05. tbl. 96.árg. 2010
Umræða og fréttir
FÍFL vakna úr vetrardvala
Vordagskrá félagsins hófst með inngangsfyrirlestri Tómasar Guðbjartssonar um háfjallaveiki á Hótel Nordica. Breski gjörgæslulæknirinn Michael Grocott flutti síðan erindi um háfjallarannsóknir sínar á Everest. Um 650 manns sóttu dagskrána og voru fjölmargir læknar og læknanemar í hópi áheyrenda.
Hópmynd af FÍFLum við gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, frá vinstri:
Engilbert Sigurðsson, Gunnlaugur Helgason, Jón Trausti Sigurðarson,
Inga Lára Ingvarsdóttir, Harpa Rúnarsdóttir, Hallgrímur Guðjónsson,
Magnús Gottfreðsson og Tómas Guðbjartsson. Ljósmynd Finnur Sveinsson.
Gosið á Fimmvörðuhálsi í seinni hluta mars gaf FÍFLum kærkomið tækifæri til að dusta rykið af gönguskónum. Laugardaginn 27. mars var gengið að gosstöðvunum frá Skógum mót köld-um norðanblæstri. Rýnt var í spúandi eldgíga og haldið meðfram nýrunnu hrauninu niður að Hrunagili. Eins og stundum áður urðu meðlimir í Jöklarannsóknarfélagi landlæknisembættisins á vegi FÍFLa, þar á meðal Steinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson, en félagi þeirra, Hallgrímur Guðjónsson, ákvað þennan dag að yngja upp og slást í för með FÍFLum.
FÍFL hefur ýmislegt á prjónunum á næstu vikum. Aðra helgina í maí, 14.-16. maí, stendur til að ganga á Þverártindsegg í Vatnajökli. Helgin á eftir er til vara ef illa viðrar. Gos í Eyjafjallajökli kann að setja strik í reikninginn. Gist verður tvær nætur í bændagistingu á Hala í Suðursveit. Að morgni laugardags verður ekið á jeppum torfarna leið inn Kálfafellsdal og þaðan gengið á Eggina (1554 m), framhjá skriðjöklinum Skrekk. Gönguleiðin er frekar brött en tekið skal fram að ekki er um klifur að ræða. Gangan tekur um 10-11 klst. Nauðsynlegt er að hafa meðferðis mannbrodda og ísöxi. Aðalfararstjóri verður Þorvaldur Þórsson hátindahöfðingi. Hámarksfjöldi þátttakenda er 20.
Gengið á Þverártindsegg. Mynd: Valgerður Rúnarsdóttir.
Nánari upplýsingar um þessa ferð og aðrar ferðir á www.facebook.com (leita undir FÍFL). Einnig er hægt að fá upplýsingar hjá undirrituðum.
Að lokum má geta þess að í apríl birtist vísindagrein eftir nokkra meðlimi FÍFL í High Altitude Medicine and Biology. Það eru niðurstöður úr rannsóknarleiðangri íslenskra og sænskra lækna á tind næsthæsta fjalls Alpanna, Monte Rosa (4559 m) í ágúst 2008. Í leiðangrinum voru meðal annars gerð taugasálfræðipróf og mælingar á ensíminu S-100B í blóði. Þekkt er að ensímið sé losað í blóð við súrefnisskort og sjúkdóma í miðtaugakerfi, svo sem heilablóðfall. Ágrip úr greininni er á Pubmed www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/20367486. Greinina má sjá í heild sinni á vef bókasafns Landspítala.