02. tbl. 96. árg. 2010

Umræða og fréttir

Mikilvægt tækifæri til endurmenntunar - um Læknadaga 2010

Þátttaka í Læknadögum 2010 var með mesta móti í ár þó ekki lægju endanlegar tölur fyrir þegar Læknablaðið fór í prentun. Margrét Aðalsteinsdóttir sagðist telja líklegt að um 800 manns hefðu skráð sig en erfitt væri að segja til um þátttöku frá einum degi til annars þar sem langflestir hefðu keypt vikuaðgang. Í opnunarræðu Læknadaganna sagði Arna Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands að fjárhagur Læknadaganna væri erfiðari en áður, eigið fé væri minna og framlag stuðningsaðila einnig. Því hefði verið gripið til þess ráðs að allir þátttakendur aðrir en erlendir fyrirlesarar skyldu greiða aðgangsgjald. Ekki voru allir jafnsáttir við þessa ráðstöfun og þótti sumum eplið súrara en öðrum.

 

Gestafyrirlesari við opnun Læknadaga var Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður sem sérhæft hefur sig í blóðferlagreiningu. Hann dró ekkert undan í fyrirlestri sínum, hvorki í máli né myndum, og rakti skilmerkilega hvernig hægt er að endurskapa atburðarás við ofbeldisglæpi með því að greina blóðferla á glæpavettvangi. Hann lagði áherslu á mikilvægi samstarfs lögreglunnar og lækna við þessi störf.


Gagn og ánægja

Þétt dagskrá Læknadaganna stóð alla fimm dagana frá morgni til kvölds og hafi einhver getað stundað dagskrána að fullu er óhætt að segja að sá hinn sami hafi fengið aura sinna virði. Blaðamaður gaf sig á tal við gesti  í fyrirlestrarhléum og forvitnaðist um hvað þeim þætti bitastæðast við Læknadagana. Hvorki var um formlega skoðanakönnun að ræða né vandlega unnið úrtak þátttakenda.

u05-magnusMagnús Gottfreðsson: Læknadagar gegna ótvírætt mikilvægu hlutverki endurmenntunar og ekki síður félagslegu. Það á kannski sérstaklega við núna því í því árferði sem við búum við eru eflaust margir sem hika við að fara erlendis og í því ljósi er samkeppnishæfni Læknadaganna meiri en áður. Mér finnst líka gaman að kynna mér nýjungar í öðrum greinum en minni eigin sérgrein. Það er svo mikil breidd í dagskránni að hér gefst mjög gott tækifæri til þess.



u05-einarEinar S. Björnsson: Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt í Læknadögum en ég hef verið búsettur erlendis í 20 ár. Lengst af í Gautaborg. Nú er ég fluttur hingað aftur og tekinn við prófessorsembætti í meltingarlækningum.Ég hef haft bæði gagn og ánægju af Læknadögunum. Ég tók sjálfur þátt í mjög gagnlegu málþingi um lyfjanotkun þar sem rætt var um hvernig draga mætti úr kostnaði við lyfjanotkun, um fjöllyfjameðferð og bætta nýtingu lyfja svo eitthvað sé nefnt.



u05-mariaMaría Heimisdóttir: Læknadagarnir eru frábært tækifæri til að hitta kollegana og kynna sér hvað er efst á baugi í hinum ýmsu greinum. Þetta er bæði lærdómur og ánægja. Tækifærin til endurmenntunar eru eflaust færri núna og mikilvægi Læknadaganna því enn meira en áður. Kosturinn við Læknadaga í samanburði við erlend þing er einnig sá að hér er maður ekki í burtu samfellt í marga daga.



u05--leifurLeifur Bárðarson: Læknadagarnir eru mjög gott tækifæri til að kynna sér hvað er að gerast almennt í íslenskri læknisfræði. Hér gefst tækifæri fyrir stéttina til að bera saman bækur sínar og ræða á almennum nótum um hvað leggja eigi áherslur á í framtíðinni. Mér finnst tónninn í fólkinu vera þannig að mikilvægi Læknadaganna sé enn meira en áður vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Aðsóknin er góð og hér er svo margt í boði að maður þarf sannarlega að skipuleggja sig með góðum fyrirvara til að geta sótt allt sem vekur áhuga.


u05-To¦umasTómas Helgason: Það er stórkostlegt hvað þetta er vel skipulagt og margt í boði. Þetta sýnir ótvírætt hvað er mikið í gangi í íslenskri læknisfræði, hvað íslenskir læknar kunna mikið og eru duglegir. Ég er orðinn svo gamall að ég get sagt þetta en Læknadagarnir eru svo sannarlega andleg upplyfting fyrir mig og halda mér vakandi fyrir því sem er efst á baugi. Svo er líka mjög gaman að hitta gamla kunningja og spjalla við þá.



u05-Einar-krEinar Kristinn Þórhallsson: Ég bý og starfa sem meltingarsérfræðingur í Smálöndunum í Svíþjóð en hef alltaf reynt að koma og vera á Læknadögunum. Þetta er mjög gott tækifæri til að hitta gamla félaga og sjá og heyra hvað er verið að gera hér. Þetta er mjög gott þing núna og mjög margt í boði. Ég reyni helst að kynna mér annað en það sem snýr sérstaklega að minni sérgrein því tækifærin eru mörg til að komast á sérstök meltingarlæknaþing. Ég hef verið búsettur í Svíþjóð meira og minna samfellt síðan ég hóf sérnám þar 1981, bjó svo hér á Íslandi í tvö ár en flutti aftur út til Svíþjóðar 1991.


Á rás fyrir Grensás

Á fimmtudagsmorgni Læknadaga var blásið til Læknahlaups og mættu nær 50 manns í anddyri Laugardalslaugar klukkan rétt rúmlega sjö til að hlaupa fimm kílómetra í hvössu roki meðfram Sæbrautinni. Þátttökugjaldið rann óskert til stuðnings Grenásdeildarinnar og söfnuðust með þessu nær 100.000 krónur í þágu þessa góða málefnis.

Enginn lét veðrið á sig fá og fauk hópurinn undan vindi þar til snúið var upp í rokið við tónlistarhúsið nýja og tók þá við barningur til baka. Tilhugsunin um vel útilátinn morgunverð í boði Metronics, eins stuðningsaðila Læknadaganna, hélt hlaupurum við efnið og allir komu þeir aftur.

Fyrstur í karlaflokki varð 5. árs læknaneminn Stefán Guðmundsson sem er reyndar í hópi bestu hlaupara landsins. Næstur í mark var Óskar Jakobsson en fast á hæla honum kom Magnús Gottfreðsson sem er í hópi okkar bestu maraþonhlaupara. Stefán hlaut forláta Nike hlaupaskó í verðlaun fyrir árangurinn.

Í kvennaflokki kom fyrst í mark Jakobína Guðmundsdóttir en hún er er systir Örnu Guðmundsdóttur og þessi fjölskyldutengsl urðu til þess að Arna aftók með öllu að veita Jakobínu verðlaun fyrir árangurinn. Það hefði mátt túlka sem klíkuskap sagði Arna af fullkomnu miskunnarleysi. Næstu tvær konur í mark voru Halldóra Hálfdanardóttir og Þórunn Selma Bjarnadóttir og síðan tíndust þátttakendur í mark hver af öðrum, allir ánægðir með árangurinn, enda skiptir mestu í þessu samhengi að vera með og hugsanlega bæta sinn persónulega árangur. Eflaust verður þetta endurtekið að ári og þá með stóraukinni þátttöku.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica