafi aldrei farið lengra en 600 metra frá Kvosinni, - þekki ekki annað en MR, HÍ og loks Alþingi. Lítil eða engin reynsla af því að búa í útlöndum eða standa á eigin fótum í atvinnulífi. Enda lýsa menn sal Alþingis gjarnan sem framhaldi á málfundafélagi Menntaskólans í Reykjavík. Við sjáum líka að á Íslandi ríkir lýðræði í orði en flokksræði á borði. Heilbrigðisráðherrann okkar hlaut 479 atkvæði í prófkjöri Vinstri-grænna fyrir síðustu Alþingiskosningar og lenti í fimmta sæti. Hún hefur því ekki umboð sitt til að vera æðsti yfirmaður heilbrigðismála á Íslandi frá þjóðinni, heldur þiggur hún það frá flokkseigendafélagi Vinstri-grænna. Þetta fyrirkomulag við val á handhöfum framkvæmdavalds er fráleitt. Við sjáum í nýlegri skoðanakönnun hve mikilla vinsælda fagráðherrarnir tveir njóta. Mikilvægt er að fara að stjórnarskrá og koma hér á þrískiptingu valdsins, aðskilja löggjafarvald og framkvæmdavald, en nú fara sömu einstaklingar í flestum tilvikum með hvoru tveggja sem hefur ekki orðið okkur til framdráttar. Það þarf auðvitað líka að koma hér á fjármálakerfi sem virkar fyrir fólk. Ég get ekki séð að ungt fólk eigi möguleika á að koma undir sig fótunum hér í dag. Í raun skilur líklega á milli feigs og ófeigs í íslensku samfélagi í dag hvort menn séu að burðast með húsnæðisskuldir á herðunum eða ekki. Persónulega tók ég 24,3 milljónir til húsnæðiskaupa rétt áður en ballið byrjaði sumarið 2004. Þetta er hagstæðasta lán sem hægt er að fá á Íslandi, í íslenskum krónum, verðtryggt og „aðeins“ 4,15% vextir. Ég ætlaði að vera snjall og greiða lánið eins hratt niður og unnt væri. Á þeim sex árum sem nú eru liðin síðan ég tók lánið hef ég greitt rúmar 10 milljónir inn á höfuðstólinn. Árangurinn af því nú er sá að í stað þess að hann hefði lækkað um einhverjar milljónir eins og maður hefði vænst í siðuðu samfélagi er hann nú  kominn í rúmlega 31 milljón króna. Mér þykir ólíklegt að ungt fólk flykkist hingað heim úr námi uppá þessi kjör nema þá að því hafi tæmst einhvers staðar góður arfur.“

Framtíðin . . .

Sigurður kveðst bjartsýnn maður og síst vilji hann vera með eitthvert svartagallsraus. Engu síður sé nauðsynlegt að vera raunsær.

„Framtíðin er björt og Íslendingar eru að vakna til meðvitundar um hvernig þjóðfélag við viljum. Í raun minnir margt af því sem nú er að gerast á það góða íslenska samfélag jöfnuðar sem ég ólst upp í. Það eru mikil umskipti framundan innan stjórnmálastéttarinnar og er það vel. Sú krafa verður gerð að menn valdi þar hlutverki sínu eins og annars staðar. Forvitnilegt verður að sjá hvort kunningjasamfélagið haldi velli, kannski erum við of fá til að það breytist. Fámennið hefur hins vegar reynst okkur dýrkeypt. Ég vona að við berum gæfu til að aðskilja löggjafar- og framkvæmdavald. Stjórnsýsla í dag er flókin og fólk þarf eitthvað meira en bara brjóstvitið til að valda henni. Við erum að læra þetta hægt og rólega, „the hard way“.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica