12. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Frá smæstu frumu til stærsta fjalls - umfang Valgarðs Egilssonar

„Ég vil kalla þetta veraldarsögu,“ segir Valgarður Egilsson sem hefur ritað æviminningar sínar og gefur út undir heitinu Steinaldarveislan. Í formálsorðum segir hann: Við erum eins og víkingarnir og aðrir forfeður okkar að erfðum til. Tegundin maður breytist ekkert að kalla á þúsund árum, (og hefur þar með varla breyst neitt á fimm þúsund árum, frá steinöld.)


„Ég hafði óslökkvandi áhuga á fólkinu og alvörulífi þess, leikverkinu sjálfu, alvöruleiknum. Með snert
af kómedíu. Og umgjörðina, sviðið, myndaði náttúran sjálf,“ segir skáldið og vísindamaðurinn
Valgarður Egilsson.

Frásögnin hefst með fæðingu sögumanns á jafndægri á vori, þann 20. mars 1940 á Grenivík við austanverðan Eyjafjörð. Sonur hjónanna Egils Áskelssonar og Sigurbjargar Guðmundsdóttur er lengst af bjuggu í Hléskógum í Höfðahverfi. Þar voru æskustöðvar Valgarðs. Hann rekur báðar ættir sínar til hinna fornu og nú horfnu byggða austan við Eyjafjörð, í Fjörðum og á Flateyjardalsheiði hvar bjuggu árhundruðum saman, allt frá landnámi, nokkur hundruð manns. „Þær byggðir fara að leggjast af um aldamótin 1900 og eyddust síðan alveg á skömmum tíma; síldin og seinna stríðið áttu stærstan þátt í þessu,“ segir Valgarður.

 

Fæddur í miðju heimsins

„Grenivík er miðja  heimsins. Þeir sem eru fæddir þar niðri á bakkanum þeir vita þetta, þar er miðja heims. Það fékk ég staðfest þegar ég sjö vetra fór að stauta mig fram úr landakortum, alls staðar stóð: svo og svo margar gráður west from Gre-en-wich. Greenwich hlaut að þýða Grenivík. Og ekki bara að staðir veraldar væru miðaðir við Grenivík heldur var tíminn það líka. Greenwich mean time.“

Valgarður var og er náttúrubarn. Systkinahópurinn var stór, 8 börn fæddust foreldrum hans og 7 komust upp.  „Við höfðum óslökkvandi áhuga á landinu, gróðrinum og dýralífinu. Ég nýtti hverja stund til gönguferða um landið í kring. Maður hafði augun opin. Þá kom ég auga á pínulitla jurt í klettasprungu. Grasafræðingar greindu þetta. Hún hafði ekki fundist áður á Íslandi, og fékk heitið skeggburkni. 60 árum síðar fannst annað eintak skammt frá. Ég vitja jurtarinnar gjarnan í heimsóknum mínum eftir að ég var fluttur burt.

Ég kom löngu síðar til Kína og heimsótti barnaheimili. Börnin þar höfðu að meðaltali 6 fermetra til að hreyfa sig á. Við systkinin höfðum 600 ferkílómetra, fjalllendið milli Eyjafjarðar og Skjálfanda. 

Náin sambúð við dýr hafði líka varanleg áhrif. Hundar, hestar, kýr og kindur. Ég hef alltaf verið sannfærður um að dýr hugsi og hafi tilfinningar. Við persónugerðum náttúruna. Lækur í vorleysingum hafði skap og ætlan. Landkenni voru persónugerð. Vindurinn líka. Veðrin. Ég hafði óslökkvandi áhuga á fólkinu og alvörulífi þess, leikverkinu sjálfu, alvöruleiknum. Með snert af kómedíu. Og umgjörðina, sviðið, myndaði náttúran sjálf.“


„Ég hélt að teikning yrði mitt ævistarf,“ segir Valgarður sem skreytir bók sína mörgum skemmtilegum 
teikningum. Hér svala þorsta sínum smali, hestur og hundur.

