11. tbl. 100. árg. 2014

Umræða og fréttir

Emergency Medicine Iceland - fyrsta íslenska tilfellabloggið

Blogg er fréttamiðill á netinu sem hver sem er getur stofnað án þess að hafa mikla tækniþekkingu. Þetta auðveldar mjög einstaklingsframtak og margir læknar nota blogg til að koma frá sér alls konar kennsluefni. Með bloggi er auðvelt að birta myndir, hljóð og myndbönd og því eru þau mörg hver notuð til að hýsa læknisfræðilegt margmiðlunarefni, til dæmis hlaðvörp (podcast).

Það er mér ánægja að kynna fyrsta tilfellablogg íslenskra lækna, Emergency Medicine Iceland, sem samanstendur fyrst og fremst af tilfellum af bráðamóttöku Landspítala og umræðum kringum þau. Tilgangurinn er ekki að kynna sjaldgæfa kvilla eins og í læknisfræðitímaritunum heldur hversdagsleg vandamál þannig að allir geti lært af. Bráðalækningar snúast að miklu leyti um hraða og örugga greiningu og fyrstu meðferð og hefur því snertiflöt við allar sérgreinar.

Gegnum tilfellin kynnast læknar vinnu bráðalækna en einn tilgangur bloggsins er að kynna þessa ungu sérgrein fyrir læknum á Íslandi. Það er skrifað á ensku til að höfða einnig til erlendra lækna og kynna fyrir þeim stöðu bráðalækninga á Íslandi. Til gamans má geta þess að á einu ári hafa okkur borist þrjár fyrirspurnir erlendis frá um vinnu á bráðamóttöku.

Loks notum við bloggið til að vísa í annað frábært kennsluefni á netinu og hvetjum þannig íslenska kollega okkar til að kynnast frekar heimi FOAM (Free Online Accessible Medical Education).

Það er einmitt áðurnefndur einfaldleiki sem gerir lækna tortryggna um innihald og gæði efnis á bloggum þar sem hver sem er getur skrifað um hvað sem er. Það er samdóma álit lækna í bloggheimum erlendis að skrif undir nafni og aðgengilegar upplýsingar um höfunda og tilgang bloggsíðunnar ásamt gæðavottun HON (Health on the Net Foundation) sjái til þess að þetta er ekki vandamál, sbr: „HON‘s mission is to guide Internet users to reliable understandable accessible and trustworthy sources of medical and health information.

Möguleiki lesenda til að tjá sig undir nafni um staka bloggpósta (umræður) tryggir enn frekar að höfundur vandar skrif og frágang en útbreiðsla bloggsíðunnar er undir lesendunum komið.

Stofnun tilfellabloggsins fylgir sama ferli og undirritaður rataði í gegnum við háskólasjúkrahúsið í Lundi þar sem svona blogg var rekið. Það var gert eftir samráð við lögfræðing og yfirmenn sjúkrahússins og sænska læknablaðið. Eins og þegar tilfelli eru birt í Læknablaðinu er séð til þess að engin persónugreinanleg atriði séu til staðar og áhersla lögð á faglega framsetningu. Tilfellabloggið hefur verið kynnt fyrir framkvæmdastjórn Landspítala og yfirlæknir bráðamóttöku samþykkt það. Fyrsta tilfellið er unnið í samvinnu við lungnalækni og framkvæmdastjóra lækninga spítalans.

Slóðin er emergencymedicineiceland.blogspot.com



Þetta vefsvæði byggir á Eplica