01. tbl. 96. árg. 2010
Fræðigrein
Slys meðal sjómanna á Íslandi árin 2001-2005
Fatal accidents and non-fatal injuries amongst seamen in Iceland 2001-2005
Ágrip
TilgangurSjómennskan er eitt hættulegasta starf samfélagsins. Árin 1966-1989 létust 89/100.000 sjómenn/ári á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var að kanna í forvarnarskyni aðdraganda og umfang slysa á sjó við Ísland á árunum 2001-2005.
Efniviður og aðferðir: Kannaðar voru tilkynningar til rannsóknarnefndar sjóslysa og
Tryggingastofnunar ríkisins og yfirfarin NOMESCO slysaskrá á bráðamóttöku Landspítala. Þar eru upplýsingar um orsakir slyss, áverka, starfsreynslu hins slasaða, veðurlag, sjólag, tegund veiða, tegund skips og fleira. Metin var áverkaskor innlagðra (Injury Severity Score).
Niðurstöður: Á tímabilinu urðu 17 banaslys, þar af 14 starfstengd, sem jafngildir 54/100.000 sjómönnum/ári. Tryggingastofnun bárust 1787 tilkynningar, að meðaltali 357 á ári (7% starfandi sjómanna). Alls voru 223 metnir til varanlegrar örorku (meðaltal 14,7%). Til slysa- og bráðadeildar Landspítala leituðu 826, 52 voru lagðir inn og var áverkaskor þeirra að meðaltali 5,5 (1-16). Flest slysin (87%) urðu á fiskiskipum, þar af 51% á togurum. Slysin urðu oftast í góðu veðri, við dagsbirtu og hjá reyndum sjómönnum. Algengastir voru áverkar á útlimum, sérstaklega á höndum.
Ályktun: Slys eru tíð meðal sjómanna en banaslysum hefur fækkað talsvert síðustu áratugi. Flest slys verða á fiskiskipum við góðar aðstæður hjá reyndum sjómönnum sem bendir til þess að huga þurfi að vinnuaðferðum um borð.
Inngangur
Fiskveiðar eru ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslendinga þar sem sjávarafurðir voru 42% af útflutningsverðmætum þjóðarinnar árið 2007.1 Sjómannsstarfið er því þjóðhagslega afar mikilvægt þar sem umfangsmiklar fiskveiðar eru stundaðar við Ísland auk þess sem miklir millilandaflutningar eiga sér stað allt árið um kring. Um 2000 skip og bátar eru skráð á Íslandi, flest fiskiskip, en um 5000 manns hafa atvinnu á sjó hér á landi, auk íslenskra kaupskipasjómanna sem sigla að og frá landinu á erlendum skipum. Samkvæmt erlendum rannsóknum er sjómannsstarfið talið það hættulegasta í samfélaginu, þar sem skráð tíðni banaslysa er oftast hæst í þeirri starfssétt eða um 100-400 af hverjum 100.000 sjómönnum sem starfa við fiskveiðar.2-4 Tíðni banaslysa á kaupskipum er mun lægri eða 37-45 af hverjum 100.000 starfandi sjómönnum á ári.5, 6 Samkvæmt íslenskri rannsókn tímabilið 1966-1986 létust 89 af hverjum 100.000 sjómönnum árlega við störf sín og sjómönnum er einnig hættara en öðrum starfsstéttum við að bíða bana í slysum eftir að í land er komið.7 Slysavarnir hafa þó borið árangur þar sem banaslysum fækkaði á tímabilinu 1980-2005 úr 15 í 2,4 á ári.8
Tíðni vinnuslysa, annarra en banaslysa, er einnig mun hærri hjá sjómönnum en í flestum öðrum starfsgreinum.9 Samkvæmt skýrslu frá Evrópusambandinu er tíðni vinnuslysa sem leiða til meira en þriggja daga vinnutaps hæst við fiskveiðar eða um 2,4 sinnum algengari en hjá verkamönnum í byggingarvinnu sem talin er hættulegasta starfsgreinin í landi.10 Slys um borð í fiskiskipum verða oftast við meðhöndlun veiðarfæra.2, 9 Ekki hafa verið birt gögn um slys önnur en banaslys hjá íslenskum sjómönnum.
Þegar þessi rannsókn var gerð voru slys á sjó skráð skipulega á þremur stöðum á Íslandi. Skylt er samkvæmt lögum að tilkynna öll slys á sjó til rannsóknarnefndar sjóslysa (RNS). Bótaskyld vinnuslys þarf að tilkynna til Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og þá þurfa að fylgja með upplýsingar um aðdraganda og aðstæður slyssins. Á slysa- og bráðadeild Landspítala eru allar komur vegna slysa skráðar samkvæmt norræna slysaskráningarkerfinu (NOMESCO) en þar er að finna sérstakan íslenskan undirflokk fyrir slys á sjó þar sem ýtarlega er greint frá orsök, aðdraganda og ytri aðstæðum er slysið varð.
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna umfang slysa á sjómönnum hér á landi árin 2001-2005 með því að yfirfara þessar skráningar, afla sem bestra upplýsinga um orsakir og við hvaða aðstæður slysin urðu og hvaða afleiðingar þau höfðu í för með sér. Slíkar upplýsingar mætti nýta í forvarnarstarfi til að auka öryggi sjófarenda.
Efniviður og aðferðir
Að fengnu leyfi Persónuverndar og Vísindasiðanefndar var farið yfir öll slysatilvik á árunum 2001-2005 sem skráð voru hjá RNS, TR eða í norræna slysaskráningarkerfið sem komur vegna slysa á sjó. Við athugun á banaslysum á sjó var notast við skýrslur RNS um banaslys sem orðið hafa um borð í skipum og bátum í íslenskri eigu. Hjá TR fengust upplýsingar um fjölda tilkynninga vegna bótaskyldra slysa hjá sjómönnum, fjölda þeirra sem metnir voru til varanlegrar læknisfræðilegrar örorku og hversu mikil hún var. Úr norræna slysaskráningarkerfinu sem er framvirk skráning fengust upplýsingar um tímasetningu slyss, tegund skips, aðgerð skips þegar slys átti sér stað, upplýsingar um veðurfar (vindhraða, skyggni, úrkomu, sjólag), starfsreynslu hins slasaða og hvort slysið leiddi til innlagnar á sjúkrahús. Ennfremur var skráð hvar í skipinu slysið varð, orsök, ytri aðstæður og hvaða líkamssvæði varð fyrir áverka. Fyrir þá sem lögðust inn á sjúkrahús vegna áverka var reiknað áverkaskor samkvæmt ISS-kerfi (injury severity score)11 þar sem líkamanum er skipt í sex svæði og gefin 1-6 áverkastig (abbreviated injury scale) fyrir hvert þeirra eftir alvarleika áverka. Stig þriggja mest slösuðu líkamssvæðanna eru síðan hafin upp í annað veldi og lögð saman.12 Samkvæmt ISS-kerfinu teljast ≤3 stig lítill áverki, 4-8 stig meðaláverki, 9-15 stig mikill áverki, 16-24 stig alvarlegur áverki, ≥25 stig lífshættulegur áverki en við 75 stig eru lífslíkur engar og áverkar leiða til dauða.
Upplýsingar um fjölda manna starfandi við fiskveiðar á árunum 2001-2005 eru fengnar úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands og eru birtar þar með öðrum hagtölum á heimasíðu Hagstofunnar.13 Rannsóknargögn voru unnin með Excel töflureikni.
Niðurstöður
Rannsóknarnefnd sjóslysa
Til rannsóknarnefndar sjóslysa voru tilkynnt samtals 17 banaslys á sjó umhverfis Ísland á árunum 2001-2005 eða að meðaltali 3,4 á ári. Tíðni banaslysa á tímabilinu var því 64 á hverja 100.000 starfandi sjómenn á ári (tafla I). Í tengslum við fiskveiðar létust 13 (76,5%), einn lést við þangskurð en þrír voru ekki starfandi sjómenn. Ef einungis eru tekin starfstengd banaslys, sem voru 14, var tíðni banaslysa að meðaltali 54 af hverjum 100.000 starfandi sjómönnum á ári. Banaslysin 17 urðu á 12 skipum en 11 drukknuðu þegar sex skipanna fórust, tveir féllu útbyrðis og tveir drukknuðu í höfn. Tveir létust af áverkum eftir slys um borð. Engin banaslys urðu á kaupskipum á tímabilinu.
Tryggingastofnun ríkisins
Árin 2001-2005 voru 1787 slys á sjómönnum tilkynnt til Tryggingastofnunar ríkisins (TR) eða að meðaltali 357 á ári. Hlutfall slasaðra af starfandi sjómönnum reyndist vera svipað öll árin eða um 7% (tafla I). Alls voru 223 sjómenn metnir til örorku eftir vinnuslys, þar af 46 með 1-9% örorku, 173 með 10-49% örorku og fjórir með 50-70% örorku. Meðaltal örorkumats var 14,7% og miðgildi var 12%.
Slysa og bráðadeild Landspítala
Á slysa- og bráðadeild Landspítala voru skráðar 826 komur vegna slysa á sjó (tafla I) á tímabilinu eða að meðaltali 165 sjómenn á ári og um 3,2% starfandi sjómanna. Af þessum 826 voru 84 erlendir ríkisborgarar (10%). Meðalaldur var 37 ár (8-80 ár). Eftir komu á slysa- og bráðadeild voru 52 sjómenn lagðir inn á Landspítala eða 6,2% af þeim sem þangað leituðu. Legutími á sjúkrahúsi var að meðaltali 2,7 dagar (1-21 dagur). Þrír innlagðra sjúklinga voru ekki með áverka sem hægt var að meta með áverkaskori (tvær ofkælingar, ein eitrun). Áverkaskor 49 innlagðra var að meðaltali 5,5 stig (1-16 stig) og miðgildið var fjórir. Samkvæmt áverkaskori var áverki lítill eða í meðallagi hjá 34 (70%), mikill hjá 14 (29%) og einn var með alvarlega áverka. Enginn var metinn með lífshættulega áverka og enginn af þeim sem komust á sjúkrahúsið lést á tímabilinu.
Tæplega 70% slasaðra sjómanna reyndust hafa meira en fimm ára starfsreynslu en stærsti einstaki aldurshópurinn hafði þó starfsreynslu undir fimm árum (mynd 1).
Tegund skipa, tegund veiða og slysstaður um borð
Alls reyndust 717 (87%) þeirra sem leituðu til slysa- og bráðadeildar hafa slasast um borð í fiskiskipum og leiddu 48 slysanna til innlagnar eða 7%. Af flutningaskipum komu 52 (6,3%), farþegaskipum 14 (1,7%), varðskipum 11 (1,3%), þjónustuskipum 19 (2,3%) og af öðrum skipum 13 (1,6%). Vegna slysa um borð í skipum öðrum en fiskiskipum komu því 109 og voru fjórir þeirra lagðir inn eða 3,6%. Af þessum fjórum komu tveir vegna slysa á farþegaskipum, einn af hraðbáti og einn af seglskútu.
Af slysum um borð í fiskiskipum urðu 366 (51%) við togveiðar, 102 (14%) línuveiðar, 93 (13%) netaveiðar, 33 (5%) dragnótaveiðar, 20 (3%) nótaveiðar, 18 (3%) rækjuveiðar en 11% við annars konar veiðar en hér eru taldar. Tafla II sýnir að langflest slys verða þegar veiðarfæri eru dregin inn (28%) en algengar orsakir eru einnig viðhaldsvinna og frágangur á afla um borð. Í öðrum skipum en fiskiskipum verða slys oftast við viðhaldsvinnu (29%).
Tafla III sýnir að flest slys verða á þilfari skips eða 395 (46% af komum, en 53% ef fiskiskip eru tekin sérstaklega) en slys virðast einnig vera tíð í vinnslurými (11,5%) og lest (11%).
Veðurlag, sjólag og ytri aðstæður
Í flestum tilfellum (95%) var skráð veðurlag þegar slysið átti sér stað, eins og vindhraði, sjólag, úrkoma og skyggni. Þegar slysið varð var vindhraði <5 m/s í 501 tilfelli (63%), 5-10 m/s í 124 tilfellum (15,6%), 11-15 m/s í 99 tilfellum (12,5%), 16-20 m/s í 60 tilfellum (7,5%) og > 20 m/s í 11 tilfellum (1,4%). Meirihluti slysa (78%) varð í lítilli eða engri úrkomu og um 60% slysa urðu í dagsbirtu. Eins og sést á mynd 2 varð meirihluti slysa í fremur lygnum sjó. Í 86% tilfella var skráð hvort um ytri orsakir hafi verið að ræða, en 75% slasaðra töldu engar ytri orsakir hafa átt þátt í slysinu og aðeins 19% tilgreindu sjólag sem ytri orsök. Í 92% tilfella var tíma- og dagsetning skráð. Flest slys urðu að degi til milli kl. 10 og 18 og náði slysatíðni hámarki milli kl. 14 og 16. Slysatíðni var hæst í febrúar og mars en lægst í sumarmánuðum og í desember.
Tegundir áverka
Eins og kemur fram í töflu IV verður meirihluti áverka vegna höggs (53%), annaðhvort við árekstur eða fall, en klemma eða kramning er einnig algeng orsök. Alls voru skráðir 906 áverkar eftir 817 slys. Í 89 tilfellum voru áverkar á fleiri en einu svæði. Níu þeirra sem komu voru ekki með áverka sem hægt var að flokka á þennan hátt (rafsuðublinda, eitranir, svimi, ofkæling). Áverkar á útlimum voru 71% allra áverka, áverkar á höfuð og háls 5%, brjóstholsáverkar 9%, hryggjaráverkar 7,6%, áverkar á andliti eða augum 6,8%, kviðarholsáverkar 1% og mjaðmagrindaráverkar 0,2%. Áverkar á hendur neðan úlnliðs voru algengastir eða í 34% tilfella. Áverkar á höndum reyndust algengari um borð í fiskiskipum (37%) en öðrum skipum (20%) en skipting áverka eftir líkamssvæðum var svipuð að öðru leyti milli fiskiskipa og annarra skipa. Í samanburði við heildarhópinn reyndist hópurinn sem þurfti innlögn á Landspítala ekki frábrugðinn hvað varðar áverkamynstur, tegund veiða, veðurlag, sjólag eða aðra ytri þætti.
Umræða
Þegar niðurstöður þessarar rannsóknar eru bornar saman við eldri rannsóknir sést að banaslysum á sjó hefur fækkað mjög síðustu áratugi. Flest banaslys verða þegar skip farast og þau voru 89 á hverja 100.000 starfandi sjómenn árin 1966-19867 en reynast nú vera 54 á hverja 100.000 starfandi sjómenn að meðaltali á ári. Tíðni banaslysa lækkaði úr 15 í 2,4 á ári tímabilið 1980 til 2005.8 Umtalsverður árangur virðist því hafa náðst í slysavörnum sjómanna undanfarna fjóra áratugi. Ætla má að menntun skipstjórnarmanna og þjálfun sjómanna í Slysavarnaskóla sjómanna hafi skilað góðum árangri, en ýmsir aðrir þættir gætu skipt hér máli, eins og bætt þyrlubjörgunarþjónusta, framfarir í veðurfræði og veðurspám, framfarir í siglingatækni og almennt betri skip. Hjá Siglingastofnun hefur undanfarin ár verið unnið markvisst að því að mæla stöðugleika skipa og lagfæra ef eitthvað hefur fundist athugavert og telja menn að það hafi skilað árangri.14
Tíðni banaslysa á sjó er þó enn há í samanburði við vinnutengd banaslys í landi. Starfstengd banaslys hjá 5220 sjómönnum eru 14 á sama tímabili og tilkynnt eru 12 dauðsföll vegna vinnuslysa meðal allra starfsgreina í landi.15, 16 Í samanburði við niðurstöður erlendra rannsókna virðast starfstengd banaslys á sjó vera álíka tíð hér á landi og þau eru í Ástralíu (56/100.000)6 og Noregi (68/100.000).9
Tíðni annarra slysa en banaslysa er einnig há eins og sést á því að tilkynningar til TR vegna slysa á sjómönnum ná 7% af heildarfjölda starfandi sjómanna árlega og um 45 sjómenn eru metnir til örorku á ári eftir slys. Samkvæmt uppgjöri TR á árunum 2001-2005 voru sjómenn 21% af öllum þeim sem metnir voru með 10-49% örorku eftir slys.17 Öll slys hjá sjómönnum á að tilkynna til TR með sérstöku eyðublaði en tryggingarbótaleg staða sjómanna er sú sama og annarra launþega. Útgerðarfélög greiða sjómönnum áfram laun en fá síðan endurgreitt frá TR ólíkt því sem á við hjá öðrum starfsstéttum. Þrátt fyrir háa tíðni slysa og fjölda innlagna á sjúkrahús virðist ekki vera algengt að sjómenn slasist lífshættulega samkvæmt áverkaskori og enginn þeirra sem lögðust inn á Landspítala lést af völdum áverkanna á rannsóknartímabilinu.
Svo virðist sem verkefni manna um borð valdi slysunum frekar en veður, sjólag eða birta. Athyglisvert er að flest slys virðast eiga sér stað við góðar aðstæður, lítinn vind, tiltölulega lítinn sjó, í engri úrkomu og um hábjartan dag. Ætla mætti að skýringin væri sú að flestir væru við vinnu í góðu veðri en staðreyndin er sú að flest slys verða um borð í togurum sem eru að veiðum í öllum veðrum. Ekki er ljóst af hverju slysatíðni nær hámarki seinni part dags en hugsanlega skiptir þar máli þreyta sem fylgir vaktavinnukerfi. Íslensk rannsókn á áhrifum hvíldar á heilsu og öryggi sjómanna bendir til þess að meirihluti sjómanna vakni þreyttir og að það komi fram svefngloppur í vöku bæði seinni part nætur og seinni part dags.18 Mikilvægt er því að stuðla að því að sjómenn hafi góða hvíldaraðstöðu og fái nægilega hvíld á milli vinnulota. Slysin verða helst á vetrarmánuðum sem væntanlega tengist því að þá eru flestir úthaldsdagar. Úthaldsdagar eru að jafnaði færri í desember en aðra mánuði ársins og það skýrir sennilega lægri slysatíðni þann mánuð.
Nánast öll banaslys og mikill meirihluti annarra slysa eiga sér stað á fiskiskipum. Slys um borð í kaupskipum virðast fátíð, en ekki fengust upplýsingar um fjölda starfandi sjómanna á kaupskipum þar sem þau eru nánast öll skráð erlendis og skipverjar því ekki lögskráðir hérlendis.
Ætla mætti að reynslulitlir sjómenn lentu frekar í slysum en þeir reyndari, en athyglisvert er að 69% slysa verða hjá sjómönnum með meira en fimm ára starfsreynslu. Þar sem flest slysin verða við töku á veiðarfærum má ætla að reyndari sjómenn séu frekar hafðir við þau störf en þeir sem óreyndari eru. Ekki er hægt að útiloka að með tím-anum verði menn kærulausir eða gleymi að gæta að sér. Athygli þeirra reyndari, sem oftar hafa lent í erfiðum aðstæðum, slaknar ef til vill þegar vel viðrar og aðstæður eru góðar. Störf við meðferð veiðarfæra valda flestum slysum og samrýmist það niðurstöðum rannsókna frá Frakklandi3 og Danmörku.19 Togveiðar virðast vera hættulegustu fiskveiðarnar þar sem 51% slysa verða við slíkar veiðar en einungis 4% slysa sem koma til meðferðar á Landspítala verða á nótaveiðum.
Skipting slysa eftir orsökum í þessari rannsókn er nánast eins og í niðurstöðum rannsóknar á orsökum 576 slysa á fiskimönnum sem komu til meðferðar á slysadeild í Esbjerg í Danmörku 1990-1997.20 Staðsetning áverka á líkamann er mjög svipuð í þessari rannsókn og í franskri rannsókn tímabilið 1996-20013 og norskri rannsókn tímabilið 1991-1996.21 Algengast er að áverkar séu á út limum og þar af eru áverkar á höndum algengastir.
Í þessari rannsókn var leitað eftir upplýsingum úr þremur mismunandi skrám sem fært er í eftir mismunandi skilyrðum. Verður það að teljast helsti veikleiki rannsóknarinnar. Nokkuð öruggt er að öll banaslys eru tilkynnt til rannsóknarnefndar. Samkvæmt lögum ber skipstjóra, útgerðarmanni, Tilkynningarskyldu íslenskra skipa, Landhelgisgæslu, lögregluyfirvöldum eða öðrum sem fregna af banaslysi á sjó skylda til að tilkynna og ganga úr skugga um án undandráttar að rannsóknarnefnd sjóslysa fái vitneskju um slysið.22 Slys önnur en banaslys eru einnig tilkynningaskyld til nefndarinnar en það sýnir sig að aðeins 24% þeirra slysa sem tilkynnt voru til TR á tímabilinu sem rannsóknin fjallar um voru jafnframt tilkynnt rannsóknarnefnd sjóslysa.23 Brýnt er að bæta upplýsingaflæði til nefndarinnar.
Tilkynningar um slys berast TR af öllu landinu og má því ætla að sú skráning gefi besta mynd af tíðni slysa hjá sjómönnum. Tilkynning til TR er háð þeim skilyrðum að slysið sé bótaskylt og er það góður hvati til að skráning fari fram. Óljóst er hversu mörg minniháttar slys eru ekki tilkynnt og rannsóknin nær því ekki til allra slysa á sjó, en gera má ráð fyrir því að alvarleg slys séu ávallt tilkynnt.
Á slysa- og bráðadeild Landspítala eru skráðar allar komur vegna slysa, bæði minni- og meiriháttar áverkar. Ekki er vitað hversu margir sem lenda í slysum á sjó leita til annarra sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana á Íslandi, nema það sé tilkynnt til TR eða rannsóknarnefndar. Þannig er norræna slysaskráin ekki lýðgrunduð, en kosturinn við þessa skrá er að hún er framsýn og í henni felast miklar upplýsingar um aðstæður þegar slys verða. Starfsfólk slysa- og bráðadeildar skráir staðlaðar upplýsingar frá sjúklingnum við komu en gæði skráningar verða alltaf háð svarhlutfalli, ná kvæmni skrásetjara og þeim sem veitir upplýsingarnar.
Í þessari rannsókn hafa þessar þrjár skrár verið teknar saman til að fá heildræna mynd af slysatíðni hjá sjómönnum en í því felst ákveðin óvissa. Auðveldara væri að gera sér grein fyrir umfangi vandamálsins ef til væri ein slysaskrá á Íslandi með vel skilgreindum inntökuskilyrðum, breytum og góðu eftirliti með að tilkynningarskyldu væri sinnt. Slysaskrá Íslands gefur möguleika á slíkri skráningu en þá þurfa sjúkrahús og heilsu gæslustöðvar að senda inn tilkynningu um sjóslys úr Sögu, sjúkraskrárkerfi viðkomandi stofnunar. Upplýsingar um sóknardaga, úthald skipa á sjó og fjölda sjómanna um borð þyrfti að tengja við skráninguna. Hafin er gerð samræmds gagnagrunns um slys á sjó að tilstuðlan Siglingastofnunar Íslands í samvinnu við Rannsóknarnefnd sjóslysa. Þar sem flest slys hjá sjómönnum verða við góðar ytri aðstæður og hjá mönnum með fremur langa starfsreynslu er frekari rannsókna þörf á vinnuaðferðum og öryggisráðstöfunum um borð. Sérstaklega á þetta við um borð í fiskiskipum þar sem starfið virðist vera mjög áhættusamt. Nauðsynlegt er að reyna að bæta vinnuaðferðir og fækka þannig slysum í þessari starfsstétt.
Ályktun
Eins og hjá öðrum þjóðum er tíðni vinnuslysa hjá íslenskum sjómönnum há, bæði banaslysa og annarra slysa. Slysin verða oftast við góðar ytri aðstæður og má oftast rekja þau til vinnuaðferða. Bæta þarf skráningu þessara slysa á landsvísu með samræmingu skráningaraðferða og með því að allar sjúkra- og heilbrigðisstofnanir innleiði NOMESCO slysaskráningakerfi. Þá þarf einnig að rannsaka nánar vinnulag sjómanna svo finna megi orsakir hinna tíðu slysa og beita forvörnum markvisst.
Þakkir
Hinar bestu þakkir fá Gísli Viggósson og Jón Bernódusson hjá Siglingastofnun Íslands fyrir hvatningu til verksins og stuðning. Ingibjörg Richter á upplýsinga- og tæknisviði Landspítala fær miklar þakkir fyrir aðstoð við öflun gagna.
Heimildir
1. Útflutningur og útflutningsframleiðsla sjávarafurða 2007. Hagtíðindi, Hagstofa Íslands 2008.
2. Driscoll TR, Ansari G, Harrison JE, Frommer MS, Ruck EA: Traumatic work related fatalities in commercial fishermen in Australia. Occup Environ Med 1994; 51: 612-6.
3. Chauvin C, Le Bouar G. Occupational injury in the french sea fishing industry: A comparative study between the 1980s and today. Accident Analysis Prevention 2007; 39: 79-85.
4. Roberts SE. Occupational mortality in british commercial fishing, 1976-95. Occup Environ Med 2004; 61: 16-23.
5. Hansen HL, Nielsen D, Frydenberg M. Occupational accidents aboard merchant ships. Occup Environ Med 2002; 59: 85-91.
6. O'Connor PJ, O'Connor N. Work-related maritime fatalities. Accid Anal Prev 2006; 38: 737-41.
7. Rafnsson V, Gunnarsdóttir H. Fatal accidents among Icelandic seamen: 1966-86. Br J Ind Med 1992; 49: 694-9.
8. Pétursdóttir G, Hjörvar T, Snorrason H. Fatal accidents in the Icelandic fishing fleet 1980-2005. Int Marit Health 2007; 58: 47-58.
9. Aasjord HL. Tools for improving safety management in the Norwegian fishing fleet occupational accidents analysis period of 1998-2006. Int Marit Health 2006; 57: 76-84.
10. Work-related accidents in the EU - the statistical picture (1998-1999). European Agency for Safety and Health at Work, EU 2001
11 Baker SP, O´Neill B, Haddon W Jr, Long WB. The Injury Severity Score: A method for describing patients with multiple injuries and evaluating emergency care. J Trauma 1974; 14: 187-96.
12. American Association for the Advancement of Automotive Medicine: The abreviated injury scale. Des Plaines, III: American Association for the Advancement of Automotive Medicine, 1990 revision, update 1998.
13. www.hagstofa.is/hagtolur/Laun,-tekjur og vinnumarkadur/vinnumarkadur.
14. Stöðugleikinn skiptir sköpum. Til sjávar. Fréttabréf Siglingastofnunar 2009; 13: 10.
15. Ársskýrsla 2004. Vinnueftirlit ríkisins 2005: 22.
16. Ársskýrsla 2005. Vinnueftirlit ríkisins 2006: 25.
17. Tryggingarstofnun ríkisins. Fjöldi öryrkja sem metnir hafa verið 10-49% öryrkjar í kjölfar slyss 1984-2005. www.tr.is/media/gjaldskrar/Tafla4.4_net.XLS Maí 2008.
18. Lovísa Ólafsdóttir. Áhrif hvíldar á heilsu og öryggi sjómanna. Rannsókn á íslenskum sjómönnum. Samgönguráðuneytið maí 2004.
19. Jensen O. Injury risk at the work processes in fishing: A case-referent study. European Journal of Epidemiology 2006;21:521-527.
20. Jensen OC. Non-fatal occupational fall and slip injuries among commercial fishermen analyzed by use of the NOMESCO injury registration system. Am J Ind Med 2000;37:637-644.
21. Bull N, Riise T, Moen BE. Occupational injuries to fisheries workers in Norway reported to insurance companies from 1991 to 1996. Occup Med (Lond) 2001;51:299-304.
22. Lög um rannsókn sjóslysa nr. 80/2000.
23. Rannsóknarnefnd sjóslysa. Skýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árið 2006. 2007;:30
krisig@landspitali.is
krisig@landspitali.is