 

Germönsk og keltnesk blanda

Drjúgur hluti bókar Valgarðs er helgaður því mannlífi og náttúru sem hann ólst upp við á 5. áratug síðustu aldar. „Tacitus, sagnaritarinn rómverski, hefði nefnt okkur í framhjáhlaupi sem venjulegan germanskan stofn með sterkri keltneskri blöndu, fólk þetta væri frábitið heimspeki, vopnlaust og varnarlaust. Tacitus hefði nefnt eins og hann segir um Germani, að börn þeirra væru ævinlega moldug upp fyrir haus – en þau væru ávallt hraustleg og glaðleg. Og að þjóðarbrot þetta væri sagt trúa á ímynduð öfl í náttúrunni, á stokka og steina og nefndi börn sín eftir grjótinu. Þessi lýsing passar einmitt alveg. Í þessari menningu austan Eyjafjarðar vorum við strákar einmitt alltaf moldugir upp fyrir haus og þó hraustir. Alltaf úti. Og reyndar berfættir hálft árið. Og við vildum ekki styggja ímynduð öfl í náttúrunni. Tacitus hefði nefnt þjóðarbrotið berfætta utanhússfólkið. Þessi forna menning vék á fáum áratugum við tilkomu tæknialdar. Síldin gaf peninga og stríðið peninga og tækni. Vélvæðing hófst fyrir alvöru og fólkið flutti á mölina.“

 

Fermdur upp á ástina og Willys

Valgarður segir skemmtilega frá því hvernig hann féllst á að láta ferma sig. „Ég trúði ekki á guð. En ég var skotinn í stelpu á Grenivík og sá möguleikann á að hitta hana ef ég gengi til spurninga. Svo var presturinn í Laufási orðinn lasburða og átti erfitt með að keyra jeppa sinn. Ég tók að mér að keyra fyrir hann út á Grenivík. Þannig fermdist ég upp á ástina og Willysjeppaakstur.“

Skólaganga Valgarðs var endaslepp framanaf að hans sögn. „Ég lærði mest heima af eldri systkinum mínum en í skóla gekk ég lítið. Ég var þó 5 vikur í barnaskóla á Grenivík og lærði tvennt: Að það eru tvö l í Halldór og að héraðið Saskatchewan er í Kanada. Síðan var ég einn vetur í Alþýðuskólanum á Laugum í Reykjadal og lærði bókstaflega ekki neitt. Annan vetur á Héraðsskólanum á Laugarvatni. Eftir einn vetur í Menntaskólanum í Reykjavík settist ég á skólabekk í Menntaskólanum á Akureyri. Það var afskaplega afturhaldssamur skóli. Engin yfirsýn, engin heimspeki. Íslenskukennslan var ágæt, latínan og franskan einnig, en að maður þroskaðist eitthvað sem manneskja var af og frá. Náttúrufræði og heimspeki náttúrunnar var gjörsamlega hunsuð þó kennarinn væri Steindór Steindórsson, ágætur grasafræðingur, en náttúrufræðikennsla fór fram án þess að menn litu út um gluggann. Ég hafði áhuga á náttúrufræði af öllu tagi. Mest stundaði ég þó teikningu, aðallega pennateikningar. Ég hélt að teikning yrði mitt ævistarf. Taldi þó rétt að taka stúdentspróf og hafði þá fengið mikinn áhuga á heimspekilegum efnum. Ég setti dæmið svo upp að fyrir heimspekivinnu væri gott að þekkja fyrst manninn sem dýr, þekkja bæði efnislega gerð þess manndýrs og líka að þekkja til atferlis þeirrar tegundar. Í MA var líkami mannsins aldrei á dagskrá sem viðfangsefni í námi. Atferli tegundarinnar manns, félagsleg hegðun, var ekki til umræðu. Ég fór því fyrst í læknisfræði við Háskóla Íslands. Að henni lokinni heillaðist ég af frumunni sem kalla mætti grunneiningu lífveranna. Varð að skilja hvað drífur hana áfram.“


Orkubúskapur frumna

Væntingar til háskólanámsins snérust þó upp í nokkur vonbrigði að sögn Valgarðs. „Jón Steffensen, hinn merkasti vísindamaður, kenndi vefjafræði og anatómíu. Hann var ómögulegur kennari, einn sá versti sem ég hef haft. Efnafræði kenndi Steingrímur Baldursson, óskaplega fínn kennari, ég lærði mína efnafræði af mikili nautn. Í miðhluta námsins eignaðist ég dóttur, Arnhildi sem nú er organisti við Lágafellskirkju í Mosfellssveit. Síðar hitti ég Katrínu Fjeldsted, við giftum okkur 6 mánuðum síðar.

Eftir námið í læknisfræðinni hélt Valgarður til London árið 1972 ásamt eiginkonunni Katrínu og dóttur þeirra, Jórunni Viðar, og þar bjuggu þau næstu 7 árin þar til þau fluttu heim að nýju árið 1979. „Ég stundaði þarna rannsóknir á orkubúskap frumunnar, hafði mestan áhuga á að komast að því hvort brenglaður orkubúskapur frumna gæti valdið krabbameini. Gallinn var sá að ég var einn um þennan áhuga og fékk því hvergi neina styrki og lítinn faglegan eða móralskan stuðning. Upphafsmaður að þessum kenningum var þýskur gyðingur, Otto Warburg, á þriðja áratug aldarinnar, en kenningum hans hafði verið sópað út af borðinu 30 árum áður en ég kom til London 1972. Það liðu enn 25 ár, þar til um þúsaldarmótin 2000, að áhugi vísindasamfélagsins kviknaði aftur á orkubúskap frumnanna og þá var aftur litið til kenninga Ottos Warburg. Þá var ég farinn yfir í rannsóknir á brjóstakrabbameini, erfðaþætti þess og ekki auðhlaupið fyrir mig að taka á ný til við mitt fyrrverandi sérsvið, orkubúskapinn. Það var of seint, nema maður henti öllu frá sér, skrifum og öllu. Nú hamast menn um allan heim við rannsóknir á orkubúskap/metabólisma krabbameinsfrumna. Og mikilvægar upplýsingar flæða inn í vísindatímaritin.

En í London vann ég að þessum rannsóknum launalaus í 7 ár og Katrín, sem þá var í sérnámi í heimilislækningum, vann fyrir okkur sem aðstoðarlæknir á lágum launum. Vinnuvikan hennar gat verið allt að 120 klukkustundir. Það var ómanneskjulegt. Í London urðum við fyrir því að 5 ára drengur, sonur okkar, varð fyrir bíl og lést. Það er erfiðasta reynsla sem foreldrar verða fyrir.“


Kápan á bók Valgarðs, Steinaldarveislunni, sem var að
koma út hjá Saga forlaginu.

 

Erfðafræði brjóstakrabbameins

Eftir heimkomu til Íslands var Valgarður stundakennari í frumulíffræði við læknadeild HÍ og kom sér upp rannsóknaraðstöðu við Rannsóknastofu í meinafræði. „Aðstaðan var reyndar engin í fyrstu en ég kom upp rannsóknarstofu í húsakynnum gamla Hjúkrunarskólans, nú Eirbergi, og var þar í nokkur ár með góðum árangri. Ég fékk í lið með mér nokkra af bestu stúdentunum í læknadeildinni, til dæmis Vilmund Guðnason og Sigurð Ingvarsson, sem hafa um árabil verið meðal okkar fremstu vísindamanna, Vilmundur forstöðumaður hjá Hjartavernd og Sigurður á Tilraunastöðinni á Keldum.

Um svipað leyti var auglýst staða prófessors í vefjafræði við læknadeild og ég var eini umsækjandinn. Ég var með doktorsgráðu í frumulíffræði og sérfræðiviðurkenningu í frumumeinafræði og hafði verulega reynslu af vefjafræði. Þremur vikum eftir að umsóknarfrestur var runninn út var tekið við annarri umsókn og þremur vikum ennþá síðar var tekið við þeirri þriðju. Dómnefnd valdi þriðja umsækjandann. Háskóli Íslands veitti mér síðar viðurkenningu, nafnbótina klínískur prófessor. Fylgir þeirri nafnbót heimild til að panta miða á árshátíð háskólakennara.

Undir ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen fór verðbólga í 120% og þurfti að grípa til niðurskurðar á Landspítalanum. Staða mín var þá skorin niður til hálfs. Líklega vegna þess að enginn skildi nokkurn skapaðan hlut í því hvað ég var að fást við og þótti þá ekki tiltökumál að skera niður.“

Rannsóknir Valgarðs tóku við þetta nýja stefnu, og segist hann hafi orðið að snúa sér að rannsóknum sem skírskotuðu meira til ráðandi manna. „Við snerum okkur að erfðafræði brjóstakrabbameins og það gekk afskaplega vel. Brautryðjendastarf okkar á því sviði skipti sköpum fyrir þetta rannsóknasvið. Við röktum ættir einstaklinga með hjálp Erfðafræðinefndar og Krabbameinsskrár og áttum verulegan þátt í því að einangra krabbameinsgenin BRCA-1 og BRCA-2. Ég keyrði um landið þvert og endilangt og safnaði blóði úr fólki sem fengið hafði meinið og eins úr ættingjum þess. Þessi ferðalög áttu vel við mig, mann sem hafði áhuga á fólki, ættfræði og landkönnun. Ég vann að þessum rannsóknum með úrvalsfólki, Rósu Barkardóttur, Vilmundi Guðnasyni, Aðalbjörgu Jónsdóttur, Aðalgeiri Arasyni og Óskari Þór Jóhannsyni. Ýmsa fleiri nefni ég í bókinni sem komu að þessum rannsóknum. Nokkru síðar hóf Krabbameinsfélagið líka rannsóknir og samanlögð vinna þessara tveggja íslensku rannsóknarstofa varð til mikils ávinnings fyrir læknavísindin.

Tölvutækninni fleygði fram á þessum árum. Erlendis var nú þróuð sjálfvirkni og varð 100 sinnum hraðvirkari en þegar allt var gert „í höndunum”. Eða þúsundfalt hraðari. Það varð líka mögulegt að lesa úr flóknum tölfræðigögnum. Tíundi áratugurinn var tímabil gríðarlegra breytinga í vísindarannsóknum. Upp spretta nýjar greinar á sviði lífvísinda og erfðafræði sem tölvutæknin gerði mögulegt að stunda. Við þessar nýju aðstæður komu miklir peningar inn í greinina. Þá var þetta orðið allt annað mál.

Í dag, á árinu 2014, átta menn sig varla á því að þegar ég tók land í London 1972 er það aðeins fáeinum árum eftir að grunnbygging á DNA sameind var útskýrð. Enginn hinna ungu vísindamanna nú á 21. öld getur gert sér grein fyrir hve stutt menn voru komnir í erfðafræðinni um miðja 20. öld.“

 

Skáld og fararstjóri

Skáldskapur og listsköpun hefur átt stóran þátt í lífsverki Valgarðs og eftir hann liggja leikrit, ljóðabækur og teikningar. Er hann ekki síður þekktur sem skáld en vísindamaður. „Ég hef aldrei getað án skrifa verið. Einu sinni var mér boðin stjórnunarstaða þar sem ég sá fram á að ég gæti ekki sinnt skáldskapnum samhliða. Ég afþakkaði. Ljóðagerð, teikningar, leikritaskrif hafa átt hug minn allan á stundum.“

Margir þekkja Valgarð einnig sem afburða fararstjóra í gönguferðum um fjalllendi beggja vegna Eyjafjarðar. „Ég fór upphaflega í gönguferðir með ættingjum og læknastúdentum. Þetta vatt fljótt upp á sig. Ég tók að mér fasta fararstjórn í gönguferðum um skagann, ýmist fyrir Ferðafélag Íslands eða Grenvíkinga. Sinnti því svo með ánægju hvert sumar í 30 ár, einnig um Héðinsfjörð og Hvanndali. Bar titil varaforseta Ferðafélags Íslands í 9 ár. Það eru forréttindi að fá að sýna fólki landið okkar.“

Í lokakafla bókar sinnar sem Valgarður nefnir Hvernig menn umgengust helga dóma fjallar hann um ástand hnattarins okkar. Þar dregur saman þekkingu sína og tilfinningu, raunvísindamaðurinn og skáldið Valgarður Egilsson.

„Við erum erfðafræðilega eins og steinaldarmenn. Við steinaldarmenn efnuðum í veislu. Hún hefir staðið í 300 ár og nú eru veisluföng á þrotum,“ segir hann.

Ekki verður gerð tilraun til að sjóða inntak lokakaflans niður í nokkrar línur en sláum botn í þetta samtal með eftirfarandi tilvitnun:

Það er smánarefni að stjórnmálamenn skuli ekki hysja upp um sig brækurnar og reyna að skilja hættur mannkyns, í hverju þær liggja. Fínar smíðar eru oft aðdáunarverð menningarverk. Steinaldarmenn sumir náðu langt í smíði ýmiss konar, meðal annars vopna. Það er það sem víkingar á Norðurlöndum gerðu; smíðuðu fín skip og skæð vopn – og réðust svo á aðra.

Hámenning 20. aldar fólst í því sama; flinkir menn smíðuðu sér enn betri tæki, flinkir að smíða sér vopn. Og því trúðu þeir að þetta væri hámenning. En þetta voru þá aðallega tæknibrögð. Enda höfðu menn gleymt því að í hámenningu þarf að finnast eitthvað af alúð og ást, ef standa á undir því nafni. Annars er þetta eitthvað allt annað.


Tækniöld var stutt á veg komin í bernsku Valgarðs.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica