04. tbl. 96.árg. 2010

Umræða og fréttir

Skrifuð með blýanti. Viðtal við Jón Sigurðsson svæfingalækni í tilefni af útkomu bókar hans um sögu svæfinga á Íslandi í 150 ár

Spennusagan á náttborðinu varð að víkja. Bókin ,,Svæfingar á Íslandi í 150 ár. 1856-2006“ eftir Jón Sigurðsson svæfingalækni hélt mér vakandi til klukkan fjögur að nóttu. Hún var hverrar mínútu virði. Útgáfudagur bókarinnar var 19. mars síðastliðinn og var hún kynnt á 12. vísindaþingi Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands. Fyrir nokkuð dómharðan og svolítið ósanngjarnan sagnfræðing eins og ritara þessa orða er óvenjulegt að geta sagt hreinskilnislega að bókin er nánast óaðfinnanlega unnin sem sagnfræðirit, það sem gerir útslagið er að hún er vel skrifuð og áhugaverð. Einhvern veginn grunar mig að þeir sem eiga læknisfræði að sérgrein, en ekki sagnfræði, eigi eftir að finna fyrir sömu fagmennsku í vinnubrögðum Jóns á sínu sviði.


u2-fig1
Jón á skrifstofu sinni þar sem hann skrifaði bókina með blýantinn góða í hendi.
Mynd AÓB.

Þess vegna er einkennilegt til þess að hugsa að bókin mun ef til vill ekki rata á mörg önnur náttborð en borð svæfingalækna, skurðlækna, hjúkrunarfræðinga í sömu fögum, slangurs annarra lækna, einhverra vina og vandamanna höfundarins. Mögulega nokkurra stálheppinna Íslendinga sem þefa bókina uppi af einhverjum óvenjulegum ástæðum. Hún er ekki á leið í almenna sölu, ólíklegt að hún verði auglýst að einhverju ráði og markhópurinn ætti strangt til tekið að vera þröngur. Bókin fjallar um sérgrein innan læknisfræðinnar í fámennu landi og er rituð á tungu sem fáir tala.

Þetta síðasttalda er reyndar ekki allskostar rétt, því fyrstu drögin að bókinni voru þýdd úr þremur norrænum tungumálum og byggðust á kafla sem Jón skrifaði í afmælisrit Félags norrænna svæfingalækna sem út kom árið 1999. Sú bók heitir ,,150 år med nordisk anestesiologi“.

Þegar allt breyttist

Jón var búinn að semja uppkast að handriti íslenska kafla hinnar samnorrænu bókar er hann fór á ritnefndarfund ásamt öðrum höfundum norrænu bókarinnar þann 6. desember 1998. Hann hugðist halda skrifunum áfram meðfram erilssömu starfi sínu á Landspítalanum. Tveimur vikum síðar breyttust öll hans áform. Hann lenti í alvarlegu bílslysi á Keflavíkurveginum og lá á gjörgæslu í sjö vikur. Afleiðingar slyssins voru lömun sem hefur bundið hann við hjólastól æ síðan og skert hreyfigetu og kraft beggja handa. Jón minnist þess að þegar hann var að koma til meðvitundar eftir erfið veikindi fór hann að hafa áhyggjur af því hver gæti komið í hans stað í vinnu hans á Landspítalanum. ,,Ég hélt ég væri ómissandi og hugsaði: Hver á nú að gera það sem ég á að gera? En maður kemur í manns stað og deildin hefur fúnkerað alveg ágætlega eftir að ég hætti.“ Lífið hélt áfram. Jón hafði vitanlega engan tíma né möguleika til að velta bókarkafla í norrænni bók fyrir sér fyrst eftir slysið. Endurhæfingin og aðlögun að allt annars konar lífi tók allan hans tíma og þrek. Hann var á Grensásdeild og leið ekki vel. ,,Ég var dapur, í sálrænni krísu, fannst ekkert ganga og vissi svo sem hvað mín biði.“ Hann fékk þó ekki lengi að vera í friði með hugsanir sínar, aðeins rúmu ári eftir að hann slasaðist, 1. janúar árið 2000, hóf hann störf hjá Tryggingastofnun í 20% starfi. ,,Sigurður Thorlacius tryggingayfirlæknir kom til mín á Grensásdeild, við vorum málkunnugir af Landspítalanum. Ég hélt að hann væri að koma og gera örorkumat en þá sagði hann: Jón, hvenær viltu byrja að vinna? Hann spurði ekki einu sinni hvort ég vildi það.“  Aðjúnktsstaðan í læknadeild, sem Jón hafði nýverið tekið að sér þegar slysið átti sér stað, hefur verið framlengd um tvö ár í senn allt frá því hann fór að geta sinnt kennslu. Það er sem betur fer ekki hátt starfshlutfall, nokkrir tímar á hverjum vetri og prófdómaraskyldur. Jón var líka fljótt kominn í gang með ritstörf, fyrst til að ljúka kaflanum í norrænu bókina, sem hann hafði verið kominn vel á veg með er hann lenti í slysinu. Ritstjóri bókarinnar hafði samband við Jón þegar leið að útgáfunni og einhvern veginn tókst að ljúka kaflanum, þótt allt of skammt væri um liðið frá því hann lenti í slysinu.  

Það vakti athygli að Jón skrifaði sinn kafla á þremur norrænum tungumálum, sænsku, dönsku og norsku. Hann er áhugamaður um tungumál og eftir námsárin í Svíþjóð hafði hann náð góðum tökum á sænsku, dönsku hafði hann lært eins og flest íslensk börn í skóla og loks hafði hann lært norsku eftir stutta dvöl við afleysingar í Þrándheimi. Og út kom norræna bókin með kafla Jóns á sínum stað.

,,Ég held ég geti sagt að niðurstaðan hafi verið ásættanleg og annað var ekki í boði miðað við skilatíma í þessa bók.“ Ásættanlegt var þó greinilega ekki nóg í huga Jóns og hann fór þess vegna að velta því fyrir sér hvort einhvers konar íslensk útgáfa í eða á vegum Læknablaðsins kæmi til greina.

 u2-fig2
Salurinn reis á fætur og fagnaði þegar Jón hafði lokið erindi sínu um sögu
svæfinga á Íslandi á ráðstefnu Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og
gjörgæslulæknafélags Íslands en Kári Hreinsson hvíslaði einhverju að
honum í sama mund. Mynd AÓB.

Á eigin forsendum

Þegar hann fór að vinna í íslensku útgáfunni komst hann fljótt að því að miklu meira efni var til um svæfingar á Íslandi en hann hafði gert sér grein fyrir og hann væri kominn með efni í bækling eða jafnvel heila bók. ,,Ég gat unnið við bókarskrifin á mínum eigin forsendum og þegar það hentaði mér. Stundum þegar aðrir horfðu á sjónvarpið fór ég inn í tölvu og kíkti á bókina. Ég vann þetta í ígripum með löngum hléum eins og ég segi frá í formálanum.

Fyrst fletti ég Læknablaðinu frá 1915, síðu fyrir síðu, og það var mikið verk. Ég hugsaði oft til þess að það væri nú til bóta ef það væri almennilegt efnisyfirlit til yfir efni blaðsins. Það var ekki fyrr en ég var komin í gegnum þrjátíu árganga að ég fann einmitt það sem ég hafði verið að hugsa um: Efnisyfirlit yfir alla árgangana sem ég var búinn að blaða í gegnum. En það hafði ákveðna kosti að hafa lagt í þá vinnu, ég fann ýmislegt sem efnisyfirlitið hefði ekki gefið mér upp.

Staða svæfinga á Íslandi var óásættanleg lengi vel. Allt of margir fylgikvillar og dánartíðni sennilega langt umfram það sem hefði átt að vera. Það er merkilegt að fyrsti sérmenntaði svæfingalæknirinn hafi ekki komið til starfa hér á landi fyrr en árið 1951, það var Elías Eyvindsson en hann flutti síðar vestur um haf með bandarískri eiginkonu sinni. Hann stundaði framhaldsnám við hina heimsfrægu Mayo Clinic í Rochester í Minnesota í Bandaríkjunum. Stuttu seinna komu tveir aðrir sérfræðingar á sviði svæfinga.“

u2-fig3

Aðalstræti 14 á Akureyri, fyrsta sjúkrahúsið á Akureyri (1873-1899).
Líklegt er að þar hafi Jón Finsen læknir gert aðgerðir og meðal þeirra
fyrstu aðgerðina á Íslandi þar sem svæfing var notuð. Sú aðgerð var á
fimmtán ára stúlku árið 1856. Ljósmyndari: Hallgrímur Einarsson.


Litlu munaði reyndar að saga sérgreinarinnar hæfist liðlega áratug fyrr. ,,Sir Robert Reynolds Macintosh, nýsjálenskur læknir, sem segja má að hafi verið einn af þeim fremstu í Evrópu í svæfingalækningum, kom til Íslands sumarið 1939. Eitt af því sem hann rak augun strax í var að á Íslandi var engin sérþekking í svæfingum. Það má með sanni kalla hann Íslandsvin því hann bauð einum til tveimur Íslendingum að koma til Oxford og læra svæfingar án endurgjalds og allur kostnaður yrði greiddur. Því miður varð enginn til að þiggja þetta höfðinglega boð og allir vita hvað gerðist þann 1. september þetta ár, heimsstyrjöldin hófst og þar með varð ekkert úr þessu.

Sir Robert lét ekki þar við sitja heldur útvegaði fyrsta ,,stállungað“ til Íslands, en það kom til landsins í ársbyrjun 1940.“ Um þetta merkilega stállunga, sem fæstir vita lengur hvað er, er nánar fjallað í bókinni. ,,Það vaknar auðvitað sú spurning hvað hafi valdið þessu áhugaleysi lækna á svæfingum og ég held að hluti skýringarinnar hafi verið að svæfingar þóttu ekkert merkilegar.“

 u2-fig4

Stjórn Svæfingalæknafélags Íslands árið 1988 ásamt heiðursfélaganum
Þorbjörgu Magnúsdóttur. Frá vinstri eru Ólafur Z. Ólafsson, Þorbjörg,
Guðmundur Björnsson, Jón Sigurðsson, Arnaldur Valgarðsson.
Úr safni Ólafs Z. Ólafssonar.

,,Þá skalt þú svæfa í dag”

,,Dæmin um virðinguna fyrir svæfingum er fjöldamörg, og þeir sem voru látnir sjá um svæfingar af ýmsu tagi, allt frá presti á Patreksfirði til kandídata og ljósmæðra sem sum hver önnuðust svæfingar árum saman.

Jóhann Guðmundsson, sem síðar varð bæklunarskurðlæknir, sagði frá því að þegar hann var læknastúdent og kom í fyrsta sinn inn á skurðstofu á Landspítalanum spurði Katrín Gísladóttir yfirhjúkrunarkona hann: ,,Hefur þú komið á skurðstofuna áður?“ Hann neitaði því. ,,Þá skaltu svæfa í dag,“ sagði hún að bragði. Þannig var nú metorðastiginn, það var ekki læknum bjóðandi að sinna svæfingum.“

Þótt fyrsti sérmenntaði svæfingalæknirinn hafi komið til starfa 1951 var þróunin í faginu hæg framan af og sláandi að skoða súlurit um sérfræðiviðurkenningar í bók Jóns. ,,Það var í rauninni ekki fyrr en upp úr 1980 að þessi mál komust í það horf sem hægt er að sætta sig við. Allar lækningar fela í sér áhættu og jafnvel eftir 1970 áttu sér stað alvarlegir fylgikvillar sem koma hefði mátt í veg fyrir með meiri sérþekkingu. Verkaskipting felur það í sér að menn verða smátt og smátt betri í því sem þeir eru að gera og svæfingar eru þar engin undantekning.“

Útgáfudagurinn nálgast

Er útgáfudagurinn nálgaðist var Jón hóflega bjartsýnn á að takast myndi að koma bókinni tímanlega út. ,,Það er ekki fyrr en frá síðustu áramótum sem ég hef verið að miða við ákveðinn skiladag. Kári Hreinsson, formaður Félags svæfinga- og gjörgæslulækna, hafði samband við mig snemma á árinu og þá ákváðum við útkomudaginn.“ Jón átti náið samstarf með umbrotsmanni bókarinnar, Þresti Haraldssyni fyrrverandi blaðamanni á Læknablaðinu, um framvinduna. Hjólin voru farin að snúast hratt og vel gekk að hnýta þá lausu enda sem þörf var á, skera niður myndefni og fylla inn í seinustu eyðurnar. Þrátt fyrir það hafði Jón til síðustu stundar fyrirvara á því að ýmislegt gæti komið upp á en loks var hann farinn að sjá að fátt gæti tafið útkomu bókarinnar annað en prentsmiðjan hreinlega brynni. Það gerðist ekki, hins vegar bilaði ný og fullkomin prentvél prentsmiðjunnar meðan á vinnslu stóð og sannaði mál Jóns. Engu að síður tókst að koma bókinni út á réttum tíma og daginn fyrir formlegan útkomudag bárust fyrstu eintökin í hendur Jóns og fjölskyldu hans. Verkinu, sem Jón hafði verið að púsla saman seinustu átta árin, var lokið. ,,Ég er með fullkomnunaráráttu, sem er bæði kostur og galli,“ segir Jón. ,,Það er ein af ástæðunum fyrir því að bókin kom ekki út fyrr. Samt tókst mér að ljúka verkinu og er feginn að ég gerði það ekki fyrr. Ég var að skoða gamalt handrit í tölvu og hefði ekki verið sáttur við að gefa bókina út á því stigi.“ Útgáfudagurinn var ánægjulegur en lýjandi og sennilega kom athyglin Jóni og Ásdísi eiginkonu hans á óvart. ,,Þegar bókin kom í hús á útgáfudeginum var búið um þau í kassa sem var límdur aftur og beið opnunar klukkan fimm síðdegis. Hann var settur upp á borð og borði strengdur um hann. Síðan var klippt á þennan borða eins og verið væri að opna nýjan veg eða brú og bókinni kippt upp úr kassanum.“

Jón og fjölskylda hans stóðu að öllu leyti straum að kostnaði við útgáfu bókarinnar en hafa fengið vilyrði um styrki til að mæta útlögðum kostnaði við prentun og umbrot, góð viðbrögð komu strax frá fagfélagi hans Svæfinga- og gjörgæslulæknafélagi Íslands og fleiri hafa lýst áhuga á að koma þar að. Aðrir styrkir, svo sem frá lyfjafyrirtækjum, sem oft standa læknum til boða í verkefni af ýmsu tagi, komu ekki til greina af hans hálfu. Vinna Jóns í átta ár, þó með hléum sé, verður framlag hans til fræðigreinarinnar og hann sér ekki eftir því að hafa lagt þennan tíma og vinnu að mörkum. ,,Þetta verkefni var aldrei hugsað í ágóðaskyni. Tekjur mínar hef ég aðallega úr lífeyrissjóði lækna og vegna þessara tveggja hlutastarfa sem ég er í. Þau störf vinn ég heldur ekki mér til framfærslu heldur frekar til að vera áfram virkur í faginu.“

 u2-fig5

Svæfingarútbúnaður á Landakoti. Systir Benedicta gaf Hjúkrunarfélagi
Íslands þessa muni árið 1972. Mynd Margrét Jóhannsdóttir.

Með blýanti

Það er fleira en efni bókarinnar sem gerir hana einstaka í sinni röð. ,,Þessa bók skrifaði ég með blýanti,“ segir Jón sposkur á svip og leiðin liggur inn á skrifstofu hans þar sem enn má sjá gögn er tengjast efni bókarinnar. Á miðju skrifborðinu er þó venjuleg borðtölva, skjár og lyklaborð. Jón tekur upp lítið armband með frönskum rennilás, setur um vinstri hönd og stingur blýanti í op sem ætlað er hnífapörum en hann er búinn að finna út að duga fyrir blýantinn sem hann notar til að pikka á lyklaborðið, staf fyrir staf. Strokleðrið vísar niður, það er stamasti hluti blýantsins og skrensar ekki nema stundum yfir á rangan takka. ,,Hástafatakkinn, CAPS, er reyndar alltaf að flækjast fyrir mér, hann er á afleitum stað,“ segir Jón og þarf ekki fötlun til að hafa orðið fyrir því. Á þennan hátt hefur hann með stakri þolinmæði fært allan texta bókarinnar inn í tölvuna.

Hvers vegna urðu svæfingar fyrir valinu?

Jón brosir í kampinn þegar þessi spurning er lögð fyrir hann. ,,Raunar hafði ég valið mér allt aðra sérgrein, mig langaði að verða lungnalæknir, það er að fara í lyflækningar með sérstakri áherslu á lungnasjúkdóma. En eins og svo margt í tilverunni var það fyrst og fremst tilviljun sem réði því að ég fékk áhuga á svæfingalækningum.

Þegar ég var að ljúka læknanámi var haldinn fundur í stofu 1 í Háskóla Íslands þar sem lausar stöður sem voru í boði á spítölunum fyrir kandídatsárið voru kynntar. Þar var ýmislegt í pottinum, meðal annars ein staða á Vífilsstöðum, þar sem Hrafnkell Helgason lungnasérfræðingur starfaði. Þetta var eins konar uppboð og við vorum tveir sem réttum upp hönd og sýndum stöðunni á Vífilsstöðum áhuga, Björn Magnússon og ég. Því þurfti að draga um það hvor fengi hana og ég laut í lægra haldi. Björn hélt áfram á þessari braut en ég fór á ýmsar deildir og einhvern tíma á þeirri leið fór ég að velta fyrir mér svæfingalækningum. Ég var hálft ár á barnadeildinni en um það leyti kynnist ég svæfingadeildinni og þá var ég ekki búinn að ákveða að leggja svæfingarnar fyrir mig. En þegar ég fór að vinna á svæfingadeildinni held ég að ég hafi verið búinn að gera upp hug minn. Þetta var hæfilega lítil deild og ýmsir sem þar hafa ætlað að vinna tímabundið hafa síðan ákveðið að leggja svæfingar fyrir sig. Ég var hins vegar ákveðinn þegar ég byrjaði þar og hef aldrei séð eftir því. Ég er ánægður með að hafa valið þessa sérgrein og finnst ég hafa skilað góðu dagsverki. En stundum var gríðarlegt álag á mér og núna þegar ég er sestur í helgan stein finnst mér að ég hafi stundum látið streituna ná tökum á mér og hafi verið fullharður og ósanngjarn stundum og jafnvel hreytt ónotum í fólk í þessu streitufulla andrúmslofti. Maður verður ekki meiri maður á því. Hitt getur líka gerst að maður verði að kyngja einhverju til þess að halda friðinn.

Það eru gerðar miklar kröfur til afkasta á skurðstofum og okkur pískað áfram og til að halda gæðum og öryggi þarf stundum að finna gullinn meðalveg til þess að láta ekki streituna koma niður á því sem maður er að gera.“

Norrænt samstarf

Það var ekki einskær tilviljun að Jón lenti í ritnefndinni örlagaríku því meðal trúnaðarstarfa sem honum hafa verið falin voru stjórnarseta í félagi norrænna svæfingalækna. ,,Norræna samstarfið var mjög gefandi og ég var í stjórn félags norrænna svæfinga- og gjörgæslulækna í um það bil áratug. Ég átti ágæta vini frá námsárunum í Svíþjóð og hef tvisvar farið og unnið um hríð í Noregi og eignast þar vini. Norrænu svæfingalæknarnir gefa út blað sem kemur út á ensku. Það er með ráðum gert því norrænir læknar eru útverðir þekkingar í faginu í norðri og vilja gjarnan hafa áhrif á þróun þess og mynda þannig mótvægi við ameríska hefð annars vegar og miðevrópska og breska hefð hins vegar, en þessi tvö svæði hafa haft einna mest áhrif á mótun svæfingalækninga.“

Og nú hefur lítil, norræn þúfa velt þungu hlassi og afraksturinn má lesa í bók Jóns, sem vonandi ratar í hendur sem flestra.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica