11. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Guðmundur Björnsson landlæknir - 150 ára minning. Páll Ásmundsson

Guðmundur var fæddur 12. október 1864 í Gröf í Víðidal. Foreldrar hans voru Björn Leví Guðmundsson og Þorbjörg Helgadóttir og fluttu þau að Marðarnúpi í Vatnsdal er Guðmundur var 9-10 ára og var hann gjarnan kenndur við þann bæ. Hann var elstur 15 systkina, en af þeim náðu 6 fullorðinsaldri.


Guðmundur Björnsson landlæknir (1864-1937).

Faðir Guðmundar var meðalhár, þrekinn, góður smiður, hæglátur, en móðir hans var greind, glaðleg og dugleg ljósmóðir. Guðmundur þótti líkur föður sínum í útliti, en móður í framkomu.  

Síra Hjörleifur Einarsson á Undirfelli kenndi Guðmundi og nafna hans Hannessyni og hvatti foreldra beggja að senda þá til náms. Þeir settust samtímis í Lærða skólann haustið 1882 og urðu samferða gegnum stúdentspróf og embættispróf.

Nágrannakona Marðarnúpshjóna var frænka Sólveigar, konu Sigfúsar Eymundssonar bóksala, og útvegaði hún Guðmundi vist hjá þeim hjónum meðan hann nam við Lærða skólann. Hann trúlofaðist þar Guðrúnu Sigurðardóttur, hálfsystur Sólveigar.  

Guðmundur var löngum efstur í sínum bekk í Lærða skólanum. Þegar hann lauk stúdentsprófi 1887 hafði harðnað svo á dalnum fyrir norðan að foreldrar hans treystu sér ekki til að styrkja hann til frekara náms en þá hljóp Sigfús Eymundsson undir bagga og styrkti allt hans háskólanám.

Guðmundur fór utan sumarið 1887 til náms við Hafnarháskóla. Hann stofnaði, ásamt Bjarna frá Vogi, Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn. Var hann kosinn í stjórn á stofnfundi 1892. Þegar á öðrum fundi hafði hann framsögu um „læknaskólamálið“. Sigfús B. Blöndal bókasafnsvörður sagði um Guðmund: „Hann var sennilega best máli farinn allra stúdenta sem þá voru í Höfn.“ Guðmundur lauk embættisprófi í janúar 1894.

Starfsferill Guðmundar var glæsilegur. Er hann kom heim frá námi haustið 1894 var hann settur til að kenna lyflæknisfræði við Læknaskólann en stundaði jafnframt læknisstörf í Reykjavík. Haustið 1895 var hann settur héraðslæknir í Reykjavíkurhéraði og skipaður árið eftir. Kenndi hann áfram læknanemum og einnig ljósmæðranemum.


Marðarnúpur í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu um 1900. Mynd úr bókinni Föðurtún sem eru endur-
minningar Páls Kolka læknis og kom út 1950.

Haustið 1906 var hann skipaður landlæknir og gegndi því embætti til 1931. Hann var jafnframt forstöðumaður Læknaskólans og kenndi þar til 1911 er stofnuð var læknadeild Háskóla Íslands en þar sinnti hann nokkurri kennslu. Auk þessa stundaði hann lengst af lækningar.

Guðmundur var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1899-1905. Hann sat á Alþingi 1905-1907 og frá 1913 til 1922. Forseti Efri deildar Alþingis var hann 1916-1922. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum, var í stjórn Íþróttasambands Íslands og formaður Slysavarnafélags Íslands frá stofnun þess 1928 til 1932.

Guðmundur kvæntist 1895 Guðrúnu heitkonu sinni og bjuggu þau fyrst í gamla spítalanum við enda Aðalstrætis en Guðmundur keypti fljótlega húsið Amtmannsstíg 1. Byggði hann við það turn og bjó þar til æviloka. Þeim Guðrúnu varð 7 barna auðið en hún dó 1904. Árið 1908 kvæntist Guðmundur Margréti dóttur Magnúsar Stephensen landshöfðingja. Þau eignuðust einnig 7 börn en eitt þeirra fæddist andvana. Hún lifði mann sinn, lést 1946.

Þegar Guðmundur var skipaður héraðslæknir í Reykjavík náði héraðið frá  Straumi sunnan Hafnarfjarðar að Botnsá í Hvalfirði. Íbúafjöldi svæðisins var 8300. Auk Guðmundar voru tveir starfandi læknar á svæðinu, þeir Jónas Jónassen landlæknir og Guðmundur Magnússon. Starf héraðslæknisins var því mjög erilsamt.

Mörg heilbrigðisvandamál brunnu um þessar mundir á landsmönnum og þá ekki síst á Reykvíkingum. Guðmundur Björnsson skipaði sér fremst í flokk þeirra sem leysa vildu þessi vandamál bæði með beinum úrbótum og ekki síður almenningsfræðslu sem mjög var áfátt í þessum efnum. Kom honum vel að geta flutt skoðun sína í stuttu en skýru máli. Skulu hér nefnd nokkur stórmál sem hann lét til sín taka.

Holdsveiki var hér mun algengari en í nágrannalöndum. Guðmundur fór til Noregs sumarið 1896 og kynnti sér varnir gegn veikinni. Er heim kom kynnti hann þingi og stjórn tillögur um byggingu spítala er annast skyldi alla holdsveika. Með stuðningi danskra Oddfellowa var spítalinn reistur í Laugarnesi og vígður haustið 1898. Sæmundur Bjarnhéðinsson var ráðinn yfirlæknir spítalans en Guðmundur sat alla tíð í stjórn hans. Er Sæmundur lét af störfum hálfum fjórða áratug síðar mátti heita að holdsveiki væri hér útrýmt.


Guðmundur 17 ára. Úr Héraðsskjalasafni Blönduóss.

Guðmundur átti stóran þátt í baráttunni gegn berklaveiki sem breiddist ört út um landið í lok 19. aldar. Að beiðni landsstjórnar þýddi hann og gaf út tvo danska bæklinga um þetta efni er komu út 1898 og 1903. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Heilsuhælisfélagsins árið 1906 en því varð vel ágengt í söfnun peninga fyrir slíku hæli. Með viðbótarstyrk úr landssjóði var unnt að hefja byggingu Vífilsstaðahælis sumarið 1909 og var það tekið í notkun haustið 1910. Réði Guðmundur miklu um staðsetningu hælisins og undirbúning. Guðmundur var síðar í byggingarnefnd Kristneshælis sem vígt var 1927.

Guðmundur mun hafa átt stóran þátt í að semja hin fyrstu lög sem sett voru um berklavarnir 1903 en í þeim var meðal annars kveðið á um skráningu berklasjúkra. Árið 1919 var hann í milliþinganefnd er samdi ný berklavarnalög sem voru samþykkt 1921.

Enn eitt baráttumál Guðmundar var lögn vatnsveitu til Reykjavíkur og lokun gömlu vatnsbólanna sem voru uppsprettur smitsjúkdóma, ekki síst taugaveiki. Hóf hann baráttuna er hann var í bæjarstjórn. Margir töldu þetta firru er setja mundi bæinn á hausinn. Er hann hætti í bæjarstjórn og fór á þing kom Jón Þorláksson verkfræðingur inn í bæjarstjórn og saman héldu þeir baráttunni áfram uns þeir fengu lög um vatnsveitu í Reykjavík samþykkt á Alþingi 1907. Vatni var hleypt á 1909. Vatnið kom reyndar fyrst úr Elliðaánum en síðar úr Gvendarbrunnum.

Allt frá því að Guðmundur hóf störf sem héraðslæknir í Reykjavík og þar til hann lauk störfum má segja að hann hafi átt stóran þátt í smíði allrar löggjafar er til framfara horfði í heilbrigðismálum þjóðarinnar.

Árið 1918 var Guðmundi Björnssyni erfitt. Eftir tvær bylgjur inflúensu um vorið barst spænska veikin hingað til lands um haustið. Í Reykjavík geisaði hún allan nóvembermánuð, lagði þrjá af hverjum fjórum íbúum í rúmið og dró um 300 til dauða. Guðmundur var einn þriggja lækna í bænum sem voru á ferðinni nótt sem dag.

Eftir spænsku veikina reis upp alda andúðar gegn Guðmundi landlækni. Margir þeir sem áttu um sárt að binda kenndu honum um að hafa ekki reynt að hindra að veikin bærist til landsins. Hann var, jafnvel á prenti, sagður vera forfallinn kókaínfíkill og óhæfur til að gegna landlæknisstarfinu.  

Landlæknir svaraði þessum ásökunum með því að rita bækling um eðli og útbreiðslu inflúensu. Benti hann á að hvergi hefði tekist að koma í veg fyrir að veikin herjaði. Hann tók ásakanirnar nærri sér þó hann léti ekki á því bera og sárast mun honum hafa þótt að ýmsir er hann taldi til vina sinna snerust gegn honum. Varðandi kókaínneyslu var það rétt að hann notaði efnið um árabil til að fleyta sér gegnum gífurlegt vinnuálag. Honum tókst af sjálfsdáðum að hætta þeirri neyslu.

Sem landlæknir var Guðmundur duglegur við eftirlit með starfi annarra heilbrigðisstarfsmanna. Vísiteraði hann víða um land, gjarnan vel ríðandi með marga til reiðar. Hann þótti nokkuð eftirgangssamur og ávann sér andúð sumra, einkum eldri lækna. Honum var legið á hálsi að útgáfa heilbrigðisskýrslna gengi seint enda mun honum hafa leiðst skrifstofustörf og hafði við þau litla aðstoð.  Guðmundur átti sér mörg hugðarefni önnur en heilbrigðismál. Hann var góður stærðfræðingur og mun á yngri árum hafa íhugað að leggja stund á þá fræðigrein. Þá var hann mikill unnandi íslenskrar tungu. Allt sem hann lét frá sér fara í ræðu og riti var á vönduðu, skýru og gjarnan knöppu máli. Hann var snjall nýyrðasmiður og er til dæmis höfundur heitisins „togari“ sem kom í stað hins stirðlega orðs „botnvörpungur“. Hann var um tíma fylgjandi því að sleppa y og z úr málinu og ritaði um það bæklinginn Rangritunarheimska og framburðarforsmán. Guðmundur var manna fróðastur um bragfræði. Á sextugsaldri gaf hann, undir dulnefninu Gestur, út ljóðabókina Undir ljúfum lögum. Er þar slegið á ýmsa strengi. Í formála segir dr. Alexander Jóhannesson að í bókinni sé ort undir fleiri bragarháttum, fornum sem nýjum, en í nokkurri annarri íslenskri ljóðabók og gæti því kallast Háttatal Gests. Ljóðstafasetning er með ýmsu móti, jafnvel í einu og sama ljóðinu. Bókin hlaut dræmar undirtektir. Sum ljóð hans eru þekkt og enn sungin eða lesin. Má þar nefna „Hún Kata litla í Koti“, „Spinn, spinn“, „Þei-þei og ró-ró“ og „Hólamannahögg“. Í bókinni er ekki að finna eitt hans þekktasta ljóð, „Þú ert yndið mitt yngsta og besta“ sem hann orti um yngsta barn sitt, Þórdísi Ósk. Guðmundur fékkst talsvert við þýðingar. Þekkt er þýðing hans „Bálför Sesars“ á kafla úr Julius Caesar eftir Shakespeare þar sem áhersla er lögð á hrynjandi frumtextans.

Eftir það áfall sem spænska veikin reyndist Guðmundi breyttist hann verulega. Áður hafði hann verið framgjarn, stundum talinn drembilátur enda yfirburðamaður sem naut lýðhylli. Nú varð hann gæfari og hafði sig minna í frammi út á við en sinnti af alúð sínum embættisstörfum.

Guðmundur fékk lausn frá landlæknisstörfum 1931 og hafði um líkt leyti fengið vægt slag. Hann hlaut af því nokkra lömun öðru megin. Síðar fékk hann illkynja mein í auga og varð að fjarlægja það. Meinið hafði þó dreift sér og leiddi Guðmund til dauða 7. maí 1937. Að hans ósk var ekki flutt nein líkræða við útförina. Hann hafði verið talsmaður bálfara og lét brenna lík sitt.


Lækjargata, Amtmannsstígur 1 sem var heimili Guðmundar Björnssonar í 40 ár, Menntaskólinn í 
Reykjavík, Íþaka, bókasafn MR. Ljósmynd: Christian Schierbeck læknir, 1901-1902. Undir myndina 
ritaði ljósmyndarinn: „Nefnd á vegum bæjarráðsins veltir vöngum yfir stærsta rennustein bæjarins
(sem 
stendur við hliðina á honum) – þessi svokallaði „lækur“ kostar þúsundir króna árlega. Það næst
ekki 
nægjanlegur halli á frárennslinu. Litli herrann með stafinn, sem snýr baki, er héraðslæknir sem
leið
beindi mér. Hrokafullur karl sem gerir heimskuleg verkefni, lélegur biðraðalæknir.“ [Héraðslæknir
í 
Reykjavík á þessum tíma var Guðmundur Björnsson]. Mynd Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

Guðmundur Björnsson landlæknir var tvímælalaust einn þeirra er mestu fengu áorkað í heilbrigðismálum þjóðarinnar á fyrstu áratugum 20. aldar. Sem landlæknir, bæjarfulltrúi í Reykjavík og alþingismaður nýttust gáfur hans og eldmóður vel. Sá fjöldi mála sem hann vann að og barðist fyrir er ótrúlegur. Málsnilld hans og ritfærni gerðu málstað hans og boðskap þjóðinni auðskilinn og aðgengilegan.
Ágætri grein Páls V.G. Kolka læknis um ævi Guðmundar sem hér hefur mikið verið stuðst við lýkur á broti úr þýðingu Guðmundar á ljóðinu „Frægð Pasteurs“. Páll telur þær línur verðug eftirmæli Guðmundar sjálfs:

Barn! Þú verður að vita,
og vel í minni geyma,
að uppi voru áður –
aldrei má því gleyma –
vitringar – afbragðsmenn,
með eldhug aldrei trauðan,
sem fengu fært um set
fávisku manna' og – dauðann…

Heimildir

  1. Blöndal LB, Jónsson V. Læknar á Íslandi. Sögufélagið, Reykjavík 1944: 116-9.
  2. Kolka PVG. „Guðmundur Björnsson landlæknir.“ Merkir Íslendingar. Nýr flokkur II. Bókfellsútgáfan h.f., Reykjavík 1963: 199 -220.
  3. Kolka PVG. Föðurtún. Reykjavík 1950.
  4. Jóhannesson A. Guðmundur Björnsson sextugur. Ísafold 1924; 49: 1.
  5. Gestur (dulnefni): Undir ljúfum lögum. Reykjavík 1918.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica